28. júl. 2014

Aldrei fór ég vestur...

Við höfum oft verið með á Hlaupahátíðinni á Vestfjörðum okkur til mikillar ánægju.  Það er pínu púsl með krakkana, minna mál að fá pössun (með aðstoð skipuleggjenda!) á meðan við hlaupum Óshlíðina en Vesturgatan er það tímafrek með rútuferðum og tilheyrandi að það er eiginlega of mikið til að við getum bæði verið með í bili.  Hlaupahátíðin er líka á svipuðum tíma og afmælin hjá strákunum og í ár lenti þetta á sömu helginni þannig að við vorum búin að blása þetta af.

Í vikunni fyrir vorum við komin með fiðring og fórum að skoða leiðir til að láta það ganga upp að við tvö myndum skjótast í Óshlíðina.  Það var heilmikið púsl.  Fyrst var það pössun fyrir krakkana hérna heima, svo þurfti að redda flugi, gistinu og fari frá flugvellinum og til baka.  Áður en við vissum af gekk þetta allt saman upp, mamma var til í að koma og passa, Þórólfur reddaði stand-by miðum og leit mjög vel út með flugið og síðast en ekki síst þá bauð Stefán (nú kallaður Stefán Stór-vinur okkar) og hans fólk upp á gistingu í Bolungarvík og transport.  Jibbííí...   Fórum út á völl í hlaupagallanum með smá handfarangur með okkur, tilbúin í hlaup klukkutíma eftir lendingu eða svo.  

'Þið eru á biðlista, vélin er orðin full'.  WHAT???   Nöguðum neglur í hálftíma áður en við vorum send heim með skottið á milli lappanna.  Vorum smá stund að jafna okkur á því að við hefðum léttilega geta farið með fyrri vélinni ef okkur hefði grunað... en ohh well.  

Óshlíðin átti að koma í staðinn fyrir eina af lykilæfingum vikunnar en nú erum við byrjuð í hálf maraþonprógrammi fyrir Munchen frá honum Gunna Palla.  Þó það hafi verið freistandi að keyra heim og henda sér upp í sófa í svekkelsi þá var það ekki í boði og við lögðum bílnum fyrir utan heima, rétt stungum inn nefinu til að láta vita af okkur og hlupum svo inn í Fossvog til að taka æfinguna okkar.

Á boðstólnum var 3 sinnum 10 mínútur á T pace, sem er 4:04 hjá mér með 4 mínútu hvíldum á E pace sem er á milli 4:40 og 4:55 hjá mér.  Mér hefur alltaf þótt lang erfiðast að höndla svona æfingar, töluverður hraði, langir kaflar og hlaup á milli hraða kaflana þannig að ég var nú ekkert sérstaklega bjartsýn fyrirfram.  Það er skemst frá því að segja að ég rúllaði þessu upp, mér til mikillar undrunar og gleði.

Split
Time
Distance
Avg Pace
Summary55:45.412,604:25
110:00.02,474:02
24:00.00,844:45
310:00.02,494:01
44:00.00,854:42
510:00.02,494:01
64:00.00,904:26
713:45.42,555:24

Fyrst ekkert varð af Óshlíðarhlaupinu þá var gefið að taka 3000 m á MÍ Öldunga á sunnudeginum.  Það er alltaf vandamál með þátttöku á þessum mótum sem er mikil synd því ég held að allir sem eru að keppa í 5 og 10 hefðu gott og gaman af því að hlaupa 3000 á brautinni.  Helsta skýringin á slakri þátttöku er að þetta er ekkert auglýst og upplýsingar um mótið koma mjög seint og þá bara á fri.is en lang flestir hlauparar eiga ekkert erindi þar inn en notast eingöngu við hlaupadagskránna á hlaup.is.   Meira að segja við sem erum aðeins með puttana (fæturna) í FRÍ mótum vissum ekki af þessu nema vegna þess að einhver minntist á þetta á MÍ vikunni áður við okkur.  

