16. nóv. 2014

Heldur sér við efnið

Leiðinda vika heilsufarslega séð.  Fylltist af kvefi og ógeði á sunnudagskvöldið síðasta og er ekki ennþá búin að jafna mig alveg þó ég sé betri í dag en í gær.  Finn ennþá fyrir stífleika í bakinu og líður pínulítið eins og konu á fimmtugsaldri svei mér þá, mjög framandi tilfinning.  Og í dag tók svo betri helmingurinn upp á því að næla sér í svæsna magapest, grey kallinn veit ekki hvort hann er að koma eða fara.  Krossa putta, tær og allt annað sem mér dettur í hug og forðast hann eins og pestina...!

Hápunktur vikunnar var nú samt í gær, ég orðin þokkalega spræk og bóndinn ekki orðin veikur, en þá fögnuðum við 11 ára brúðkaupsafmæli.  Við héldum uppá áfangann með rómantískri bæjarferð, köku og kaffi latte á Garðinum.

Áskirkja 15. nóvember 2003

Garðurinn 15. nóvember 2014

Þegar maður er ekki til stórræðna í hlaupum og öðrum líkamlegum átökum þá er nú aldeilis gott að nýta tímann í prjónaskapinn og ég er hæst ánægð með afrakstur vikunnar.  Ta..tahhh...  eins og dóttir mín hin yngri myndi segja:

Vika 2

Og nóttin er ung, næ örugglega nokkrum umferðum í viðbót, allir aðrir á heimilinu í bólinu :)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli