4. ágú. 2014

Harðhaus

Lífiið er fullt af óvæntum, skemmtilegum og minna skemmtilegum uppákomum.  Þannig á það líka að vera.  

Vorum komin í nokkuð góðan æfingagír í sumarfríinu, náðum að taka tvær eðalæfingar til viðbótar í prógramminu okkar.  Annars vegar tæplega 22 km æfingu á 4:52 pace, engin átök og furðu ljúft.   Daginn eftir tókum við svo 10*400 m á R (3:25 pace fyrir mig) á brautinni í Laugardal og jú hörku æfing en gekk 100%.  

Með það skelltum við okkur í bústaðinn og planið var að vera í tvo til þrjá daga og koma heim í síðasta lagi á föstudag en það var þriggja ára afmælisdagurinn hennar Sonju og spennan óbærileg hjá krílinu okkar.  Við vorum búin að blása til veislu seinni part föstudags.  Í ár skyldi allt vera fullkomið (eða þannig :) því í fyrra þá fór það nú svo að við frestuðum og frestuðum að halda upp á afmælið hennar vegna þess að það passaði aldrei inn í sumarfrís plönin hjá þeim sem við vildum hafa með okkur og á endanum varð ekkert af veislunni.  Suss...  Ekki það að hún hafi fattað það :þ

Á fimmtudagsmorgun vaknaði ég eins og drusla, með ónot í maganum og komst varla fram úr rúminu.  Hékk aðeins með stelpunum og gaf þeim morgunmat áður en ég gafst upp, skreið á dolluna og inn í rúm.  Og þar var ég eins og skotinn, óglatt og illt í maganum.  Seinnipartinn ákváðum við að reyna að komast í bæinn því það er glatað að vera ekki heima hjá sér þegar maður er svona veikur.  Ég skreið út í bíl með poka með mér og beit á jaxlinn og reyndi að halda út í bæinn.  Það gekk langleiðina en þegar ég sá Morgunblaðshöllina (skyldi það vera tilviljun?) þá brustu allar uppstíflur og það er ekki hægt að segja að ég hafi verið þokkafull síðasta spölin heim.

En heim komst ég og upp í rúm, lá eins og rotuð til hálf tíu um kvöldið og var alveg búin að blása af afmælisveisluhöld daginn eftir.  Skreið fram úr og reyndi að japla á smá ristuðu brauði og Gatorade.  Fannst ég vera aðeins skárri og með það fór bóndinn út í búð að útrétta fyrir frúnna.   Nú hjá flestum öðrum þá hefði þessum leiðinda kapítula verið lokið, viðkomandi hefði að öllum líkindum vaknað þokkalega hress daginn eftir og málið dautt.  En það er eins og örlögin hafi áttað sig á því að það væri nú ekki svo spennandi blogg, setjum smá krydd í þetta!

Eitthvað var nú þessi næring sem ég hafði vogað að setja ofan í mig að gera uppreisn og ég staulaðist á fætur og taldi tryggast að færa mig nær baðherberginu.  Á leiðinni þangað hugsaði ég með mér að það væri ekki vitlaust að kippa fötunni með til vonar og vara en hún var tilbúin við rúmið mitt frá því fyrr um daginn.

Það næsta sem ég veit er að ég finn að ég er að komast til meðvitundar.  Fyrsta tilfinningin var eins og ég væri að vakna upp frá ruglingslegum draumi.  Ég gat ekki opnað augun strax en fann að mér var ískalt á bakinu og ég var með dúndrandi verk í höfðinu.  Ég áttaði mig smám saman á að ég lá á köldu gólfi og buxurnar mínar voru blautar.  Ég opna augun og ég ligg á baðherbergisgólfinu, ég þreyfaði á höfðinu á mér og fann tvær gríðarlega stórar kúlur á hnakkanum og eina á enninu.  Ég skreið upp á fjórar fætur og sá þá að lokið á klóssettinu er brotið og lá inní sturtuklefa.  HVAÐ ER Í GANGI?  Það rann upp fyrir mér að sennilega hefur liðið yfir mig og í fallinu þá hlýt ég að hafa brotið klóstettlokið með hausnum á mér áður en ég skall niður á flísarnar.

