29. ágú. 2014

Fossvogshlaupið 2014

Ég hef ekki tekið þátt í Fossvogshlaupinu áður og var spennt að prófa ef kroppurinn leyfði eftir RM.  Var í fínu standi og ekkert eftir mig og þá var bara að láta vaða.  Valdi 5 km því það passaði best inn í prógrammið mitt.

Var nú ekki lítið ánægð að sjá að hann Stefán var búin að skrá sig í 10 km en þá er 5 km brautin hlaupin tvisvar.  Fullkomið þar sem hann er aðeins hraðari en ég núna og í þetta sinn var ég viss um að við gætum fylgst að.  

Æfingin sem ég skipti út fyrir hlaupið samanstóð af þremur köflum á T hraða (4.04 pace hjá mér) samtals 30 mínútur.  Ég gaf mér þá að það væri í lagi að fara aðeins hraðar fyrst þetta var bara 2/3 af tímanum...   og stefndi rétt undir 20 mínúturnar en bara ef ég gæti það með því að hlaupa yfirvegað og án þess að streða. 

Frábært veður sem við fengum, stillt og hlýtt.  Öll umgjörð í kringum hlaupið til fyrirmyndar, mikil stemmning á staðnum og rétt um 450 manns skráðir.  

Brautin er skemmtileg og krefjandi.  Fyrst er hlaupið 1,8 km inn Fossvogsdalinn en þar er tekin U-beygja í brekku.  Hlaupið niður aftur og upp brekku hinu megin í dalnum og til baka í átt að Víkingsheimilinu.  Síðasta km er nokkuð krefjandi brekka upp í áttina að Kópavogi og svo brött brekka niður aftur í átt að Víkingsheimilinu, krækt fyrir hornið og 200 m í mark.

Svona hljóp ég þetta:

Split
Time
Distance
Avg Pace
Summary19:45.05,023:56
13:54.31,003:54
23:53.81,003:54
34:02.71,004:03
43:56.31,003:56
53:53.21,003:53
6:04.70,023:24

Lokatími: 19:44 og önnur kona. Hér eru úrslitin.

Við vorum 3 Gunna Palla stelpur sem röðuðum okkur í fystu þrjú sætin:
Eva, María og Anna.

Verðlaunin voru glæsileg eins og allt annað hjá Víkingunum.  Fyrir annað sætið fékk ég verðlaunapening, litla tösku fulla af Hleðslu og 12.000 kr gjafakort hjá Intersport/Byko/Elko, vúhúúú...

p.s. Frekar fyndið að hugsa um það að María er 24 árum yngri en ég og Anna 22 árum yngri :)

26. ágú. 2014

Rokkað feitt í RM 2014

Ég hef yfirlett ekki verið að rokka feitt í Reykjavíkurmaraþoni, þ.e. fyrir utan árið 2005 þegar ég hljóp heilt maraþon, það gekk vel.  Miklu oftar hefur þetta verið bölvað basl, ég hef sprungið, streðað, ekki náð markmiðum og er einhvern veginn aldrei í mínu besta standi á þessum árstíma.  Eins og sumrin eru skemmtileg með frítíma og ógrynni af keppnishlaupum þá blómstra ég í rútínunni.  Skemmtilegasta RM hlaupið mitt hingað til fyrir utan maraþonið var í fyrra en þá fór ég 10 km á þrjóskunni, 6 vikum eftir fótbrot, bara til að geta verið með í að safna fyrir hana Ágústu Vá-gústu.

Í ár var planið að hlaupa hálft maraþon sem hluta af undirbúningi fyrir hálfa maraþonið í Munchen í október.  Ég á best 1:29:40 frá því 2009 og markmiðið er klárlega að bæta þann tíma í Munchen.  Markmiðið fyrir RM var að hlaupa á sub 1:30 (hef ekki gert það síðan 2010) eða á ca. 4:15 pace, vonandi án þess að taka of mikið úr mér sem myndi trufla prógrammið.

Viku fyrir hlaup heyrði ég í honum Stefáni félaga mínum, hann ætlaði út á 4:10.  Kemurðu ekki bara með?  Ohhhh svo freistandi!   Var eiginlega alveg komin á það en sem betur fer hitti ég Gunna Palla, þjálfara í Höllinni á Expó-inu og hann kippti mér til baka.  'Farðu út á 4:15 og haltu því alla vega fyrstu 14 km, eftir það máttu auka í...'  

Ég vandaði undirbúninginn að öllu leyti og leit á það sem generalprufu fyrir Munchen.  Lax á Grillmarkaðnum í hádeginu á föstudaginn, léttur kvöldmatur og ís á eftir.  Fór snemma að sofa og vaknaði rétt fyrir sex til að borða hafragrautinn minn og hálfa ristaða beyglu með sultu og osti.  Vatn og kaffi, sturta og í keppnisdressið.  Nógur tími til að slaka á og lesa blöðin í huggulegheitum.  Ég hjólaði niðrí bæ sem var ágætis upphitun, kom dótinu mínu fyrir og skokkaði svo hringinn í kringum Tjörnina.
  
Ég þekki náttúrulega ALLA á svæðinu, stemmningin er einstök og maður getur ekki annað en brosað allan hringinn.  Ég fór meðvitað rólega af stað og naut þess að horfa í kringum mig og drekka í mig upplifunina.  Fyrsti km var hægastur hjá mér, ja fyrir utan þann 4. en ástæðan fyrir því er að ég tók gel rétt áður en við komum að fyrstu drykkjarstöðinni og ég vildi fá vatn en ekki orku.  Á fremstu borðunum var bara orka og ég spyr starfsmanninn hvort það sé ekki vatn líka.  Hann vísar mér þá yfir götuna en það voru drykkjastöðvar báðu megin.  Ég þurfti að skáskjótast á milli hlauparanna þvert yfir brautina og svo aftur til baka.  Sá svo að ég hefði ekki þurft þess, það var vatn og orka báðu megin... vatnið bara aðeins lengra frá.
Eftir drykkjarstöðina og búin að missa af grúppunni minni.

Tók mér góðan tíma eða næstu tvo km í að koma mér aftur á minn stað og vinna upp þessar sek sem ég missti, var pollróleg og hægt og örugglega náði ég þeim hlaupurum sem náðu forskoti á drykkjarstöðinni.
Komin aftur á minn stað.

Eftir 8 km var ég komin í hælana á Þóri og Pétri sem voru að hlaupa heilt maraþon og datt í þennan fína takt með þeim.  Við fórum í gegnum 10 km á 42:52 sem var aðein hægar en ég hafði lagt upp með, ætlaði að vera á 42:30 til að ná undir 1:30.  Hmmm... hér þurfti ég að taka ákvörðun um hvort ég ætti að auka í og fara á undan strákunum eða láta bara ráðast með tímann og njóta samfylgdarinnar.  Það er skemmst frá því að segja að ég var ekki lengi að velja síðari kostinn.  Það er ótrúlega gott að þurfa ekkert að hugsa, bara láta sig fljóta með og ég treysti því fullkomlega að þeir myndu passa pace-ið fyrri hlutann af maraþoninu sínu.  

Tættum í okkur km enn af öðrum, frábær líðan og allt gott í heiminum.  Tók annað gel við drykkjarstöðina á Kirkjusandi og fékk mér vatn þar, annars fékk ég mér orku á hinum stöðvunum.  Gott rúll upp brekkurnar af Eimskipasvæðinu og frábært að komast upp á Sæbraut, engar fleiri brekkur.  Við höfðum fengið góðan meðvind út eftir sem þýddi þá að síðustu 4-5 km voru í mótvindi, ekki miklum en maður fann alveg fyrir honum.  Langaði ekkert til að yfirgefa mína menn og gerði það bara ekkert, þrátt fyrir hvatningu.  

Leiðir urðu nú samt að skilja, það var óumflýjanlegt og strákarnir þurftu að beygja til vinstri upp Kringlumýrarbrautina.  Þórir jók aðeins hraðann síðasta km áður og hvatti mig til að klára þetta almennilega.  Ég hafði 3 km laga stöðu mála og freistast til að ná markmiðinu.  Á þessum síðasta kafla skiptust á hugsanir um að pressa vel eða bara finna annað skjól og rúlla...   Þegar einn og hálfur km var eftir sá ég vel í næstu konu á undan og nú var kollurinn komin í lag og gamla setti í fimmta gír.  Síðasti km var sá hraðasti á 4:05 pace.  Ég sá klukkuna í fjarska, pírði augun... 1:29:11 og kannski 150 m eftir, ég næ þessu!   Hljóp síðustu 250 m á 3:40 pace, 4. kona í mark af 1001 sem tóku þátt og 3. íslenska konan.

Endaspretturinn Ljósm: Jón Kristinn Haraldsson

Í RM eru verðlaun annars vegar fyrir fyrstu þrjá og svo fystu þrjá Íslendinga í hverri vegalengd, kellan á palli og aur í verðlaun, vííí...  Hér eru úrslitin.  Sveitin mín var svo í öðru sæti í sveitakeppninni af 36 sveitum og fysta sem skipuð var Íslendingum.

Mynd af síðu Reykjavíkurmaraþons, fyrstu 3 íslenku konurnar í hálfu maraþoni.
Helen, Anna Berglind og Eva.

Ég er alveg hrikalega ánægð með þetta hlaup að öllu leyti og nú verður gaman að halda áfram að leggja í bankann fyrir Munchen.  Ef allt gengur að óskum næstu vikurnar verður farið út á 4:10 pace þar, segi ég og skrifa!  

Greining fyrir hlaupanörda, hljóp á negative splitti, rúmri mínútu hraðari með seinni helminginn.

Fyrstu 10 km:  42:52
Seinni 10 km:  41:51, sem er aðeins hraðar en ég hljóp 10 km á Selfossi.
1,26 km: 5:03

Split
Time
Distance
Avg Pace
Summary1:29:46.921,264:13
14:19.01,004:19
24:11.81,004:12
34:15.91,004:16
44:22.81,004:23
54:13.81,004:14
64:15.91,004:16
74:10.01,004:10
84:14.41,004:14
94:10.61,004:11
104:14.21,004:14
114:11.41,004:11
124:16.61,004:17
134:14.61,004:15
144:13.21,004:13
154:12.21,004:12
164:16.11,004:16
174:16.71,004:17
184:10.01,004:10
194:07.11,004:07
204:17.41,004:17
214:05.01,004:05
22:58.20,263:42

20. ágú. 2014

Línuhlaup Þróttar í Vogum 2014

Nú eru bara nokkrir dagar í Reykjavíkurmaraþon, ég ætla að hlaupa hálft maraþon og það verður spennandi að sjá hver staðan er og hvort væntingar fyrir Munchen séu raunhæfar.  Spár gera ráð fyrir fullkomnu hlaupaveðri sýnist mér!

Undirbúingurinn hefur gengið vel síðustu vikur.  Prógrammið okkar bauð upp á langa tempó æfinga á laugardaginn. Ég skoðaði hlaupadagskránna og sá að í boði var svokallað Línuhlaup Þróttar í Vogum á Vatnsleysuströnd og plataði bónda minn með mér í það í staðinn fyrir að böðlast þetta ein í Fossvoginum.

Þegar við renndum í hlað fyrir utan íþróttamiðstöðina í Vogunum leist okkur ekki baun á blikuna og kenndum hvort öðru um að hafa ákveðið að skrá okkur, varla stætt úti, þvílíkt var rokið :þ   Fórum nú samt inn og náðum í númerin okkar og létum okkur fjúka svona einn og hálfan í suð-vestur og tékkuðum á brautarmerkingum í leiðinni.  Samkvæmt kortinu af hlaupaleiðinni virtist þetta vera ansi flókið síðasta hlutann, margar beygjur og krúsidúllur á svæði sem maður þekkir ekki neitt.  Sáum í upphitunnini að það var búið að merkja vel allar beygjur með skýrum örvum á götunni, gott mál.  Við vissum að töluverður hluti hlaupsins var á malarvegi en þar sem stærsti hlutinn var á malbiki þá völdum við götu skó en ekki trail.



