12. des. 2014

Powerade #3 2014

Úff ekki var nú hátt á okkur hjónum risið þegar líða tók á fimmtudaginn.  Kalt og vindur, brrr...  Við tókum ekki þátt í fyrstu tveimur hlaupunum og þar af leiðandi ekki í baráttu um toppsæti sem var ekki að hjálpa til.  En pössunarpían mætti á slaginu og engin afsökun til að losna... og jú, auðvitað vissum við innst inni að þetta er alltaf hrikalega gaman þegar maður er komin á staðinn og hleypur af stað.

Vorum heilmikið að vangaveltast með fatnað.  Fór af stað í ullarbol, vindheldri peysu og jakka og í upphitun vorum við alveg á mörkunum að halda á okkur hita.  Eftir upphitun og smá slökun inn í laug fann ég nú samt að jakki væri of mikið en ákvað í staðinn að fara með hlýja húfu, buff og lúffur, verja haus og hendur.

Myndir frá Pétri Helgasyni á Powerade síðunni.
Fyrir hlaup, alveg að sofna...

Fiðrildi í maganum á startlínunni og ég var strax í upphafi 2. kona á eftir Arndísi og sá ekki í fljótu bragði að einhver gæti ógnað mér.  Við fengum vindinn í bakið fyrstu kílómetrana og gaddaskórnir svínvirkuðu í þessu færi.  Rúllaði vel fyrstu km í hóp en eftir brú og upp brekkuna var orðin ein og var að velta fyrir mér hvort ég ætti aðeins að slaka eða reyna að blasta niður að næsta hóp.  Í því kom félagi minn fram úr mér og ég negldi mig á hælana á honum.

Næstu 5-6 km voru bara snilld fyrir mig!  Ég kúrði mig í skjólinu og þurfti ekkert að hugsa, með frábæran pace-er.  Þessi félagi minn var að hlaupa aðeins hraðar en ég í Valshlaupinu en það munaði því að ég var á negldum skóm en hann ekki.  Miklu erfiðara að pjakka þetta á ónelgdu og um leið og við vorum komin yfir stífluna skildi á milli okkar, ég með þetta fína grip gat spænt upp brekkuna.  

Þegar 4-500 metrar voru eftir þá heyrði ég í einhverjum fyrir aftan mig, spýtti þá í og tók góðan sprett í mark 3:24 pace síðustu 400 m.   Tíminn ca. 44:20, ég hélt mínu og var 2. kona í mark og þetta er eitt skemmtilegasta Powerade sem ég hef tekið þátt í.

Runners high eftir hlaup :)

Þórólfur var að keppa í fyrsta sinn eftir liðþófaaðgerðina og honum gekk hrikalega vel, fór undir 40, var í topp tíu og kom brosandi hringinn í mark.

Svona hljóp ég þetta:





Splits  Time

1 4:14

2 4:12

3 4:34

4 4:15

5 4:09

6 4:05

7 4:18

8 4:30

9 5:03

10 4:34

11 :24





Engin ummæli:

Skrifa ummæli