Ég skreið fram til að ná í síma og hugsaði með mér að það sé betra að hringja strax í 112 heldur en að reyna að ná í Þórólf ef ég skyldi detta út aftur.  Ég fékk strax samband og styn upp úr mér að ég hafi dottið og þurfi hjálp á meðan ég skríð aftur inn á bað.  Í framhaldinu á ég súrrealískt samtal við starfsmann neyðarlínunnar sem spyr mig spurninga eins og hvað ég heiti og hvað ég sé gömul... sem ég svara með því að kasta upp og stynja svörunum upp úr mér til skiptis.  Aumingjans maðurinn.  Er einhver hjá þér?  Ég segi að ég haldi að strákurinn minn sé heima en ég næ ekki að kalla á hann og reyni þess vegna að berja í vegginn til að ná athygli.  Eftir smá stund kemur Gabríel og fær náttúrulega áfall að sjá mömmu sína svona.  'Sjúkrabíllinn er á leiðinni.'

Gabríel hjálpaði mér inn í stofu, í sófann og fann til fyrir mig nýjar náttbuxur en í fallinu hafði vatnið úr fötunni skvettst yfir mig.  Sjúkraflutningamennirnir voru kominir eins og skot og töldu rétt að fara með mig upp á Bráðamóttöku, ég hefði að öllum líkindum fengið slæman heilahristing og þyrfti meðhöndlun.  Ég hef aldrei farið í sjúkrabíl áður og rámar í að mér hafi fundist það pínu spennandi í mókinu :)   Þeir mældu blóðþrýsting og höfðu áhyggjur af lágum púsli, var með 37 slög á mínútu.  'Ég er langhlaupari og venjulega með 40 í hvíldarpúls.'  Ó ókey þá.

Á slysó.

Mér var rúllað inn á stofu 13 og það tóku tveir hjúkrunarfræðingar á móti mér og sögðu mér að hafa ekki áhyggjur þó mikið gengi á, vaktinni þeirra væri að ljúka og þær vildu endilega klára að græja mig svo ég myndi ekki lenda á milli vakta (elska þær soldið mikið).  Í einum grænum voru límdar á mig fullt af smellum, ég húkkuð upp við hjartamonitor og teknar blóðprufur.  Korteri seinna kom læknir sem fór yfir söguna og mat það þannig að ég hefði hlotið heilahristing við fallið sem orsakaði minnisleysið.  Allar blóðprufur komu vel út þannig að lang líklegast var að ég það hefði liðið yfir mig vegna þess að ég hafði misst svo mikla næringu í magakveisunni.

Eftir svona mikið höfuðhögg er mikilvægt að fylgjast sérstaklega vel með manni fyrstu 3 tímana upp á heilablæðingu.  Ég fékk næringu í æð, lyf við ógleði og var tengd við monitorinn þangað til að ljóst var að ég var úr mestri hættu.  Klukkan tvö um nóttina fékk ég að fara heim aftur með þau skilaboð að það tæki tvo, þrjá daga að jafna sig og ef ég færi eitthvað að rugla eða verða óvenjulega þreytt að hafa þá samband.

Við héldum áfram að raða saman púslunum um atburðarásina, kraninn á vaskinum snéri til hliðar þannig að annað hvort hef ég lent fyst með hausinn á krananum eða reynt að grípa í hann í fallinu.  Gabríel hafði heyrt brothljóðið inní herbergi en hélt bara að það hefði dottið mynd á gólfið eða eitthvað svoleiðis og var ekkert að hafa áhyggjur af því.  Hann hélt að það hefðu liðið fimm til tíu mínútur þangað til ég fór að berja í vegginn.

Brotunum raðað saman.

Næstu tveim dögum eyddi ég að mestu leyti í fósturstellingu í rúminu mínu.  Mér var óglatt, með sjóntruflanir og bara gjörsamlega máttlaus.   Í gær fór ég að sjá til sólar, vaknaði um morguninn og gat farið fram úr í smá stund og borðað aðeins.  Ég fór svo í mjööög rólegan göngutúr og var eins og vel rykaður dúddi á sunnudagsmorgni eftir mikið fjör, á meðan Þórólfur tók sína æfingu.  Nú kom batinn í stökkum og eftir smá afslöppun treysti ég mér til að fara með Þórólfi og Sonju út á róló og var meira segja farin að brosa aftur!


Nú er ég komin í hlaupagallann, það verður fróðlegt að sjá hvernig það fer og hér skal verða haldin afmælisveisla klukkan þrjú!!!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli