10. sep. 2014

Vestmannaeyjahlaupið 2014 - Drottning einn dag...

'Ég frétti að þið ætluðuð ekki til Eyja í ár'...   Við hittum Magga Braga og Öddu á leiðinni heim eftir RM, en þau taka þátt í að skipuleggja Vestmannaeyjahlaupið.  Ha, já nei við vorum ekkert búin að ákveða sko...

Sagan í stuttu máli er sú að fyrir 4 árum var mér boðið til Eyja að halda fyrirlestur í tengslum við Heilsuviku í bænum.  Eftir fyrirlesturinn skokkaði ég með hlaupahópnum góðan hring og það barst í tal að ekkert keppnishlaup væri haldið í Eyjum.  Það er svo mikið af brekkum hérna...   Ég hélt nú að það væri ekki fyrirstaða, það er til nóg af flötum brautum annars staðar og það er alveg jafn eftirsóknarvert fyrir hlaupara að takast á við krefjandi brautir og tala nú ekki um í svona náttúrufegurð.  Í hlaupatúrnum ákváðu nokkrir heimamenn að ganga í málið og skipuleggja fyrsta Vestmannaeyjahlaup og ég lofaði að sjálfsögðu að mæta.

Þegar hlaupið datt svo inn í hlaupadagskránna árið eftir var ég með bumbuna lengst út í loftið með hana Sonju mína, sett í fyrri hluta ágúst en hlaupið var í byrjun september.  Eins gott að halda vel á spöðunum til að geta staðið við gefin loforð, koma barninu í heiminn án vandræða og koma sér í form til að hlaupa brekkurnar og til þess hafði ég mánuð.  Sem ég og gerði:
Þvílík fegurð!  (þá er ég að meina náttúrufegurð, muwhahaha...)
Adda og Maggi komin í mark eftir 1/2 maraþon í Vestmannaeyjum.

Myndirnar eru úr fyrsta hlaupinu árið 2011, af síðunni www.vestmannaeyjahlaup.is

Frábær upplifun og gestrisni heimamanna engu lík.  Við ákváðum á staðnum að þetta væri hlaup sem myndi skipa fastan sess hjá okkur.  Árið eftir kom eitthvað uppá sem varð þess valdandi að við gátum ekki verið með.  Í fyrra skráðum við okkur en það var ófært með Herjólfi svo við sátum eftir heima með sárt ennið.  Í ár var Ljósanætur hátíðin í Keflavík sömu helgina en við höfum verið þar síðustu árin, öll fjölskyldan.  Nú voru góð ráð dýr.  Ég var spenntari fyrir Eyjum en Þórólfur er enn að jafna sig eftir hnémeiðsl, má ekki vera mikið í brekkum og svo var honum boðið að spila með Léttsveitinni og gömlu félögunum í Keflavík.  Eftir mikið japl jamm og fuður ákváðum við, að við gætum án hvors annars verið svo sem eins og eina helgi.  Ég fékk hálfmaraþon og húsmæðraorflof, hann tengdó, stelpurnar og Ljósanótt, allir glaðir!

Ég fékk far með Kára og Aldísi og við lögðum í hann snemma á laugardagsmorgni.  Kári ætlaði líka að hlaupa hálft og Aldís 5 km.  Í Eyjum tóku þau heiðurshjón, Maggi og Adda, á móti okkur og buðu okkur velkomin á hótelið sitt en þau hafa unnið sleitulaust síðustu misserin við að stækka og endurnýja allt saman, stór glæsilegt hjá þeim.  Hentum töskunum okkar inn í herbergi og röltum út að íþróttahúsi, náðum í númer og svo var smá upphitun fyrir hlaup.

Mér finnst alltaf jafn gaman að keppa en það er eitthvað einstakt við stemmninguna í Eyjum.  Það eru allir svo þakklátir og glaðir að Vestmannaeyjahlaupið sé veruleiki.  Villtustu draumarnir þegar það kom fyrst til tals var að ná 50 þátttakendum.  Fyrsta árið voru 150 manns með og í ár voru það ca. 120.  Það er boðið upp á 3 vegalengdir og allir hlaupa saman af stað, 5, 10 og hálfmaraþonhlauparar.

Markmiðið fyrir hlaup var þríþætt.  Hlaupa þetta á gleðinni einni saman, vinna og setja brautarmet, í þessari röð!  Topp hlaupaveður enn einu sinni, 12 stiga hiti, rakt í lofti en þurrt og ekki mikill vindur.  Fyrir hlaupið hafði ég samband við skipuleggjendur og spurðist fyrir um brautarvörslu, fáir skráðir í háfla og mín mesta martröð í hlaupunum að villast einhvers staðar á leiðinni.  Engar áhyggjur!  Ekki nóg með að það var brautarvörður á hverju einasta horni, við hverja einustu beygju og á miðri leið á löngum beinum köflum, þá fengu konurnar undanfara á hjóli!!!   'Kári kann leiðina, hann þarf engan hjólara.'  Þvílíkur lúxus, spurning um að spýta í lófana og koma sér permanently í þessa stöðu :)

Hlaupið byrjar niður brekku og inn í Herjólfsdal þar sem tekin er smá lykkja.  Svo byrjar klfrið og það er nóg af því, brekkur fyrir allan peninginn.   Ég var rúmlega 46 mínútur með fyrstu 10 km en eins og sést á hæðarkortinu þá eru mesta hækkunin fyrri hlutann.  Annars var ég ekkert að spá í hraðann, það þýðir ekkert í svona hlaupi, frekar en í utanvegahlaupum eða fjallahlaupum, maður hleypur eftir 'effort-i'.


Ég hljóp seinni 10 km á rétt rúmum 43 mínútum.  Brautarmetið var sett 2011 og var 1:44:32 og ég hafði góða trú á að ég gæti hlaupið þetta á undir 1:40 án þess að streða.  Þegar rúmir 5 km voru eftir og við komin inn í bæinn aftur sá ég á stórri klukku við einhverja bygginguna að hún sýndi 13:10 (hlaupið var ræst 12:00).  Ég reiknaði í huganum, hmmm... ca 5 km á 25 mínútum og ég gæti farið undir 1:35... freistandi.   Hélt vel á spöðunum síðasta spölinn, hélt fínum hraða upp síðustu brekkurnar og reyndi að rúlla vel niður í móti, með það í huga að þó Garmin segði að ég væri búin með 21,1 þá væri ég ekki endilega komin í mark.   Síðasta beygjan  og endaspretturinn er að sjálfsögðu upp brekku, annað væri stílbrot.  Markklukkann sýndi rétt rúmar 1:34, allt gefið í botn og lokatíminn 1:34:56!

Þrjú á palli.
Ferðafélagarnir ekki af verri endanum.  Kári vann 1/2 maraþonið og Aldís 5 km.

Skemst frá því að segja að kellan var hoppandi kát, öllum markmiðum náð í þetta sinn.  Svona hljóp ég þetta, pace-ið sveiflast frá 4:00 og upp í 5:11 per km.  

Split
Time
Distance
Avg Pace
Summary1:34:56.221,284:28
14:08.91,004:09
24:22.71,004:23
34:41.51,004:41
45:11.11,005:11
54:16.71,004:17
64:56.61,004:57
74:26.51,004:27
84:29.21,004:29
94:33.31,004:33
104:47.81,004:48
114:27.21,004:27
124:00.41,004:00
134:12.71,004:13
144:24.11,004:24
154:13.01,004:13
164:21.11,004:21
174:24.31,004:24
184:44.51,004:44
194:38.61,004:39
204:12.31,004:12
214:17.81,004:18
221:05.90,283:53
Verðlaunaafhendingin hófst rétt eftir að ég var komin í mark.  Ánægjulegt að heyra að Íslandsbanki styrkir hlaupið og dekkar allan kostnaðinn við framkvæmdina þannig að keppnisgjöldin, sem n.b. eru mjög hófleg miðað við þjónustu, fara öll til góðgerðarmála og tveir 100.000 kr. styrkir voru afhentir á staðnum.  Ég fékk flotta hlaupapeysu og buxur í verðlaun.

Eftir hlaupið var slökun og spjall í lauginni.  Held að ég hafi verið 2 tíma ofan í eða svo, engin að bíða eftir mér og fullkomið upphaf af húsmæðraorlofi!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli