24. okt. 2014

Besti dagur í heimi!

Þann 24. október 2010, klukkan 15:00, átti ég pantaðan tíma hjá kvensjúkdómalækni í hormónalykkju uppsteningu.

Eftir fjórða fósturmissinn okkar síðsumars 2010, tókum við hjónin þá ákvörðun að hætta að reyna að eignast fleiri börn.  Við gerðum okkur grein fyrir að við værum ótrúlega rík að eiga Gabríel og Lilju. Við hvern missi, skildum við það betur og vorum þakklátari fyrir börnin sem við þó áttum.  

Ákvörðunin var sameiginleg þó svo að ég hafi kannski átt frumkvæðið, ég gat bara ekki meir.  Upplifunin að komast að því að ég væri ólétt var ekki lengur eintóm gleði, heldur hafði í för með sér sjúklega hræðslu um að illa færi.  Við tóku dagar og vikur þar sem ég var endalaust að reyna að sannfæra sjálfa mig um að allt væri í lagi.  Alltaf að gá hvort mér væri farið að blæða.  Hætta að æfa eins og venjulega, finna til afsakanir fyrir hina hvers vegna.  Vera með samviskubit yfir því að geta ekki glaðst innilega.  Vera hrædd um að hræðslan myndi hafa neikvæð áhrif, arghhh....  Þetta var jafn erfitt fyrir okkur bæði.

Þann 24. október 2010, klukkan 13:00, hringdi læknirinn minn í mig.  'Sæl, ég var að komast að því að konurnar sem vinna hérna í móttökunni munu leggja niður störf kl. 14:25 í dag í tilefni þess að 35 ár eru frá Kvennafrídeginum'. (Sjá nánar!)  'Geturðu komið í næsta mánuði?'  

'Ekkert mál, einn mánuður til eða frá skiptir ekki máli.'

Ekki grunaði mig á þeirri stundu að ég gæti ekki haft meira rangt fyrir mér.  

Mánuði seinna pissaði ég á prik til vonar og vara.  

24. október 2010 er sennilega bara besti dagur í heimi.




Engin ummæli:

Skrifa ummæli