Nú eru tæpar 3 vikur í Munchen hálfmaraþonið og síðasta vika var sennilega sú strembnasta í æfingum. Tók m.a. 5*1600 og 3*3000 á rétt undir 4:00 meðal pace. Á mánudaginn var svo aukið í hraðann, 8*400 á 3:25 pace. Ég samdi við þjálfarann um að fá að skipta út tveimur lykilæfingum í þessari viku fyrir keppnishlaup, hann var mjög sáttur við það, passar vel inní planið okkar.
Ég beið nú samt með að skrá mig fram á síðustu stundu í Flensborgarhlaupið, vildi vera viss um að mánudagsæfingin sæti ekki of mikið í mér. Megin markmiðið fram að Munchen er að halda sér heilum nefnilega. Var spræk um morguninn, veðrið leit bara þokkalega út og þá var bara að láta vaða.
Rúllaði í Hafnarfjörðinn eftir vinnu og var komin tímanlega til að hita aðeins upp og skoða byrjunina á brautinni. Það voru um 400 manns skráðir í þrjár vegalengdir, 10, 5 og 3 km. Ég vissi ekki betur en að allir myndu starta saman, enda kom ekki annað fram í upplýsingunum um hlaupið og það kom því á óvart að þegar tilkynnt var að 10 km hlaupararnir voru ræstir fyrst, svo 5 nokkru síðar og loks 3 og skapaði smá rugling á ráslínunni.
Það hefði mátt kynna það betur fyrirfram en held hreint og beint að það hafi kannski ekki verið búið að ákveða þetta fyrr en á staðnum. Kynnirinn tilkynnti að það myndu líða nokkrar mínútur þar til 5 km myndu starta og ég notaði tækifærið og skaust á klóið (var svona 30 sek!) og brá heldur betur í brún þegar ég kom út aftur og rétt náði að troða mér fremst áður en hleypt var af, rúmri mínútu á eftir 10 km hlaupurunum... Pjúff.
Hlaupið byrjar á töluvert langri brekku upp, tók hana þétt en ekkert að pína mig og náði fyrstu konu þegar við vorum komin upp. Þá átti ég nóg eftir til að auka í aflíðandi brekku niður og svo sýnist mér á hæðarprófíl að það hafi verið smá aflíðandi hækkun að snúning. Sama leið til baka og mér leið mjög vel á bakaleiðinni, tætti í mig nokkra hlaupara í viðbót og sá að ég var með mjög gott forskot á næstu konur. Gat bara einbeitt mér að því að hlaupa eins vel og ég gæti.
Var fysta kona í mark, tíunda í heildina og bætti brautarmetið frá því í fyrra um tæpar 6 mínútur. Hér eru úrslitin!
Fyrstu þrjár konur:
Júlíana, Eva og Aldís
Ég hljóp fyrri hlutann að snúning (flott að hafa mottu þar!) á 10:18 og seinni hlutann á 9:53, lokatíminn 20:11, enn eitt negative split hlaup hjá mér, ánægð með það. Garmin vinur minn segir mér að ég hafi hlaupið 5 km á sub 20.
Split
|
Time
|
Distance
|
Avg Pace
|
---|---|---|---|
Summary | 20:10.0 | 5,09 | 3:58 |
1 | 4:03.2 | 1,00 | 4:03 |
2 | 4:00.3 | 1,00 | 4:00 |
3 | 3:54.6 | 1,00 | 3:55 |
4 | 4:12.6 | 1,00 | 4:13 |
5 | 3:43.5 | 1,00 | 3:44 |
6 | :15.8 | 0,09 | 3:04 |
Framkvæmd hlaupsins var að flestu leyti góð en næst mætti skerpa á start tímunum og brautarvörslunni. Það var nóg af brautarvörðum en þeir voru ekki að fylgjast alveg nógu vel með og ég elti t.d. villuráfandi 3 km hlaupara í ranga átt beint fyrir framan nefið á 3 brautarvörðum sem sögðu ekkert fyrr en ég kallaði eftir leiðbeiningum.
Gaman að elta og fara fram úr hlaupurum í hinum vegalengdunum alla leiðina. Það var ótrúlega mikið af flottum úrdráttarverðlaunum í lok verðlaunaafhendingarinnar, sem tók reyndar mjög langan tíma en það voru engin sér verðlaun fyrir þá sem sigruðu í hverri vegalengd, ekki einu sinni tilkynnt um sigurvegarana, bara aldursflokka verðlaun. Það fannst mér asnalegt og mér finnst að það hefði mátt splæsa í smá verðlaun fyrir bestu tímana, t.d. eitthvað af þessum 50 úrdráttarverðluanum. En í heildina, mjög skemmtilegt hlaup, falleg leið og krefjandi. Alveg til í að vera með að ári og prófa 10 km leiðina.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli