Veit ekki alveg hvernig ég var stemmd fyrir þetta hlaup. Held að ég hafi verið smá smeyk um að uppsafnaða þreytan myndi hafa áhrif á mig en ég var svo sem búin að hvíla vel síðan á miðvikudagskvöld, engin átök bara rólegt skokk. Maður getur svo ekki endalaust verið að hugsa um gamla þreytu, á einhverjum tímapunkti þá venst líkaminn álaginu og átökin verða norm.
Þetta er í fyrsta sinn sem ég hleyp 3000 m á braut úti, ég hef tvisvar eða þrisvar áður hlaupið þessa vegalengd á brautinni inni. Ég sé í afrekaskránni að ég á tíma í febrúar árið 2010 en þá hljóp ég á 11:11 og 11:16. Svo er ég eiginlega alveg viss um að ég hafi einu sinni hlaupið þetta á 11:08 sem er þá besti tíminn minn inni en ég finn hann ekki í fljótu bragði, gæti hafa verið í tímatöku á æfingu. Ég fletti upp í McMillan Race predictor og setti inn 5km tímann minn á Akureyri og 10 km tímann í Ármannshlaupinu og McMillan sagði að ég gæti þá hlaupið þetta á 11:21 eða 3:46 pace. Hmmm... það er miklu auðveldara að reikna 3:45 sem gera 1:30 á hring, slétt og fín tala og þá var það ákveðið.
Frábært veður á keppnisdag. Rakt og hlýtt og lítill vindur. Við vorum sex stelpur (5 úr ÍR) sem er nú bara einhvers konar met í 3000 m hlaupi svei mér þá. Oft 1 og 2 og 3 í brautinni sem er glatað. Við þekkjumst allar mjög vel og frábært að fá að keppa með og við vinkonur sínar. Ég mætti bara í mínum venjulegu keppnisskóm, var alveg búin að gleyma að yfirleitt er hlaupið á gaddaskóm, sérstaklega þegar brautin er blaut. Var pínu sneypuleg á línunni og allar hinar í göddum en ohhh... well.
Strax á fyrsta hring var ljóst að Andrea og Fríða myndu keppa til sigurs, nokkru á eftir þeim var svo Helga og ég í hælunum á henni. Ég veit upp á hár að fyrir hverja sek sem þú hleypur of hratt fyrstu hringina þarftu að borga tvær í síðustu en það er svoooo erfitt að hemja sig, sérstaklega þegar það er svona langt síðan síðast...
Mér finnst ég nú bara nokkuð reffileg hérna!
Eftir 3 hringi (af 7 og hálfum) var ég 4 sek of hröð miðað við lokatímann 11:15. Ég ákvað samt að nota frekar keppnina en skynsemina og hékk í Helgu eins lengi og ég gat og leið mjög vel. Þegar tveir hringir voru eftir seig Helga aðeins frá mér og ég var vel þreytt í síðasta hring. 4. kona í mark á 11:19 sem er PB á braut utanhúss (muwahahaha... enda fyrsta) og 4 sek frá draumamarkmiðinu, tveim sek betur en McMillan hélt að ég gæti! Það fyrir utan fékk ég stig fyrir hlaupið og gat þ.a.l. lagtí í púkkið í stór-sigri ÍR á Meistarmótinu. Hér eru úrslitin.
Gígja, Anna, Fríða, Eva og Andrea.
Eftir hlaupið var ég alveg sjúk í að fá annað tækifæri til að hlaupa þessa vegalengd og ég þarf ekki að bíða lengi, MÍ Öldunga er næstu helgi og ef mig langar ennþá til. Þá get ég endurtekið leikinn og séð hvort ég geti útfært þetta aðeins betur og náð þessum 4 sek. til baka ;)
Myndir af Flickr síðu Ármanns frjálsar og frá Gunna Palla.
Myndir af Flickr síðu Ármanns frjálsar og frá Gunna Palla.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli