Ég hef gaman að Maraþonmæðgunum sem eru að kynna Reykjavíkur maraþonið í ár. Er búin að horfa á öll vídeó-in og flissa af þessum vitleysingum, snillingar.
Í morgun fór ég í langa laugardagstúrinn minn að venju. Byrjaði með bóndanum en hleypti honum svo á fulla fart meðan ég naut þess að rúlla þetta þægilega í blíðunni eftir strembna keppnisviku og 3 Esjur...
Í því sem ég hleyp fram hjá Kaffi Vest mæti ég Maraþon móðurinni á hlaupum! Ég var bara smá star-struck og sagði eitthvað bjánalegt eins og 'Áfram Maraþonmæðgur!...' Mehh...
En svo fór ég að hugsa hvað það væri gaman að vera 'Maraþonmæðgur'. Við mamma áttum báðar frekar strembin vetur og þurfum að skerpa á matarræði og hreyfingu til að komast aftur í topp form.
Á leiðinni heim var ég í huganum búin að skrá okkur mömmu í RM, búin að setja upp síðu á Hlaupastyrkur.is fyrir okkur til að safna fyrir sumarbúðirnar í Reykjadal (af því við erum svo heppnar að hafa eignast samtals 8 heilbrigð börn) og byrjuð að taka skemmtileg vídeó af þjálfuninni. Alveg komin á flug...
Mamma kom í kaffi áðan og ég sagði henni frá þessari snilldarhugmynd með ástríðu og handahreyfingum til að sannfæra hana. 'Já auðvitað, ég er til!'.
Má ég kynna... Team Skarpaas. Við ætlum að rústa þessu!!! Eða bara skemmta okkur rosalega vel á ferðalaginu og verða aðeins betri á morgun en í gær :)