Maður er eins og barinn harðfiskur eftir 20 tíma ferðalag og 7 klukkutíma tímamismun. Þegar við Þórólfur skriðum inn á hótel að kvöldi fimmtudags þá voru væntingarnar ekki stórkostlegar fyrir hálf maraþonið sem planað var rúmum sólarhring síðar...
Eftir að hafa náð ágætis svefni og fengið okkur stórkostlegan morgunverð fór sólin að rísa á ný og við ákváðum að nýta daginn í að finna startið til að vera ekki að stressa okkur á því rétt fyrir hlaup. Við fengum leiðbeiningar (ekki mjög góðar...) um hvernig við gætum komist með strætó á staðinn og eftir mikið ark og rannsóknarvinnu vorum við viss um að við værum með þetta.
Brautarskoðun daginn fyrir hlaup.
Annar dagur í langþráðu fríi... og vekjaraklukkan stillt á 4:00! Vorum búin að versla okkur beyglur með hnetusmjöri og sultu daginn fyrir en borgin var enn í fastasvefni og í fyrsta skipti fór ég í keppni án þess að fá svo mikið sem einn kaffibolla.
Við vorum tímanlega í startinu, fengum númerin okkar og spjölluðum við hlaupastjórann, Charlie Alewine. Hann er stór merkilegur gaur sem skipuleggur low-key fámenn hlaup það sem áhersla er lögð á persónulega þjónustu og að hlaupararnir fái tækifæri til að kynnast. Charlie er 69 ára gamall, í fáránlega flottu formi, á kroppinn eins og unglingur! Hann er með eitt eða tvö hlaup nánast hverja einustu helgi og í hlaupinu með okkur voru tveir Heimsmetahafar Guinness, annars vegar kona sem hafði 'hlaupið' flest maraþon á einu ári og svo maður sem hafði 'hlaupið' heilan helling af maraþonum berfættur og mætti sá á tásunum í þetta skiptið líka. Ég segi 'hlaupið' vegna þess að þegar ég sá þau í brautinni voru þau alltaf labbandi :)
Það voru 48 hlauparar sem lögðu í hann á sama tíma, í 3 mismunandi vegalengdir. Hlaupið var eftir göngu/hjólastíg á ströndinni, rúmlega 5 km að snúningpunkti, ein pulsa fyrir kvart maraþon, tvær fyrir hálft og fjórar fyrir heilt maraþon. Strax eftir nokkur hundruð metra sáum við að við værum í nokkrum sérflokki í þessu hlaupi, Þórólfur leiddi og ég var önnur. Planið mitt var að fara út á 4:15 pace alla vega fyrstu lykkjuna og sjá hvernig mér liði eftir það. Það var bara drykkjarstöð í startinu og ég hljóp af stað með drykkjarbelti og einn brúsa en skildi annan eftir til að taka með seinni lykkjuna. Það var nánast alveg heiðskýrt þrátt fyrir að við værum snemma á ferðinni og hitinn var svona frá 22° og upp í 26° þegar leið á hlaupið.
Fyrstu 5 km liðu frekar hratt, brautin var einföld en rétt fyrir snúning hlupum við í gegnum braut sem búið var að setja upp fyrir þríþraut sem var í gangi á sama tíma. Ég fylgdist vel með Garmin og var vakandi fyrir snúningspunkti en það áttu að vera krítarmerkingar í stéttini rétt eftir að við kæmum að bátabryggju. Mér leist nú ekki nógu vel á að þegar ég var nokkuð viss um að snúningurinn væri á næsta leiti að ég var ekki enn búin að mæta Þórólfi. Þegar ég kem að krítarmerkingunum þá var nokkuð ljóst að hann hafði ekki snúið á réttum stað og ég sá glitta í hann í fjarska á stígnum framundan. Gargaði á hann eins af lífs og sálar kröftum og snéri svo sjálf, nokkuð viss um að hann og allir aðrir Kaliforníubúar hefðu heyrt í mér 'ÞÓRÓLFURRRRR..., SNÚA....'.
Ég var akkúrat á pace-i og leiðin til baka nokkuð þægileg, náði 100 m hér og þar í skugga sem var svo sannarlega vel þegið. Við snúninginn í startinu gerði ég mistök, í staðinn fyrir að drekka á drykkjarstöðinni og taka brúsann með mér, greip ég bara brúsann og brunaði áfram. Það þýddi að fyrir síðustu 10 km hafði ég einn lítinn brúsa af vökva... Ekki gott. Ég treyndi mér vökvann eins og ég gat en það dugði skammt. Ég hélt áfram að fylgjast með pace-i öðru hvoru og það kom mér á óvart að ég hélt hraða og þegar leið að síðasta snúning var mig virkilega farið að langa til að sjá hvort ég gæti ekki bara haldið þetta út.
Síðustu 5 km voru frekar mikið 'Hell'. Ólíkt fyrri ferðinni var enginn skuggi síðasta legginn. Nú fann ég hvernig líkaminn þornaði og ég var hálfpartinn að vonast eftir að ég myndi klúðra einum km, þá gæti ég bara tekið því rólega restina :) En einn af öðrum duttu þeir inn alveg innan skekkjumarka. Þegar tveir km voru eftir hætti ég að skoða klukkuna og mantraði mig í mark. Ég minnist þess ekki að hafa hlaupið svona langa km áður, þetta ætlaði engan enda að taka en eitt skref í einu og þetta hafðist.
Við hjónin með Charlie á milli okkar.
Ég kom önnur í mark á eftir Þórólfi á tímanum 1:30:40. Brautin var tæplega 300 m of löng en það þýðir sub 1:30 í hálfu. Ég var ótrúlega ánægð að ná að halda 4:15 pace við þessar aðstæður og hlakka mikið til að sjá hvernig hlutirnir þróast hjá mér fyrir hálf maraþonið í Munchen í haust.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli