5. júl. 2014

Akureyrarhlaupið 2014 - How to Crash and Burn... and love it!

Þú hefur ekki lifað (á fimmtugsaldri þ.e.a.s.) fyrr en þú ákveður að sleppa allri skynsemi einu sinni á startlínunni, láta eins og sjö ára og hlaupa eins hratt af stað og þú getur án þess að taka tillit til aðstæðna.  Hlaupa á móti rokinu á 3:20 pace, pína sig til að hægja aðeins 3:30, 3:40..., fyrsti km á 3:47.  Yehaww...rok, slok, mok, ræður ekki við þig.  

Vera steinhissa þegar klukkan segir að annar km sé á 3:55, what?  Finna hvernig bensínið fuðrar upp og klárast og hlaupið rétt hálfnað..., þriðji km á 3:55. Þú bítur á jaxlinn, semur við sjálfan þig, reynir að hugsa ekki um lappirnar sem öskra á þig að stoppa.  Gleymir að hugsa um öndunina og finnur hvernig hægist á þér, plan A er ekki að fara að verða að veruleika í dag. Hættir að hugsa um klukkuna.  

Hanga á því að klára eins vel og þú getur, þú ert alla vega fyrst, það er eitthvað.  Þó þú sért örugglega eins og skakklappandi rækja með heilablóðfalls look...  500 m eftir þegar þú sérð mann og barn útundan þér horfa í áttina til þín og garga 'Áfram mamma!'.  Þetta er ekki maðurinn þinn og ekki barnið þitt!  

Finna einhvern anda ofan í hálsmálið á þér.  Nei andsk... reyna að grafa dýpra eftir nokkrum bensíndropum, gefa allt sem þú átt til að henda þér yfir línuna einni sekúndu á undan næstu konu.  Lyppast svo niður í grasið með hálfgerðru óráði, ná andanum og áttum.  Finna fyrir hverri einustu frumu í líkamanum.  Þá kemur það.  Hríslast um kroppinn og upp í heila.  Alsæla.  Þetta er lífið!

Tíminn 19:59 (19:57 chip) og fyrsta sæti.

Hefði ég getað hlaupið hraðar á Akureyri ef ég hefði ákveðið að taka skynsemina á þetta og farið út á 4:00 pace fram að snúningi og aukið í á bakaleiðinni?  Sennilega.  Hefði mér liðið betur á leiðinni? Örugglega.  Hefði ég lært eitthvað nýtt um sjálfa mig?  Sennilega ekki.  Myndi ég gera þetta öðruvísi ef ég gæti spólað til baka?  Ekki séns!

Síðustu tveir km voru á 4:06 og 4:01 pace og nú veit ég að það er alveg sama hversu búin á því ég er, ég get hlaupið einn km á 4:01.  Það er gott að vita.  Ég var ekki frá því, fyrir þetta hlaup, að keppnisskapið í mér hefði mildast með árunum.  Sennilega ekki.  Það er gott að vita.  Það skiptir ekki máli hvaða skilaboð kroppurinn er að senda þér, þú vinnur hlaup með kollinum.  Það er gott að vita.  

Allt til fyrirmyndar hjá Norðlendingum að venju.  Brautin er rennislétt, brautarvarslan góð og sérstaklega glæsileg verðlaunaafhending með ótal útdráttarverðlaunum að loknu hlaupi.  Ætla bara rétt svo að vona að það hafi ekki verið teknar myndir af hlaupurum koma í mark!!!

Þórólfur átti gott hlaup og varð annar á 16:55.   Hér eru úrslitin.

Við skemmtum okkur konunglega í þessari stuttu og snörpu ferð norður, ekki einu sinni sólarhringur í þetta sinnið.  Orri bróðir tók á móti okkur með sinni einstöku gestrisni, lánaði okkur bílinn sinn þegar við þurftum og dekraði við okkur.  Hlökkum til að koma aftur! 

Hópurinn hans Gunna Palla fyrir norðan:
Aldís, Kári, Guðni Páll, Sæmi, Eva og Þórólfur


Engin ummæli:

Skrifa ummæli