22. des. 2014

Á erminni

Búin með hliðarnar og byrjuð á ermi.  Nú fer þetta að vera spennandi og komin mynd á þetta hjá mér.  Næ örugglega ekki að klára fyrir jól en hugsanlega í jólafríinu, það væri fínt.

Vika 6

Æfingar ganga eins og í sögu.  Er svo heppin að vera með æfingafélaga sem ýtir mér út fyrir þægindarammann og ég er að taka hraðari spretti en nokkru sinni fyrr.  Nýt þess að vera í toppstandi, þá er allt skemmtilegra.

Annars snýst mest um krakkana og jólin núna.  Við höfum aldrei áður verið tímanlega í undirbúningi og í minningunni erum við alltaf grútsyfjuð að klára að skreyta, pakka og græja seint á Þorláksmessu. 

Ekki í ár skal ég segja ykkur!  Jólatréð var komið upp um síðustu helgi, pakkarnir komnir undir með merkimiðum, maturinn stendur klár í ísskápnum og búin að plana jólaboðin.  

Nú dúllum okkur við að baka, leika okkur og njóta aðventunnar eins og manni dreymir um, mmmm.... mæli með'essu.

12. des. 2014

Powerade #3 2014

Úff ekki var nú hátt á okkur hjónum risið þegar líða tók á fimmtudaginn.  Kalt og vindur, brrr...  Við tókum ekki þátt í fyrstu tveimur hlaupunum og þar af leiðandi ekki í baráttu um toppsæti sem var ekki að hjálpa til.  En pössunarpían mætti á slaginu og engin afsökun til að losna... og jú, auðvitað vissum við innst inni að þetta er alltaf hrikalega gaman þegar maður er komin á staðinn og hleypur af stað.

Vorum heilmikið að vangaveltast með fatnað.  Fór af stað í ullarbol, vindheldri peysu og jakka og í upphitun vorum við alveg á mörkunum að halda á okkur hita.  Eftir upphitun og smá slökun inn í laug fann ég nú samt að jakki væri of mikið en ákvað í staðinn að fara með hlýja húfu, buff og lúffur, verja haus og hendur.

Myndir frá Pétri Helgasyni á Powerade síðunni.
Fyrir hlaup, alveg að sofna...

Fiðrildi í maganum á startlínunni og ég var strax í upphafi 2. kona á eftir Arndísi og sá ekki í fljótu bragði að einhver gæti ógnað mér.  Við fengum vindinn í bakið fyrstu kílómetrana og gaddaskórnir svínvirkuðu í þessu færi.  Rúllaði vel fyrstu km í hóp en eftir brú og upp brekkuna var orðin ein og var að velta fyrir mér hvort ég ætti aðeins að slaka eða reyna að blasta niður að næsta hóp.  Í því kom félagi minn fram úr mér og ég negldi mig á hælana á honum.

Næstu 5-6 km voru bara snilld fyrir mig!  Ég kúrði mig í skjólinu og þurfti ekkert að hugsa, með frábæran pace-er.  Þessi félagi minn var að hlaupa aðeins hraðar en ég í Valshlaupinu en það munaði því að ég var á negldum skóm en hann ekki.  Miklu erfiðara að pjakka þetta á ónelgdu og um leið og við vorum komin yfir stífluna skildi á milli okkar, ég með þetta fína grip gat spænt upp brekkuna.  

Þegar 4-500 metrar voru eftir þá heyrði ég í einhverjum fyrir aftan mig, spýtti þá í og tók góðan sprett í mark 3:24 pace síðustu 400 m.   Tíminn ca. 44:20, ég hélt mínu og var 2. kona í mark og þetta er eitt skemmtilegasta Powerade sem ég hef tekið þátt í.

Runners high eftir hlaup :)

Þórólfur var að keppa í fyrsta sinn eftir liðþófaaðgerðina og honum gekk hrikalega vel, fór undir 40, var í topp tíu og kom brosandi hringinn í mark.

Svona hljóp ég þetta:





Splits  Time

1 4:14

2 4:12

3 4:34

4 4:15

5 4:09

6 4:05

7 4:18

8 4:30

9 5:03

10 4:34

11 :24





3. des. 2014

Valshlaupið 2014 - Bakið búið en ekki búin í bakinu.

Það er ekki hægt að segja að keppnishungrið sé mikið þessa stundina.  Ég er búin að vera stíf og stirð svo lengi, hef ekki tekið tempóæfingar síðan ég veit ekki hvenær og eiginlega bara hlaupið rólega fyrir utan stuttu sprettina inní Höll.  Ég ákvað að taka stöðuna að morgni keppnisdags og sjá hvernig veðrið og líðanin væru og ef ég myndi detta í stuð, þá slá til og vera með. 

Mætti klukkutíma fyrir hlaup og náði góðri upphitun.  Þrátt fyrir að vera orðin algjörlega verkjalaus í bakinu eftir síðustu trakteringar þá átti ég ennþá eftir að ná alveg úr mér stífleikanum en það er fljótt að koma þegar maður getur hreyft sig án þess að finna til.  

Frábært veður, eiginlega bara ótrúlega góðar aðstæður á þessum tíma árs og brautin er frekar flöt og þægileg ef ekki er mikill vindur.  Markmiðið var að fara undir 42 mínútur en konur sem hlaupa undir 42 og karlar sem hlaupa undir 40 fengu þúsara endurgreiddan í markinu.  Ég var með í Valshlaupinu 2012 og hljóp þá á 42:47 og í fyrra hljóp ég á 42:20 þannig að sub 42 þýddi bæting í brautinni.

Fullt af góðum félögum á startlínunni og bara gaman.  Ég var strax í upphafi fjórða kona og sá vel í tvö og þrjú en þær voru í öðrum gír en gamla og ég rúllaði þetta mjög jafnt og þægilega.
Rétt fyrir snúning á Ægissíðunni.
(Nappaði myndunum af Valssíðunni)

Á tímabili fannst mér ég vera að vinna á þær og þær skiptu um sæti sín á milli en eftir 7-8 km sá ég að ég myndi ekki ná í skottið á þeim.  9. km var slakastur hjá mér en ég verð að viðurkenna að þegar ég sá eftir pallinum þá varð ég bara pínu löt...   Ég hafði verði í samfloti við annan hlaupara langleiðina og við skiptumst á að leiða en þegar hér var komið við sögu, þá hélt hann sínu striki á meðan ég fór að lufsast.  Þegar hann var komin með smá forskot þá hristi ég slenið af mér og spýtti aftur í lófana og kláraði sómasamlega.  Hefði nú ekki verið töff að lufsast yfir 42!  
Pústað í markinu.
(Gummi meiri dóninn að smeygja sér fram fyrir mig á síðustu metrunum!  :)

Lokatíminn 41:32 og ég bara sátt, leið mjög vel eftir hlaupið og hlakka til að takast á við næstu áskorun.  Hérna eru úrslitin og svona hljóp ég þetta:





Splits  Time

1 4:01

2 4:03

3 4:06

4 4:09

5 4:12

6 4:06

7 4:06

8 4:09

9 4:23

10 4:06

11 00:06




Á sunnudaginn fórum við í Laugar SPA með vinahjónum og eftir þriggja tíma dekur og lúxus...  varð ég fárveik!  Þvílíkt svndl.  Í keng með magaverk og svo rauk ég upp í 39 stiga hita um kvöldið.  Lilja tók við mér í veikindunum og kastaði upp í hálfan sólarhring, litla skinnið mátti nú ekki alveg við því en hún er líka orðin hress aftur.  En merkilegur andsk... eftir hitann og þegar ég jafnaði mig aftur þá var ég alveg laus við stífleikann í bakinu og nú er ég bara alveg eins og ég á að vera, sem sagt komin í toppstand, yeehaawww...

Ekki má gleyma prjóna statusnum, nú eru komin kaflaskil.   Búin með bakið!

Vika 4.