Geri mér ekki grein fyrir hversu margir voru með, einhverjir tugir voru það og 5 og 10 km hlaupararnir voru ræstir saman.  5 km hringurinn var innan bæjarins en eftir ca. einn og hálfan km skildu leiðir og við héldum út á malarveg og áttina að Reykjanesbrautinni.  Fysti km er aðeins upp brekku og svo fengum við vindinn aðeins í bakið.  Eftir rúma tvo km er beygt út af veginu og hlaupið á hrikalega grófum hraun malarvegi.  Ég gerði mér enga grein fyrir að þetta myndi verða svona erfitt yfirferðar og myndi velja mér aðra skó næst, þurfti að tipla á milli steinana og einbeita mér allan tímann að því hvar ég steig niður.  Aftur er beygt til vinstri og hlaupið meðfram Reykjanesbrautinni og ég hef aldrei á ævinni hlaupið í svona miklu roki, ég segi það satt.


Á ekki mynd af mér en fann þessa á netinu, lýsir stemmaranum mjög vel!

Fyrir utan að passa uppá niðurstigið þá þurfti maður nánast að leggjast á magann í vindinn og setja undir sig hausinn til að komast áfram.  Einhvers staðar á þessum beina kafla lægði eitt augnablik og þá datt ég fram fyrir mig, ekki harkalega samt þar sem ég nánast stóð kyrr, hruflaðist aðeins en annars allt í góðu og ég er vön...  Eftir rúma fjóra km er beygt af malarveginu og hlaupið í gegnum móa og mýrar að undirgöngunum, pjúff þvílíkt puð og pjakk... Ég hef sjaldan verið eins glöð að sjá malbik!

Á þessum tímapunkti var maður ekkert að spá í hífandi rokið lengur, bara þvílík gleði að geta hlaupið á sléttu og áfram hjakkaðist maður.  Ég var fjóða í heildina þegar hér var komið við sögu, næsti maður á undan mér náði nokkur hundruð metra forskoti í ófærunum en ég sá alltaf í hann.  Næstu km sá ég að ég var að draga á hann og reyndi að vera skynsöm, pjakka á rok köflunum og láta vaða þegar við fengum meðvind.  Ég náði honum svo á áttunda km og hékk í honum þar til Garmin pípti og lét mig vita að við værum komin 9 km.  Þá gaf ég allt í botn og blastaði síðasta spölinn, bæði í með- og mótvindi og skilaði mér fyrst kvenna í mark og 3. í heildina.


Split
Time
Distance
Avg Pace
Summary44:44.89,924:31
14:02.71,004:03
24:16.11,004:16
34:38.71,004:39
45:19.51,005:19
55:20.61,005:21
64:24.61,004:25
74:25.91,004:26
84:08.91,004:09
94:34.61,004:35
103:33.20,923:51
Alveg ævintýralegt að skoða pace-ið hjá mér en það munar einni og hálfri mínútu á hægasta km og þeim hraðasta, sem var sá síðasti!   Þórólfur sigraði á 38:39 og þegar við bárum saman lappana okkar þá kom í ljós að við hlupum þetta nánast nákvæmlega eins, þ.e. hlutfallslega ef hægt er að orða það þannig. 

Við vorum sammála um að þetta hefði verið alveg svakalega gaman þrátt fyrir rokið og reyndum bæði að eigna okkur heiðurinn af því að hafa skráð okkur!  Vinningarnir voru ekki af verri endanum, hlaupaskór og dekur í baðstofunni í Laugum fyrir tvo.  Vel að öllu staðið hjá hlaupahöldurum, góð brautarvarsla og góð aðstaða fyrir hlaupara. 


Eina sem skyggði pínulítið á var að ég bað merktan brautarvöð að taka hlaupahanskana mína sem var sjálfsagt mál en þeir skiluðu sér aldrei.  Skipuleggjendur hlaupsins voru þó allir af vilja gerðir, höfðu upp á viðkomandi en hann hafði þá skilið þá eftir í brautinni.  Síðasta sem ég vissi var að þeir ætluðu að reyna að auglýsa eftir þeim á Facebook.  Hver veit, ef það tekst og þeir skila sér, þá fær þetta hlaup fullt hús og bestu meðmæli!  

Hey og hvernig væri að heita á mig í Reykjavíkurmaraþoni?  500 kall?  Komaso!
Já auðvitað er ég til í að smella hérna og taka þátt í að styrkja krabbameinsjúk börn!