En alla vega, við mættum galvösk og ég var að vonast til að geta hlaupið á 11:15, þ.e. skafið þessar 4 sek af tímanum helgina áður sem voru fyrir mér.  Þegar til kom var ég eini keppandinn í kvennaflokki og þar sem það er ótrúlega lítið spennandi að hlaupa einn á brautinni þá bað ég um leyfi hjá mótsstjóra að hlaupa með strákunum.  Ef ég hefði verið að reyna að ná einhverjum lágmörkum eða setja einhver stórkostleg met þá hefði ég þurft að hlaupa ein en það ver engin hætta á því :)   

Við vorum 6 sem störtuðum og ég vissi að einn gaurinn var á svipuðu róli og ég.  Það var fínt veður en aðeins meiri vindur en á MÍ.  Í þetta sinn var ég aðeins hægari en planið var með fyrstu hringina, 1-2 sek á hring, var ekkert að stressa mig á því en það kom mér á óvart.  Hljóp í hælunum á síðasta manni fyrri hluta hlaupsins en þegar við vorum u.þ.b. hálfnuð skreið ég fram úr.  Leið þokkalega vel allt hlaupið og átti meira eftir núna en síðast og gat aukið í á endaspretti.  Endaði 4. á tímanum 11:22, þrem sek hægar en vikuna áður  en miðað við vindinn og líðanina í hlaupinu, plús enga keppni þá var ég sátt.  Þórólfur vann á 9:44 og var að bæta sig töluvert.


Þetta var síðasta keppnin í þessari keppnislotu og nú einbeitum við okkur að æfingum næstu tvær vikurnar.  Tókum flotta æfingu á brautinni í Laugardalnum (erum búin að semja við vallarstjórann ;) á þriðjudaginn, 4 sinnum 1000 - 400 - 200 á I hraða sem er 3:43 pace hjá mér.  Henti þessu í Excel og tók út hvíldirnar svo þetta yrði ekki algjör langloka.  Garmin mælir þetta líka aðeins lengra en ég er bara að horfa á tíma á brautinni en ekki pace því það er aðeins villandi:






Time Distance Avg Pace

3:44.6 1,03 03:38:00

1:27.9 0,41 03:34:00

:44.2 0,2 03:36:00

3:42.3 1,03 03:36:00

1:27.9 0,41 03:35:00

:44.6 0,21 03:37:00

3:42.2 1,04 03:35:00

1:27.9 0,41 03:37:00

:43.3 0,21 03:25:00

3:40.6 1,03 03:34:00

1:26.9 0,41 03:33:00

:43.3 0,2 03:38:00






Fimmtudagsæfingin fór svo í vaskinn eða þannig.  Átti að taka 5*1200 á I hraða (3:43 pace) en það var aldrei að fara að gerast á þessum degi.  Fæturnir algjörlega búnir og svöruðu engu.  Hraðinn var svo sem ekki vandamál en ég endaði á að taka 2*1200 - 1*800 og svo 4*400 í lokin en hélt hraðanum.






Time Distance Avg Pace

4:28.6 1,24 03:37:00

4:30.5 1,25 03:37:00

3:00.2 0,83 03:37:00

1:26.4 0,42 03:28:00

1:27.6 0,41 03:36:00

1:28.6 0,41 03:34:00

1:27.6 0,41 03:34:00





 Næsta lykilæfing var svo á laugardaginn og hún hljómaði uppá 2 * 15 mínútur á T hraða (4:04 pace).  Við vorum bæði frekar svartsýn á að þetta gengi, mikil þreyta í kroppnum.  En ég hékk á því að ég hafði komið sjálfri mér á óvart á síðustu svona æfingu og ákvað að gera mitt besta.  Í versta falli myndi ég breyta þessu í langa rólega æfingu...  Og aftur gekk þetta framar vonum.  Nú er ég steinhætt að vera hrædd við svona æfingar, leið vel og fannst þetta bara gaman!

Split
Time
Distance
Avg Pace
Summary43:35.610,154:18
115:00.03,724:02
24:00.00,844:44
315:00.03,704:03
44:00.00,884:32
55:35.61,015:33
Nú þurfum við hjónin að spýta í lófana og auka magnið en við höfum bara ekki komið neinum löngum æfingum fyrir siðustu vikurnar.  Það er nefnilega brjáluð vinna að vera í sumarfríi með tveggja að verða þriggja ára skal ég segja ykkur!

15. júl. 2014

Meistaramót Íslands í frjálsum - 3000 m

Veit ekki alveg hvernig ég var stemmd fyrir þetta hlaup.  Held að ég hafi verið smá smeyk um að uppsafnaða þreytan myndi hafa áhrif á mig en ég var svo sem búin að hvíla vel síðan á miðvikudagskvöld, engin átök bara rólegt skokk.  Maður getur svo ekki endalaust verið að hugsa um gamla þreytu, á einhverjum tímapunkti þá venst líkaminn álaginu og átökin verða norm.  

Þetta er í fyrsta sinn sem ég hleyp 3000 m á braut úti, ég hef tvisvar eða þrisvar áður hlaupið þessa vegalengd á brautinni inni.  Ég sé í afrekaskránni að ég á tíma í febrúar árið 2010 en þá hljóp ég á 11:11 og 11:16.  Svo er ég eiginlega alveg viss um að ég hafi einu sinni hlaupið þetta á 11:08 sem er þá besti tíminn minn inni en ég finn hann ekki í fljótu bragði, gæti hafa verið í tímatöku á æfingu.  Ég fletti upp í McMillan Race predictor og setti inn 5km tímann minn á Akureyri og 10 km tímann í Ármannshlaupinu og McMillan sagði að ég gæti þá hlaupið þetta á 11:21 eða 3:46 pace.  Hmmm... það er miklu auðveldara að reikna 3:45 sem gera 1:30 á hring, slétt og fín tala og þá var það ákveðið.

Frábært veður á keppnisdag.  Rakt og hlýtt og lítill vindur.  Við vorum sex stelpur (5 úr ÍR) sem er nú bara einhvers konar met í 3000 m hlaupi svei mér þá.  Oft 1 og 2 og 3 í brautinni sem er glatað.   Við þekkjumst allar mjög vel og frábært að fá að keppa með og við vinkonur sínar.  Ég mætti bara í mínum venjulegu keppnisskóm, var alveg búin að gleyma að yfirleitt er hlaupið á gaddaskóm, sérstaklega þegar brautin er blaut.  Var pínu sneypuleg á línunni og allar hinar í göddum en ohhh... well.

Strax á fyrsta hring var ljóst að Andrea og Fríða myndu keppa til sigurs, nokkru á eftir þeim var svo Helga og ég í hælunum á henni.  Ég veit upp á hár að fyrir hverja sek sem þú hleypur of hratt fyrstu hringina þarftu að borga tvær í síðustu en það er svoooo erfitt að hemja sig, sérstaklega þegar það er svona langt síðan síðast...  

Mér finnst ég nú bara nokkuð reffileg hérna!

Eftir 3 hringi (af 7 og hálfum) var ég 4 sek of hröð miðað við lokatímann 11:15.  Ég ákvað samt að nota frekar keppnina en skynsemina og hékk í Helgu eins lengi og ég gat og leið mjög vel.  Þegar tveir hringir voru eftir seig Helga aðeins frá mér og ég var vel þreytt í síðasta hring.  4. kona í mark á 11:19 sem er PB á braut utanhúss (muwahahaha... enda fyrsta) og 4 sek frá draumamarkmiðinu, tveim sek betur en McMillan hélt að ég gæti!  Það fyrir utan fékk ég stig fyrir hlaupið og gat þ.a.l. lagtí í púkkið í stór-sigri ÍR á Meistarmótinu.  Hér eru úrslitin.

Gígja, Anna, Fríða, Eva og Andrea.

Eftir hlaupið var ég alveg sjúk í að fá annað tækifæri til að hlaupa þessa vegalengd og ég þarf ekki að bíða lengi, MÍ Öldunga er næstu helgi og ef mig langar ennþá til.  Þá get ég endurtekið leikinn og séð hvort ég geti útfært þetta aðeins betur og náð þessum 4 sek. til baka ;)

Myndir af Flickr síðu Ármanns frjálsar og frá Gunna Palla.

11. júl. 2014

Ármannshlaupið 2014 - Íslandsmeistaramót í 10 km götuhlaupum

Það helltist yfir mig skrýtin tilfinning þegar við lögðum bílnum nálægt startinu á Ármannshlaupinu á miðvikudaginn.  Allt í einu voru minningarnar af vonbrigðunum og sársaukanum á síðasta ári ljóslifandi.  Tilfinningin rétt áður en fóturinn gaf sig.  Eitt af mínum bestu hlaupum og bara smá eftir.  Bresturinn.  Vissan um að eitthvað hræðilegt hefði gerst.  Hlaupararnir sem hlupu framhjá og kölluðu 'Komaso þetta er alveg að vera búið...".  Haltrandi með kökkinn í hálsinum í átt að markinu.  Komast ekki lengra og þurfa að húkka far.  Ringluð og kvalin að leita að bíllyklunum.  Rigningin, kuldinn og skjálftinn í kroppnum.  'Viltu ná í Þórólf, ég held ég sé fótbrotinn...?'.  

Þungt hugsi yfir hlaupaframtíðinni...

Þessi tilfinning gerði það að verkum að ég tók u-beygju á staðnum og ákvað að skilja keppnisskóna mína eftir í bílnum í þetta sinn.  Táknræn leið til að losa mig við pressuna um að gera eitthvað stórkostlegt á þessum tímamótum.  Mér leið alveg ljómandi vel, hlakkaði mikið til hlaupsins og nú var ekkert stress.  Á ráslínunni mat ég stöðuna þannig að Agnes væri sterkust og Andrea líkleg til afreka.  Ef ekkert óvænt kæmi uppá þá gæti ég tryggt mér 3. sætið með því að hlaupa skynsamlega.   Miðað við formið sem ég er í núna og með tillit til keppnisþreytunnar í kroppnum stefndi ég á að fara undir 41 eða halda 4:05 pace.  

Tóm gleði á ráslínunni

Við rúlluðum af stað og fljótlega varð röðin eins og ég hafði gert ráð fyrir.  Agnes tók örugga forystu en Andrea fór rólega af stað og bætti svo jafnt og þétt í eftir 3 km.  Ég hjóp mjög afslappað og þægilega í samfloti við Frikka, aðeins á eftir Stefáni og Trausta.  Var mjög spræk á snúningnum og seig fram úr nokkrum hlaupurum á næsta km.  Frikki var ennþá sprækari og ég náði ekki að hanga í honum.  Næstu 2 km jafn þægilegir og fyrstu 5.  Eftir sjö fór aftur á móti kroppurinn að kvarta, lappirnar þyngdust og annað hvort var að bíta á jaxlinn og pína sig til að halda hraða eða gefa aðeins eftir. Í samningaviðræðunum við sjálfa mig á þessari stundu voru þetta rökin með síðari kostinum:
  • Ég er ekki fara að ná næstu konu
  • Ég er ekki að fara að ná PB
  • Ég er að fara að keppa í 3000 á MÍ á sunnudaginn  
Einbeitti mér að öndun og stíl en fann að það dró úr hraðanum.  Ég hafði farið fram úr Trausta eftir snúninginn meðan ég var ennþá full spræk en hann rúllaði fram úr mér aftur þegar rúmur km var í mark.  Það er mikið af beygjum í lok brautarinnar og auðvelt að sjá stöðuna þannig að ég var alveg pollróleg og örugg með að halda mínu sæti.  Ekki það, ég þurfti samt að halda mér vel við efnið og þetta var drullu erfitt eins og alltaf á síðasta spottann.  Eftir síðustu beygju gaf ég svo allt í botn, tók góðan endasprett og blastaði eins og ég gat, var ekki á því að hleypa fleirum fram úr mér.



Þetta tekur á, takið eftir þessari myndarlegu slummu!
(Þessi mynd er birt í anda þess að maður eigi ekki alltaf að sýna bara bestu hliðarnar á sér, líka raunveruleikann.  Sleppi samt verstu myndinni af tillitsemi við lesendur :)

Tíminn 41:31, besti tímin minn í ár en ég er viss um að ég eigi þónokkuð inni á góðum degi og úthvíld. Hlakka til að láta reyna á það seinna á árinu.  Svona hjóp ég þetta, síðustu þrjá fer þetta að verða ansi þungt...  og svo fínn sprettur í lokin.  Garmin mældi brautina 144 m of langa þannig að það má segja að ég hafi rétt skriðið undir 41 á 10 km!


Split
Time
Distance
Avg Pace
Summary
41:31.710,144:06
13:57.31,003:57
24:02.91,004:03
34:03.61,004:04
44:08.71,004:09
54:00.51,004:01
64:03.31,004:03
74:06.21,004:06
84:10.11,004:10
94:12.11,004:12
104:14.61,004:15
11:32.30,143:44

Þriðja kona í heildina og fyrst í aldursflokki á Íslandsmeistaramóti í 10 km götuhlaupum 2014.  Mikið ofsalega var ég kát.  Hérna eru úrslitin.

Andrea, Agnes og Eva.

Myndirnar eru fengnar að láni á Flickr síðu Ármann frjálsar.
    

5. júl. 2014

Akureyrarhlaupið 2014 - How to Crash and Burn... and love it!

Þú hefur ekki lifað (á fimmtugsaldri þ.e.a.s.) fyrr en þú ákveður að sleppa allri skynsemi einu sinni á startlínunni, láta eins og sjö ára og hlaupa eins hratt af stað og þú getur án þess að taka tillit til aðstæðna.  Hlaupa á móti rokinu á 3:20 pace, pína sig til að hægja aðeins 3:30, 3:40..., fyrsti km á 3:47.  Yehaww...rok, slok, mok, ræður ekki við þig.  

Vera steinhissa þegar klukkan segir að annar km sé á 3:55, what?  Finna hvernig bensínið fuðrar upp og klárast og hlaupið rétt hálfnað..., þriðji km á 3:55. Þú bítur á jaxlinn, semur við sjálfan þig, reynir að hugsa ekki um lappirnar sem öskra á þig að stoppa.  Gleymir að hugsa um öndunina og finnur hvernig hægist á þér, plan A er ekki að fara að verða að veruleika í dag. Hættir að hugsa um klukkuna.  

Hanga á því að klára eins vel og þú getur, þú ert alla vega fyrst, það er eitthvað.  Þó þú sért örugglega eins og skakklappandi rækja með heilablóðfalls look...  500 m eftir þegar þú sérð mann og barn útundan þér horfa í áttina til þín og garga 'Áfram mamma!'.  Þetta er ekki maðurinn þinn og ekki barnið þitt!  

Finna einhvern anda ofan í hálsmálið á þér.  Nei andsk... reyna að grafa dýpra eftir nokkrum bensíndropum, gefa allt sem þú átt til að henda þér yfir línuna einni sekúndu á undan næstu konu.  Lyppast svo niður í grasið með hálfgerðru óráði, ná andanum og áttum.  Finna fyrir hverri einustu frumu í líkamanum.  Þá kemur það.  Hríslast um kroppinn og upp í heila.  Alsæla.  Þetta er lífið!

Tíminn 19:59 (19:57 chip) og fyrsta sæti.

Hefði ég getað hlaupið hraðar á Akureyri ef ég hefði ákveðið að taka skynsemina á þetta og farið út á 4:00 pace fram að snúningi og aukið í á bakaleiðinni?  Sennilega.  Hefði mér liðið betur á leiðinni? Örugglega.  Hefði ég lært eitthvað nýtt um sjálfa mig?  Sennilega ekki.  Myndi ég gera þetta öðruvísi ef ég gæti spólað til baka?  Ekki séns!

Síðustu tveir km voru á 4:06 og 4:01 pace og nú veit ég að það er alveg sama hversu búin á því ég er, ég get hlaupið einn km á 4:01.  Það er gott að vita.  Ég var ekki frá því, fyrir þetta hlaup, að keppnisskapið í mér hefði mildast með árunum.  Sennilega ekki.  Það er gott að vita.  Það skiptir ekki máli hvaða skilaboð kroppurinn er að senda þér, þú vinnur hlaup með kollinum.  Það er gott að vita.  

Allt til fyrirmyndar hjá Norðlendingum að venju.  Brautin er rennislétt, brautarvarslan góð og sérstaklega glæsileg verðlaunaafhending með ótal útdráttarverðlaunum að loknu hlaupi.  Ætla bara rétt svo að vona að það hafi ekki verið teknar myndir af hlaupurum koma í mark!!!

Þórólfur átti gott hlaup og varð annar á 16:55.   Hér eru úrslitin.

Við skemmtum okkur konunglega í þessari stuttu og snörpu ferð norður, ekki einu sinni sólarhringur í þetta sinnið.  Orri bróðir tók á móti okkur með sinni einstöku gestrisni, lánaði okkur bílinn sinn þegar við þurftum og dekraði við okkur.  Hlökkum til að koma aftur! 

Hópurinn hans Gunna Palla fyrir norðan:
Aldís, Kári, Guðni Páll, Sæmi, Eva og Þórólfur