Það helltist yfir mig skrýtin tilfinning þegar við lögðum bílnum nálægt startinu á Ármannshlaupinu á miðvikudaginn. Allt í einu voru minningarnar af vonbrigðunum og sársaukanum á síðasta ári ljóslifandi. Tilfinningin rétt áður en fóturinn gaf sig. Eitt af mínum bestu hlaupum og bara smá eftir. Bresturinn. Vissan um að eitthvað hræðilegt hefði gerst. Hlaupararnir sem hlupu framhjá og kölluðu 'Komaso þetta er alveg að vera búið...". Haltrandi með kökkinn í hálsinum í átt að markinu. Komast ekki lengra og þurfa að húkka far. Ringluð og kvalin að leita að bíllyklunum. Rigningin, kuldinn og skjálftinn í kroppnum. 'Viltu ná í Þórólf, ég held ég sé fótbrotinn...?'.
Þungt hugsi yfir hlaupaframtíðinni...
Tóm gleði á ráslínunni
Við rúlluðum af stað og fljótlega varð röðin eins og ég hafði gert ráð fyrir. Agnes tók örugga forystu en Andrea fór rólega af stað og bætti svo jafnt og þétt í eftir 3 km. Ég hjóp mjög afslappað og þægilega í samfloti við Frikka, aðeins á eftir Stefáni og Trausta. Var mjög spræk á snúningnum og seig fram úr nokkrum hlaupurum á næsta km. Frikki var ennþá sprækari og ég náði ekki að hanga í honum. Næstu 2 km jafn þægilegir og fyrstu 5. Eftir sjö fór aftur á móti kroppurinn að kvarta, lappirnar þyngdust og annað hvort var að bíta á jaxlinn og pína sig til að halda hraða eða gefa aðeins eftir. Í samningaviðræðunum við sjálfa mig á þessari stundu voru þetta rökin með síðari kostinum:
- Ég er ekki fara að ná næstu konu
- Ég er ekki að fara að ná PB
- Ég er að fara að keppa í 3000 á MÍ á sunnudaginn
Einbeitti mér að öndun og stíl en fann að það dró úr hraðanum. Ég hafði farið fram úr Trausta eftir snúninginn meðan ég var ennþá full spræk en hann rúllaði fram úr mér aftur þegar rúmur km var í mark. Það er mikið af beygjum í lok brautarinnar og auðvelt að sjá stöðuna þannig að ég var alveg pollróleg og örugg með að halda mínu sæti. Ekki það, ég þurfti samt að halda mér vel við efnið og þetta var drullu erfitt eins og alltaf á síðasta spottann. Eftir síðustu beygju gaf ég svo allt í botn, tók góðan endasprett og blastaði eins og ég gat, var ekki á því að hleypa fleirum fram úr mér.
Þetta tekur á, takið eftir þessari myndarlegu slummu!
(Þessi mynd er birt í anda þess að maður eigi ekki alltaf að sýna bara bestu hliðarnar á sér, líka raunveruleikann. Sleppi samt verstu myndinni af tillitsemi við lesendur :)
Tíminn 41:31, besti tímin minn í ár en ég er viss um að ég eigi þónokkuð inni á góðum degi og úthvíld. Hlakka til að láta reyna á það seinna á árinu. Svona hjóp ég þetta, síðustu þrjá fer þetta að verða ansi þungt... og svo fínn sprettur í lokin. Garmin mældi brautina 144 m of langa þannig að það má segja að ég hafi rétt skriðið undir 41 á 10 km!
Split
|
Time
|
Distance
|
Avg Pace
|
---|---|---|---|
Summary
| 41:31.7 | 10,14 | 4:06 |
1 | 3:57.3 | 1,00 | 3:57 |
2 | 4:02.9 | 1,00 | 4:03 |
3 | 4:03.6 | 1,00 | 4:04 |
4 | 4:08.7 | 1,00 | 4:09 |
5 | 4:00.5 | 1,00 | 4:01 |
6 | 4:03.3 | 1,00 | 4:03 |
7 | 4:06.2 | 1,00 | 4:06 |
8 | 4:10.1 | 1,00 | 4:10 |
9 | 4:12.1 | 1,00 | 4:12 |
10 | 4:14.6 | 1,00 | 4:15 |
11 | :32.3 | 0,14 | 3:44 |
Þriðja kona í heildina og fyrst í aldursflokki á Íslandsmeistaramóti í 10 km götuhlaupum 2014. Mikið ofsalega var ég kát. Hérna eru úrslitin.
Andrea, Agnes og Eva.
Myndirnar eru fengnar að láni á Flickr síðu Ármann frjálsar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli