20. ágú. 2014

Línuhlaup Þróttar í Vogum 2014

Nú eru bara nokkrir dagar í Reykjavíkurmaraþon, ég ætla að hlaupa hálft maraþon og það verður spennandi að sjá hver staðan er og hvort væntingar fyrir Munchen séu raunhæfar.  Spár gera ráð fyrir fullkomnu hlaupaveðri sýnist mér!

Undirbúingurinn hefur gengið vel síðustu vikur.  Prógrammið okkar bauð upp á langa tempó æfinga á laugardaginn. Ég skoðaði hlaupadagskránna og sá að í boði var svokallað Línuhlaup Þróttar í Vogum á Vatnsleysuströnd og plataði bónda minn með mér í það í staðinn fyrir að böðlast þetta ein í Fossvoginum.

Þegar við renndum í hlað fyrir utan íþróttamiðstöðina í Vogunum leist okkur ekki baun á blikuna og kenndum hvort öðru um að hafa ákveðið að skrá okkur, varla stætt úti, þvílíkt var rokið :þ   Fórum nú samt inn og náðum í númerin okkar og létum okkur fjúka svona einn og hálfan í suð-vestur og tékkuðum á brautarmerkingum í leiðinni.  Samkvæmt kortinu af hlaupaleiðinni virtist þetta vera ansi flókið síðasta hlutann, margar beygjur og krúsidúllur á svæði sem maður þekkir ekki neitt.  Sáum í upphitunnini að það var búið að merkja vel allar beygjur með skýrum örvum á götunni, gott mál.  Við vissum að töluverður hluti hlaupsins var á malarvegi en þar sem stærsti hlutinn var á malbiki þá völdum við götu skó en ekki trail.



Geri mér ekki grein fyrir hversu margir voru með, einhverjir tugir voru það og 5 og 10 km hlaupararnir voru ræstir saman.  5 km hringurinn var innan bæjarins en eftir ca. einn og hálfan km skildu leiðir og við héldum út á malarveg og áttina að Reykjanesbrautinni.  Fysti km er aðeins upp brekku og svo fengum við vindinn aðeins í bakið.  Eftir rúma tvo km er beygt út af veginu og hlaupið á hrikalega grófum hraun malarvegi.  Ég gerði mér enga grein fyrir að þetta myndi verða svona erfitt yfirferðar og myndi velja mér aðra skó næst, þurfti að tipla á milli steinana og einbeita mér allan tímann að því hvar ég steig niður.  Aftur er beygt til vinstri og hlaupið meðfram Reykjanesbrautinni og ég hef aldrei á ævinni hlaupið í svona miklu roki, ég segi það satt.


Á ekki mynd af mér en fann þessa á netinu, lýsir stemmaranum mjög vel!

Fyrir utan að passa uppá niðurstigið þá þurfti maður nánast að leggjast á magann í vindinn og setja undir sig hausinn til að komast áfram.  Einhvers staðar á þessum beina kafla lægði eitt augnablik og þá datt ég fram fyrir mig, ekki harkalega samt þar sem ég nánast stóð kyrr, hruflaðist aðeins en annars allt í góðu og ég er vön...  Eftir rúma fjóra km er beygt af malarveginu og hlaupið í gegnum móa og mýrar að undirgöngunum, pjúff þvílíkt puð og pjakk... Ég hef sjaldan verið eins glöð að sjá malbik!

Á þessum tímapunkti var maður ekkert að spá í hífandi rokið lengur, bara þvílík gleði að geta hlaupið á sléttu og áfram hjakkaðist maður.  Ég var fjóða í heildina þegar hér var komið við sögu, næsti maður á undan mér náði nokkur hundruð metra forskoti í ófærunum en ég sá alltaf í hann.  Næstu km sá ég að ég var að draga á hann og reyndi að vera skynsöm, pjakka á rok köflunum og láta vaða þegar við fengum meðvind.  Ég náði honum svo á áttunda km og hékk í honum þar til Garmin pípti og lét mig vita að við værum komin 9 km.  Þá gaf ég allt í botn og blastaði síðasta spölinn, bæði í með- og mótvindi og skilaði mér fyrst kvenna í mark og 3. í heildina.


Split
Time
Distance
Avg Pace
Summary44:44.89,924:31
14:02.71,004:03
24:16.11,004:16
34:38.71,004:39
45:19.51,005:19
55:20.61,005:21
64:24.61,004:25
74:25.91,004:26
84:08.91,004:09
94:34.61,004:35
103:33.20,923:51
Alveg ævintýralegt að skoða pace-ið hjá mér en það munar einni og hálfri mínútu á hægasta km og þeim hraðasta, sem var sá síðasti!   Þórólfur sigraði á 38:39 og þegar við bárum saman lappana okkar þá kom í ljós að við hlupum þetta nánast nákvæmlega eins, þ.e. hlutfallslega ef hægt er að orða það þannig. 

Við vorum sammála um að þetta hefði verið alveg svakalega gaman þrátt fyrir rokið og reyndum bæði að eigna okkur heiðurinn af því að hafa skráð okkur!  Vinningarnir voru ekki af verri endanum, hlaupaskór og dekur í baðstofunni í Laugum fyrir tvo.  Vel að öllu staðið hjá hlaupahöldurum, góð brautarvarsla og góð aðstaða fyrir hlaupara. 


Eina sem skyggði pínulítið á var að ég bað merktan brautarvöð að taka hlaupahanskana mína sem var sjálfsagt mál en þeir skiluðu sér aldrei.  Skipuleggjendur hlaupsins voru þó allir af vilja gerðir, höfðu upp á viðkomandi en hann hafði þá skilið þá eftir í brautinni.  Síðasta sem ég vissi var að þeir ætluðu að reyna að auglýsa eftir þeim á Facebook.  Hver veit, ef það tekst og þeir skila sér, þá fær þetta hlaup fullt hús og bestu meðmæli!  

Hey og hvernig væri að heita á mig í Reykjavíkurmaraþoni?  500 kall?  Komaso!
Já auðvitað er ég til í að smella hérna og taka þátt í að styrkja krabbameinsjúk börn!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli