Logn í Keflavík? Hættu nú alveg.
Við hjónin höfum alltaf tekið þátt í Reykjanes maraþoninu þegar við höfum getað, enda Keflavík heimabær betri helmingsins og okkur rennur blóðið til skyldunnar. Oftar en ekki kemur tengdapabbi með okkur og ekki er það verra ef okkur gengur vel í hans heimabæ, þá er hann alveg rígmontinn af okkur og skilur ekkert í því að sjónvarpið er ekki á staðnum.
Ég tók þetta hlaup inn í miðja æfingaviku, hélt mínu striki og hvíldi ekki sérstaklega fyrir það, frekar en Fossvogshlaupið. Samkvæmt mínum útreikningum (og McMillans...) þá átti ég að geta vel ráðið við 4:04 pace í 10 km á svipuðu efforti og í RM og Fossvogi, markmið dagsins 40:40.
Við Þórólfur vorum komin snemma til að ná í númer og græja okkur. Það var töluverð rigning á leiðinni en um leið og við komum í bæinn stytti upp og brast á með bongó blíðu, þ.e. þurrt, 12 stiga hiti og nánast logn! Stefán og co. voru mættir, sem sagt allt eins og best verður á kosið og mikil stemmning á ráslínu.
Hlaupið gekk bara eins og í lygasögu en hér er kort af hlaupaleiðinni. Fyrsta km er hlaupið frá Hótel Keflavík, niður að höfninni og upp brekku hinu megin. Var nákvæmlega á pace-i fyrsta km og sá í skottið á Stefáni. Á þriðja km var ég komin í hælana á honum og hann leiddi mig svo bara í gegnum næstu 4-5 km eins og engill.
Á sjöunda km sáum við fótbolta rúlla eftir miðri götunni og bílarnir stopp. Hlaupararnir létu það að sjálfsögðu ekki trufla sig... nema ég, sem stóðst ekki mátið að leika mér smá, hljóp á eftir boltanum og náði góðri neglu og boltinn í höfn.
Á áttunda km varð Stefán helst til of vinstri sinnaður fyrir minn smekk, þveraði götuna sem mér fannst nú alveg óþarfi þar sem ég þekkti brautina og vissi af hægri beygju framundan. Ég hafði Klemenz og Gunnar í sigtinu en við Stefán höfðum nálgast þá hægt og bítandi allt hlaupið og það hjálpaði við að halda hraða upp brekkuna á 8. km.
Stefán rúllaði fram úr þeim þegar hér var komið við sögu og var komin með gott forskot áður en við vissum af. Ég hélt mínum hraða, náði í skottið á strákunum og við vorum öll á góðu rúlli niður 9 km. Á síðasta km gáfu strákarnir aftur aðeins í og náðu smá forskoti, ekkert lufs á lokasprettinum takk. Svo gott að sjá gosbrunninn og síðustu beygjuna og ekki skemmdi fyrir að heyra í litlu skottunum mínum hvetja síðustu metrana: 'Áfram mamma, áfram mamma, komaso...?.
Hoppandi glöð með lokatímann 40:32 en það er besti tíminn minn í 10 km í rúm tvö ár og 4. besti tíminn minn frá upphafi. Þórólfur sigraði á tímanum 35:55, hrikalega flott eftir tveggja vikna meiðsla hvíld. Við vorum leyst út með glæsilegum vinningum, hlaupahanskar, hótelgisting á Hótel Keflavík, Ritzenhoff kerti og svo bættust tvær dollur í safnið. Alltaf best þegar báðum gengur vel :)
Svona hljóp ég þetta í gær:
Split
|
Time
|
Distance
|
Avg Pace
|
---|---|---|---|
Summary | 40:34.6 | 10,00 | 4:03 |
1 | 4:04.5 | 1,00 | 4:05 |
2 | 4:01.7 | 1,00 | 4:02 |
3 | 4:05.1 | 1,00 | 4:05 |
4 | 4:02.7 | 1,00 | 4:03 |
5 | 4:02.0 | 1,00 | 4:02 |
6 | 4:07.4 | 1,00 | 4:07 |
7 | 4:01.2 | 1,00 | 4:01 |
8 | 4:03.7 | 1,00 | 4:04 |
9 | 4:02.4 | 1,00 | 4:02 |
10 | 4:03.8 | 1,00 | 4:03 |
Maður verður svo svakalega glaður eitthvað þegar allt gengur svona upp og þykir svo ofsalega vænt um hlaupafélagana og eiginlega bara alla, endorfínið...mmm... Við fjögur fræknu, Stefán, Gunnar, Klemenz og ég, gátum ekki hætt að brosa eftir dagsverkið og þakka hvort öðru fyrir samvinnuna. Ég reyndi svo hvað ég gat að plata þá til Eyja um helgina, er náttúrulega alveg ómöguleg ef ég þarf að hlaupa ALEIN þar...!!!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli