17. okt. 2014

Munchen Halbmarathon 2014

Undirbúningurinn fyrir hlaupið gekk eins og í sögu fyrir utan að 10 dögum fyrir hlaup varð ég aðeins lasin, sár í hálsinum, með þurran hósta og full af kvefi.  Ég var alveg pollróleg yfir þessu, náði mér á nokkrum dögum og búin að leggja í hlaupa-bankann.  Á mánudeginum fyrir hlaup heyrði ég eitthvað ókennilegt hljóð í öndunarveginum, brak og hrygl... andsk..  Fékk tíma hjá lækni og það fór ekki á milli mála, ég var komin með bronkítis.  Ég fékk púst og vonaði það besta.  Leið strax miklu betur eftir 3-4 daga og það var alveg hætt að hrygla í mér áður en ég fór út.  

Við fórum á eigin vegum út og gistum hjá systur minni og fjölskyldu í Munchen.  Það var tekið á móti okkur eins og kóngafólki og dekrað við okkur í bak og fyrir.  Við notuðum dagana fram að hlaupi til að skoða borgina og njóta veðurblíðunnar, alveg dásamlegt að fá smá 'Indian summer' til að stytta veturinn.  Það var 27 stiga hiti daginn sem við komum en spár gerðu ráð fyrir aðeins lægra hitastigi næstu daga.  Það má segja að á laugardeginum hafi verið fullkomið hlaupaveður, 18 gráður, logn og skýjað.

Á sunnudagsmorgun vöknuðum við snemma og fórum að hvetja maraþonhlauparana sem byrjuðu að hlaupa kl. 10.  Við náðum þeim á milli km 18 og 19 rétt hjá okkur.  Hrikalega gaman að fylgjast með fystu mönnum hlaupa framhjá og svo smám saman einum og einum hlaupafélaga, vííí...

Fyrsti maður og næstu menn nokkru síðar.
 Það var heilmikið af hjólurum í brautinni en þeir voru allir kirfilega merktir starfsmenn hlaupsins.

Á hádegi var orðið ansi heitt og sólin braust fram úr skýjunum.  Við vorum komin í startið á hálf maraþoninu tímanlega en það var líka rétt hjá okkur.  Þórólfur og Ásta systir skildu við mig tæplega klukkutíma fyrir hlaup og eftir allar kúnstarinnar reglur í undirbúningi, hoppaði ég yfir grindurnar og kom mér fyrir í start block A, hálftíma fyrir start.  Nú var orðið verulega heitt og alveg heiðskýrt, klukkan að verða tvö.  Fiðrildi í maganum af spenningi en líka áhyggjur af skrælnuðum munni...  Hvar var aftur fyrsta drykkjarstöð?

Tilbúin í blíðunni.

Æðislegt að komast af stað niður breiðgötu á milli trjáganga, yehaww... og ég fylgdist bæði með pace-i á Garmin og km merkingum.  Fyrstu 5 km voru meira og minna skv. plani en tilfinningin í kroppnum var að þetta væri erfiðara en það ætti að vera.  Hmmm...   

Fjölskyldan mín stóð vaktina og hvatti gömlu konuna eftir rúma 7 km.

Næstu 5 km var ég að halda nokkurn veginn hraða en á þessum kafla gerði ég mér grein fyrir að ég myndi ekki ná tímamarkmiðunum.  Ég var að ströggla allt of mikið og á drykkjarstöð í kringum 10 km stoppaði ég, drakk almennilega, hellti yfir mig tveim glösum af vatni og byrjaði upp á nýtt.  Nú rúllaði ég þægilega af stað og fór að horfa í kringum mig og njóta dagsins.  Hér og þar í brautinni voru krakkar að hvetja og ég gaf þeim high-five, klappaði fyrir bestu hvetjurunum og ég fann brosið mitt aftur.  

Þegar 5 km voru eftir fór ég að draga á ansi marga hlaupara aftur og fara fram úr þeim sem höfðu keyrt sig út.  Síðustu 3 km var aftur komið smá kapp í kellu, ég jók aðeins hraðann og pikkaði upp hvern hlauparann á fætur öðrum.  Ótrúlega gaman að koma inn á Ólympíuleikvanginn, drúndrandi músík og diskóljós í göngunum áður en maður kemur inn á brautina og svo tæpur hringur á brautinni.  Ég heyrði nafnið mitt gargað úr stúkunni og sá í fjarska fólkið mitt hvetja mig.  Þvílík vítamínsprauta, hljóp síðustu 400 m á 3:32 pace og tók fram úr tveimur konum þar.  

Rétt áður en maður kemur inn á Ólympíuleikvanginn. 
Úbbs, má víst alls ekki nota þessa mynd!
Bara kát :þ

Tíminn minn 1:32:04 var vissulega ekki það sem ég hafði ætlað mér en þannig er þetta bara og maður er löngu búin að læra að það er leiðin sem skiptir mestu máli, ekki endamarkið.  Langflestir (allir nema einn sem ég ræddi við í þessum stóra hóp) voru ekki að toppa þennan dag, aðstæður hreinlega buðu ekki upp á það.  Af tæplega 2600 konum var ég 21. kona í mark og 5. í mínum aldursflokki en í honum voru skráðar rétt tæplega 900 konur.  Frábær reynsla fyrir mig að taka þátt í stóru hlaupi aftur en ég hef ekki gert það síðan 2008, það mun koma að góðum notum í framtíðinni.

Eftir að hafa drukkið vel og nært mig á marksvæðinu, fann ég fjölskylduna mína fyrir utan leikvanginn, yndislegt.  Þá kom í ljós að þau höfðu lent í veseni með samgöngur og voru alls ekki inn á leikvanginum þegar ég kom hlaupandi inn!!!  Lýsi hér með eftir hóp af fólki á áhorfendapöllunum rétt eftir að hlaupararnir komu inn á leikvanginn, sem hvöttu mig í mark.  Takk fyrir hver sem þið eruð :)
Þessi er bestur.

Garmin mældi brautina 21,380 km og svona voru splittin mín.  Ég hljóp fystu 10 km á 41:39 sem er nákvæmlega 4:10 pace.  Fyrri helminginn (10,69 km) hljóp ég á 44:09 en seinni helminginn á 47:55, tæplega fjórum mínútum hægar.     





Engin ummæli:

Skrifa ummæli