16. jún. 2014

Gullspretturinn 2014 og litið yfir farinn sprett.

Ég elska Gullsprettinn!

Við vorum svona að spá í að brenna upp í bústað eftir vinnu á föstudaginn en allt í einu hrúguðust verkefnin á okkur svo við sáum fram á að það yrði einfaldara og þægilegra að vera heima.  Við lögðum í hann rétt upp úr hálf tíu og renndum inn á Laugavatn klukkan tíu og hittum þar tengdapabba, pössunarpíu dagsins.  Hann fór í ísbíltúr á Geysi með stelpurnar á meðan við gerðum okkur klár fyrir keppnina.

Eftir að hafa skoðað keppendalistann þá gerði ég fastlega ráð fyrir að ég yrði önnur á eftir henni Agnesi.  Ég var staðráðin að njóta dagsins og hlaupsins til hins ítrasta.  Ég var of kepnisþreytt til að gera einhverjar rósir og það var þægileg tilhugsun að geta bara skottast á eftir henni Agnesi á þægilegum dampi.

Þetta var 10. Gullspretturinn frá upphafi og við höfum tekið þátt í þeim flestum.  Í fyrsta hlaupinu árið 2005 var ég 3. kona á tímanum 50:30.  Það er hægt að smella á myndirnar til að stækka þær.
2005: Örlítill munur á startinu þá og í dag þegar takmarka þarf fjölda þátttakenda við 200!
2005: Endaspretturinn.
2005: Fyrsti Gullspretturinn með sítt hár og tagl!

Ég vann tveimur árum síðar, 2007 hljóp ég á tímanum 49:30.  Það var líka í síðasta sinn sem ég vann hana Anítu Hinriksdóttur en hún náði mér ca. í mitti og var 11 ára!
2007: Endaspretturinn. 
2007: Alltaf jafn gaman.
2007: Næstum því pínlegt :)

Árið 2009 átti ég ekki lengur séns í Anítu sem vann það árið og ég var önnur á 46:27.

2009: Rétt eftir startið.  Ef vel er að gáð þá má sjá að ég er með umbúðir á hægri hendinni og plastpoka utan um en tveimur dögum áður datt ég alveg svakalega á hjóli þegar ég lagðist of mikið í beygju og rak pedalann í jöðina.  Slysó og 10 spor hér og þar um líkamann en maður lætur það ekki skemma fyrir sér Gullsprettinn!
2009: Gott að hengja sig á einhvern stæðilegan yfir vaðið.
2009: Sandurinn getur verið þungur.

Ég hljóp næst 2012 (en ekki 2011, vel athugað Vala vinkona mín :) og sigraði þá á mínum besta tíma 42:06 og náði brautarmetinu í leiðinni.
2012: Einhvers staðar á lokakaflanum.
2012: Kát að venju eftir hlaupið. 

Í fyrra eins og í ár hljóp ég þetta eftir mikla keppnistörn og tímarnir bera þess merki, þriðja sæti 2012 á 43:53.
Við Frikki erum oft á svipuðu róli ;)
2013: Á endasprettinum
2013: Verðum við ekki bara yngri með árunum?

Ég hef hingað til alltaf haft einhvern til að elta en eins og í Álafosshlaupinu um daginn þá varð töluvert bil í næstu menn á undan.  Í Gullsprettinum er engin hætta á að villast, það sem var frábært í ár var að fá tækifæri til að spá almennilega í leiðina og besta hana eins og hægt er.  Alltaf ákveðin léttir að henda sér ofan í fysta vaðið og taka út sjokkið.  Maður fær horn og hala og það hlakkar í manni þegar óreyndir vaða út í mýrina til að stytta sér leið og gera sér ekki grein fyrir að það borgar sig að taka bakkann þó leiðin sé lengri, þá er hún miklu fljótfarnari.  Í ár var vaðið óvenju stutt en þvílíkur straumur!!!  Ég lenti í bölvuðum vandræðum og það er ekki oft sem maður óskar þess að vera þyngri á hlaupum en það gerði maður svo sannarlega þarna.  Ég missti undan mér fæturnar og var heppin að fljóta ekki eitthvað út í buskann, náði að fóta mig og krafla mig upp á bakkann.  Svo kemur uppáhaldshlutinn minn, þar sem maður nær þeim sem eru búnir að keyra sig út fyrri partinn.

Ég lærði líka frábæra lexíu í ár, hljóp lengst af með hann Frikka á hælunum og hann hafði minnst á að hægt væri að fara yfir mýri og sleppa við tanga í lok hlaupsins.  Ég var skeptísk á það og þekkti ekki staðinn sem hann var að tala um.  Þegar til kom hljóp ég bakkann en hann mýrina og hann náði um hálfrar mínútu forskoti á þessum stutta kafla.  Ekki spurning hvað maður gerir næst ;)

Fyrstu konur í Gullsprettinum 2014 

Agnes vann með yfirburðum og bætti brautarmetið sitt frá því í fyrra, ég varð önnur á 43:20.

Við vorum rétt komin í mark, búin að ná andanum og fara yfir hlaupið þegar tengdapabbi kom með stelpurnar og veislan byrjaði.  Í gróðurhúsinu var boðið upp á nýbakað hvera-rúgbrauð með reyktum silungi, þvílíkt lostæti.  Það tekur alltaf góðan tíma að bíða eftir verðlaunaafhendingu en það er ekkert mál í þessu fallega umhverfi með öllum hlaupavinum sínum!  Ég fékk að launum fyrir 2. sætið þriggja rétta máltíð fyrir tvo í Efstadal.  Þórólfur krækti sér í úrdráttarverðlaun, Vegahandbókina og hún mun örugglega koma að góðum notum í sumarfrínu.   Ég held ég verði að segja að þetta sé uppáhalds Gullspretturinn minn hingað til.

Tengdapabbi er engum líkur, alveg með'edda og gerir okkur kleift að njóta þessarar upplifunar.

Ef við fáum einhverju um það ráðið þá verðum við hjónin með okkar fólki á staðnum að ári og tökum þá þátt í 10 ára afmælis Gullsprettinum.  Svei mér þá, hlakka strax til og þá verður tekið almennilega á því!

1 ummæli:

  1. Snilli ertu, Eva mín, og góður penni þar að auki. Bryndís.

    SvaraEyða