3. des. 2014

Valshlaupið 2014 - Bakið búið en ekki búin í bakinu.

Það er ekki hægt að segja að keppnishungrið sé mikið þessa stundina.  Ég er búin að vera stíf og stirð svo lengi, hef ekki tekið tempóæfingar síðan ég veit ekki hvenær og eiginlega bara hlaupið rólega fyrir utan stuttu sprettina inní Höll.  Ég ákvað að taka stöðuna að morgni keppnisdags og sjá hvernig veðrið og líðanin væru og ef ég myndi detta í stuð, þá slá til og vera með. 

Mætti klukkutíma fyrir hlaup og náði góðri upphitun.  Þrátt fyrir að vera orðin algjörlega verkjalaus í bakinu eftir síðustu trakteringar þá átti ég ennþá eftir að ná alveg úr mér stífleikanum en það er fljótt að koma þegar maður getur hreyft sig án þess að finna til.  

Frábært veður, eiginlega bara ótrúlega góðar aðstæður á þessum tíma árs og brautin er frekar flöt og þægileg ef ekki er mikill vindur.  Markmiðið var að fara undir 42 mínútur en konur sem hlaupa undir 42 og karlar sem hlaupa undir 40 fengu þúsara endurgreiddan í markinu.  Ég var með í Valshlaupinu 2012 og hljóp þá á 42:47 og í fyrra hljóp ég á 42:20 þannig að sub 42 þýddi bæting í brautinni.

Fullt af góðum félögum á startlínunni og bara gaman.  Ég var strax í upphafi fjórða kona og sá vel í tvö og þrjú en þær voru í öðrum gír en gamla og ég rúllaði þetta mjög jafnt og þægilega.
Rétt fyrir snúning á Ægissíðunni.
(Nappaði myndunum af Valssíðunni)

Á tímabili fannst mér ég vera að vinna á þær og þær skiptu um sæti sín á milli en eftir 7-8 km sá ég að ég myndi ekki ná í skottið á þeim.  9. km var slakastur hjá mér en ég verð að viðurkenna að þegar ég sá eftir pallinum þá varð ég bara pínu löt...   Ég hafði verði í samfloti við annan hlaupara langleiðina og við skiptumst á að leiða en þegar hér var komið við sögu, þá hélt hann sínu striki á meðan ég fór að lufsast.  Þegar hann var komin með smá forskot þá hristi ég slenið af mér og spýtti aftur í lófana og kláraði sómasamlega.  Hefði nú ekki verið töff að lufsast yfir 42!  
Pústað í markinu.
(Gummi meiri dóninn að smeygja sér fram fyrir mig á síðustu metrunum!  :)

Lokatíminn 41:32 og ég bara sátt, leið mjög vel eftir hlaupið og hlakka til að takast á við næstu áskorun.  Hérna eru úrslitin og svona hljóp ég þetta:





Splits  Time

1 4:01

2 4:03

3 4:06

4 4:09

5 4:12

6 4:06

7 4:06

8 4:09

9 4:23

10 4:06

11 00:06




Á sunnudaginn fórum við í Laugar SPA með vinahjónum og eftir þriggja tíma dekur og lúxus...  varð ég fárveik!  Þvílíkt svndl.  Í keng með magaverk og svo rauk ég upp í 39 stiga hita um kvöldið.  Lilja tók við mér í veikindunum og kastaði upp í hálfan sólarhring, litla skinnið mátti nú ekki alveg við því en hún er líka orðin hress aftur.  En merkilegur andsk... eftir hitann og þegar ég jafnaði mig aftur þá var ég alveg laus við stífleikann í bakinu og nú er ég bara alveg eins og ég á að vera, sem sagt komin í toppstand, yeehaawww...

Ekki má gleyma prjóna statusnum, nú eru komin kaflaskil.   Búin með bakið!

Vika 4.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli