Ég á fjóra eldri bræður og ég velti því stundum fyrir mér hvernig mamma lifði af uppeldisárin. Fjórir gaurar fæddir á fimm árum, engir peningar til og það sem er mér óskiljanlegast, hún átti ekki einu sinni þvottavél! Og ég segi viljandi 'hún'.
Um það leyti sem ég kom í heiminn eða þar um bil, en þá voru stákarnir ca. 9-14 ára, bjuggum við nýbyggingu í norðanverðum Laugarásnum. Húsið var með útsýni yfir Esjuna og höfnina, sem þá var verið að byggja upp. Hafnarsvæðið var uppáhaldsleiksvæði hjá krökkunum og af sögunum sem ég hef heyrt stórhættulegt, enda engin Herdís Storgaard að passa uppá börnin okkar í þá daga.
Eitt skiptið komu stákarnir heim með drulluskítuga samfestinga sem þeir fundu niður á höfn, allir út í olíu og ógeði, en þeir voru skildir eftir af verkamönnum með öðru sorpi. Bræðrum mínum þótti mikið sport að dressa sig upp í þessari múnderingu og spígspora um bæinn.
Einn daginn var mamma að sýsla í eldhúsinu og verður litið út um gluggann. Hún sér gamla konu sem greinilega er á leið úr mjólkurbúðinni með mjólkurfernur í mjólkurnetinu sína, rölta í áttina að Badda bróður í ógeðsdressinu og gefa sig á tal við hann. Eftir nokkra stund tekur hún sig til, sveiflar netinu með mjólkurfernunnum og slær bróður minn kaldan í jörðina. Mamma stekkur út, hleypur til þeirra og spyr hvað í ósköpunum gangi á?
'Það kemur þér ekkert við!' segir sú gamla. Mamma segir það ekki rétt, hún sé móðir drengsins sem liggi í götunni. Þá snýr sú gamla uppá sig og rýkur í burtu.
Þegar Baddi rankar við sér og mamma fer að spyrja hann út í atburðarásina þá kemur í ljós að sú gamla hafði skammast yfir útganginum á honum og spurt hann hvar í ósköpunum hann hefði fengið þessa múnderingu.
Baddi bróðir svaraði: 'Í Herradeild PÓ!'.
Herradeild PÓ var flottasta tískuverlsunin í bænum, meira um það hér!