10. jún. 2014

Hvítasunnuhlaup Hauka og Sportís 2014

Var að lesa bloggið mitt frá því í fyrra um Hvítasunnuhlaupið og það er greinilegt að á þessum tíma árs er allt á fullu í hlaupunum hjá serial racer-um og ekki mikið fyrir hvíldinni að fara í undirbúningi.

Undirbúningurinn síðustu 12 daga fyrir hlaupið í ár var svona:  Fimmtudagur: Ferðalag til Kaliforníu, hátt í 20 tímar með biðum á flugvöllum og tímamismunur -7 klukkutímar.  Laugardagur: Hálft maraþon á ströndinni í glampandi sól og 26 stiga hita með einni drykkjarstöð.  Var mjög nálægt mínu besta, brautin 300 m of löng og tíminn 1:30:40 avg. pace 4:14.  Inn á milli var svo skokk á ströndinni, göngutúrar og almenn kósýheit (lesist rauðvín/hvítvín og súkkulaði :) sem fylgja utanlandsferðum.  Fimmtudagur: 15 tíma ferðalag heim aftur og tímamismunur +7 tímar.  Laugardagur og sunnudagur:  8 tímar í garðvinnu hvorn daginn í blíðunni og ekki veitti af! 

Þrátt fyrir óhefðbundin aðdraganda var ég bara furðuspræk þegar ég vaknaði að morgni hlaupadags og morgunrútínan eins og venjulega fyrir hlaup. Við vorum komin snemma í Hafnarfjörðinn, en það er eitthvað sem við erum virkilega búin að bæta í okkar undirbúningi fyrir hlaup, höfum svo oft skransað inn á síðustu stundu.   Við fundum bæði fyrir þreytu í kroppnum í upphituninni en veðrið var svo fallegt og svo góð stemmning á staðnum að ég hlakkaði til að takast á við áskorun dagsins.  Vorum aðeins að vangaveltast með klæðnað, þá er skothelt að spyrja þann besta og herma.  Kári Steinn mælti með hlýrabol og hönskum og þá var það ákveðið.

Spræk fyrir hlaup.

Í startinu gerði ég ráð fyrir að mínir helstu keppinautar yrðu Beta og Ebba Særún.  Við hlupum af stað og fyrstu km leiddi Ebba en svo seig ég fram úr og leiddi næstu tvo eða svo.  Þá tók Sigrún (Frískir Flóamenn) forystuna og ég elti hana næstu km.  Aftur seig ég fram úr og þegar við komum upp á Stórhöfða (geri ráð fyrir að það sé fjallið...) eftir ca. 7 km þá var Beta komin í hælana á mér.  Hún renndi sér fram úr á niðurleiðinni en það er bara hrein unun að sjá hvað hún er góð niður brekkurnar.   Ég var aðeins farin að finna fyrir þreytu í fótunum þegar hér var komið við sögu en ákvað að reyna að hanga í Betu eins og ég mögulega gæti, með það plan að ef mér tækist að hanga í henni niður síðustu brekkuna þá ætti ég séns á að hlaupa hana af mér á flatanum síðasta km.



Og svona hlupum við langleiðina í mark, Beta leiddi og ég í hælunum á henni.  Gekk bara vel upp brekkurnar, Esjan að borga til baka en ég þurfti aðeins að breyta um stíl og skokka upp í stað þess arka eins og ég er vön til að halda í við Betu.  Þetta er eitthvað sem ég ætla að huga að við æfingar framtíðarinnar.  Á flötu köflunum leið mér mjög vel en var svo með hjartað í buxunum niður brekkurnar sem ég er óvön að hlaupa.  Hefði sko farið miklu hægar niður ef ég væri ekki að elta.  Ég finn ekki fyrir þessu óöryggi í Esjunni en þar þekki ég hvern einasta stein, borgar sig að þekkja leiðina betur og venja sig við þessar tilteknu brekkur.  Í síðustu brekkunni niður að flata lokakaflanum rak ég tánna í stein þegar ég var að fara fram úr 14 km hlaupara og flaug rækilega á hausinn.  Reif upp á mér hægri hendina og hægra hnéð, marðist á vinsti hendinni og mjöðminni, en þetta var ekkert sem kom í veg fyrir að ég gæti hlaupið.

Hrufl mar...

En... við fallið missti ég Betu of langt frá mér til að eiga séns.  Hljóp eins vel og ég gat síðasta kílómeterinn og skilaði mér í mark 17 sek á eftir Betu sem sigraði með glæsibrag á nýju brautarmeti.  Tíminn minn var 1:25:57 sem er bæting um fjóra og hálfa mínútu frá því í fyrra, hérna eru úrslitin.


   
Fyrstu þrjár konur, Eva, Beta og Sigrún.

Haukamenn og Sportís bættu um betur í ár þrátt fyrir að allt hafi í raun verið til fyrirmyndar í fyrra.  Í ár var brautin enn betur merkt og keppni á milli sjálfboðaliðanna gerði þetta enn skemmtilegra með stuðtónlist og hvatningu.  Já, þetta verður klárlega árlegt hjá okkur hjónum ef við mögulega getum verið með.

Bravó Haukar og Sportís!

Ótrúlega ánægð með formið mitt.  Jafnaði pb í Icelandair hlaupinu, bætti pb í 5 km í Sr. Friðrikshlaupinu og er núna að hlaupa miklu hraðar í Hvítasunnuhlaupinu en í fyrra.  Ekki hefði mig grunað þetta þegar ég lá uppá slysó fyrir 11 mánuðum og fékk að vita að ég væri fótbrotin!

Framundan eintóm skemmtun og ég stefni að sjálfsögðu á að gera betur en í fyrra, Álafosshlaup á fimmtudag, Gullspretturinn á laugardag og svo Esjuhlaupið viku síðar.  Rock and Roll.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli