"Hvað ætlarðu að gera í páskafríinu?" Akkúrat það, vera í páskafríi. Ég ætla ekki að gera neitt sem ég þarf ekki að gera, bara dóla mér, hvíla mig, hlaupa og slaka á. Og reyndu bara að segja mér að drífa mig að gera eitthvað eða 'Við verðum að nýta daginn...'. Og þetta er búið að vera besta páskafrí í heimi.
Í gærmorgun lögðum við hjónin af stað í langan hlaupatúr. Þegar við erum rétt komin að brúnni yfir Miklubraut sjáum við mann koma skjögrandi í áttina að okkur, greinilega ofurölvi. Við erum rétt komin framhjá honum þegar heyrist mikill dynkur og við sjáum að hann hefur dottið beint á nefið.
Eitt sekúndubrot vissi ég ekki hvað ég ætti að gera, maður er hálf óöruggur og hræddur við svona drukkið fólk, en snéri svo við og hugaði að manninum. Þetta var útlendingur, geri ráð fyrir að hann hafi verið verkamaður frá Austur-Evrópu og þegar ég spyr hann hvort það sé í lagi með hann þá endurtekur hann í sífellu 'I'm sorry... I'm sorry...'. Ég horfði í augun á honum og sagði að þetta væri allt í lagi 'It's OK', kallaði á Þórólf og saman náðum við að hjálpa honum á fætur. Hann var svo valtur á fótunum að ég þorði ekki að sleppa honum strax og reyndi að fá upp úr honum hvert hann ætlaði. Það eina sem hann sagði var 'I'm sorry'. Þá vorkenndi ég honum svo mikið að ég knúsaði hann og þvílíkt knús, hann ætlaði aldrei að sleppa mér. Þegar hann loksins sleppti tautaði hann eitthvað og tók nokkur skref í áttina að Þórólfi sem hálf hörfaði undan en þá vildi hann bara knúsa hann líka. 'Thank you... Thank you... I'm sorry....' Og svo knúsaði hann mig aftur, rosalega fast.
Við horfðum á eftir honum labba inní hverfi, snérum við og gáðum hvort það væri ekki örugglega í lagi með hann. Hugsuðum um hvað við ættum það gott. Svo hlupum inn í Kópavog og í tilefni dagsins tókum við Himnastigann og það fjórum sinnum. Okkar eigið píslarhlaup.
Í dag var planið að taka æfingu í höllinni en á leiðinni sagði kroppurinn minn mér að hann væri ekki í stuði og þyrfti rólegheit eftir átök síðustu daga. Kyssti karlinn bless og hljóp áfram niðrí bæ. Á leiðinn var ég að hugsa um fyrirlestur sem ég fór á með honum Þorgrími Þráinssyni og hafði gagn og gaman af. Hann talaði um mikilvægi þess að passa uppá að gera góðverk reglulega, hann talaði án þess að hafa glærur (tek mér það til fyrirmyndar næst) og hann sagð meira að segja 'Maður þarf að vanda sig svolítið við lífið...'. Það fannst mér gaman en fyrirlesturinn minn heitir einmitt 'Að vanda sig við lífið'.
Í því að ég er að hugsa þetta, hleyp ég fram á tvær konur með kort, greinilega týndar. Ég hugsaði með mér að þetta væri akkúrat dagurinn og hlaupið til að stoppa og hjálpa til ef ég gæti. Þær voru á leiðinni í Laugardalinn og ég vísaði þeim í rétta átt og kvaddi. Áfram niðrí bæ og datt í hug að hlaupa að Hallgrímskirkju af því Lilja var nýbúin að mála mynd af henni.
Niður Skólavörðustíginn, í besta skapinu mínu og framhjá Kaffitári. Situr ekki Þorgrímur Þráinsson við gluggann og sem ég er að hlaupa framhjá hugsa ég með mér að alla jafna myndi ég bara halda áfram en í dag er öðruvísi dagur og þá ætla ég að haga mér öðruvísi. Snéri við, skottaðist inn og pikkaði í hann og þakkaði fyrir fyrirlesturinn um daginn. 'Þetta er svona öðruvísi dagur hjá mér...' Thí hí, vandræðalegt.
'Eva, ert þetta þú að áreita gestina :)' Situr ekki á næsta borði ný vinkona mín sem er kaffibarþjónn og svo miklu, miklu meira í Nýherjabyggingunni, sennilega eitt vel heppnaðasta eintak af manneskju sem orðið hefur á vegi mínum. Græddi gæðaknús og hélt svo áfram niður að Tjörn. Við Fríkirkjuna fann ég næsta fórnarlamb, mann með kort, klórandi sér í hausnum. Vísaði honum veginn að BSÍ.
Nú vantaði mig bara einn enn til að ná þremur, því góðverk eru eins og rósir. Enginn í vandræðum. Hljóp aftur upp Laugaveginn og þegar ég nálgast Hlemm sé ég mann á kaffihúsi sem horfir út um gluggann og beint á mig. Hann er svona milli sextugs og sjötugs, með hvítt hár og skegg og situr með eldri konu sér við hlið. Hann horfir á mig eins og bara hlauparar horfa á aðra hlaupara þegar þeir eru ekki að hlaupa sjálfir en vildu óska þess að þeir væru það. Ég horði til baka á hann eins og hlaupari sem er að hlaupa, sem sér hlaupara sem getur ekki hlaupið, finnur til með honum og er í leiðinni þakklátur. Sendi mitt fallegasta bros og þegar ég fór framhjá snéri hann sér við og veifaði. Allt er þegar þrennt er.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli