23. nóv. 2014

Gerir mistök... og lagar til eftir sig.

Mér líður best á hlaupabrautinni þessa dagana, það er bara þannig.  Er ekki orðin alveg góð í bakinu en þegar ég hleyp finn ég ekki fyrir neinu nema vellíðan og því hraðari æfing, meiri hiti, því betra. Eftir sprettæfingarnar er ég súper-góð í sólarhring.  Engu að síður leiðist mér þófið og er afspyrnu léleg í að vera ekki 100% og þá grípur maður til allra ráða og einmitt þess vegna pantaði ég tíma hjá náunga sem ég hef heyrt mikið um en aldrei farið til og ekki að ástæðulausu... hann er kallaður Jói pyntari.

Fór á þriðjudaginn í Postura þar sem Jói tók á móti mér.  Ég þurfti nú ekki mikið að segja hvað væri að hrjá mig, hann horfði á mig og sagði mér svo frá öllu sem var í ólagi.  Hann leiðrétti líkamsstöðuna, gaf mér góð ráð, benti svo á staðina þar sem ég fann til og sagði að vinstri löppin á mér væri úr synci.  Því næst fór ég á bekkinn, þar sem hann og félagi hans héldu mér, tosuðu, kipptu og hnykktu mér sundur og saman.  Það brakaði í mér frá tám og upp í hvirfil en eftir að hafa verið með þetta tak í bakinu í nokkrar vikur þá er ég búin að stífa líkamann svo gjörsamlega af að ég var eins og spítukarl.  Ég upplifði engar pyntingar í þetta sinn en missti andann nokkrum sinnum í hnykkjunum en það var ekkert mál.

Þegar þeir voru búinir stóð ég upp og fann strax að ég var allt önnur en ennþá með smá verk neðst í mjóbakinu.  'Hvenær fer verkurinn?'.  'Eftir þrjá daga.'   Ég tók síðustu verkjatöfluna tveim dögum síðar og er búin að vera góð í nokkra daga.  Ég fór ekkert að hlaupa í gær vegna anna og í gærkvöldi fannst mér ég aðeins verri aftur.  Betri eftir hlaup í dag en ég á annan tíma í Postura á þriðjudaginn og spurning hvort það klári málið.  

Þetta var erfið vika peysulega séð.  Ekki það, ég prjónaði eins og vindurinn en þegar ég var að bíða eftir henni Lilju minni á sundæfingu kíkti ég í gamni á uppskriftarsíðuna og á myndir frá öðrum sem eru að prjóna sömu peysu.  Og þá rak ég augun í að hliðarnar á bakinu hjá mér voru ekki eins og hjá þeim!!!

Kom heim og kannaði málið betur og jú, var búin að gera bölvaða vitleysu.  Ekki það, ég las uppskriftina aftur og mér fannst þetta ekki mjög skýrt en alla vega í staðinn fyrir að það væru tvær slétta og tvær brugðnar eins og í stroffinu sitt hvoru megin við aðal mynstrið þá átti að vera tvöfalt perluprjón.  Hugsaði aðeins málið hvort ég ætti bara að breyta restinni af peysunni til að sleppa við að laga en komst að því að ég yrði aldrei ánægð með það.  Þannig að ég notaði tvö kvöld í að rekja upp eina lykkju í einu alla leið að stroffi og hekla hana svo upp á réttan máta aftur...   20 lykkjur alls.  Og tatahhh..., hrikalega fínt núna og ég komin vel upp yfir ermaúrtöku.  

Hérna er ég búin að laga hægra megin.

Hérna er þetta svo komið og byrjuð á úrtöku fyrir ermar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli