25. apr. 2015

Einu sinni var ég plebbi

Ég viðurkenni að hér áður fyrr þá stóð ég mig stundum að því að hugsa 'Hva, getur þetta listamannalið ekki bara séð um sig sjálft!'.   Ætli ég það hafi ekki verið á þeim tíma sem ég kaus Sjálfstæðisflokkinn...  Já, já, batnandi fólki og allt það.

Ætli það stafi ekki af smá öfund þegar fólk hugsar svona?  Listamenn eru með aðra forgangsröðun en hinn almenni plebbi.  Það skiptir meira máli að fylgja hjartanu en að eignast eitthvað drasl.  Af hverju eigum við ábyrgðarfulla fólkið að styðja við þá sem gera bara það sem þau elska að gera og við fáum að njóta, á meðan við erum að streða... af því að við veljum það?  Hmmm... 

Súrt væri lífið án tónlistar.  Ég er svo lánsöm að vinna með fullt af listamönnum og snillingum, meðal annars henni Heiðu.  Ég las grein um hana í Fréttablaðinu um daginn en ég hafði ekki hugmynd að hún væri tónlistarmaður.  En það sem ég vissi var að hún er einstök og bætir lífið hjá öllum sem eru nálægt henni með fallega brosinu sínu.  

Mitt helsta framlag til tónlistarsögu Íslands er að ég tók þátt í nafna-samkeppni þegar velja átti nafn á nýtt tónlistarhús í Reykjavík.  Ég las auglýsinguna, gekk rakleitt að tölvunni minni og skrifaði tölvupóst:

Mín tillaga er 'Harpa'.  

Rökstuðningur:
  • Harpa er hljómfagurt kvenmannsnafn sem allir þekkja.
  • Harpa er heiti á hljóðfæri sem passar náttúrulega einstaklega vel.
  • Harpa er eitt af gömlu heitunum á mánuðunum okkar og skemmtileg vísan í gamlar hefðir.
  • Harpa fallbeygist í Hörpu og þá fáum við líka sér-íslenskan staf í nafnið.
Mörgum mánuðum og svo sem einu hruni síðar fékk ég sent viðurkenningarskjal og glaðning:


En tónlistarhús er ekkert án tónlistarmanna.  Ef ég hef einhvern tímann gert eitthvað fyrir einhvern sem langar til að 'Pay it forward' þá er upplagt að kíkja á síðuna hennar Heiðu og kaupa svo sem eins og eitt lag af henni fyrir nokkra dollara svo hún finni stuðning og fái innblástur í að semja meira.

'Heiða heldur tónleika í Hörpu...' hljómar nú doldið vel er það ekki?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli