24. jún. 2014

Mt. Esja Ultra II 2014 - Taka tvö

Fram á síðustu stundu var ég í vafa um hvort ég ætti að vera með eða ekki.  Ég skráði mig frekar snemma, þ.e. fyrir keppnistörnina og þá keppnisþreytuna sem fylgdi í kjölfarið...  Það voru fjórar vikur frá síðustu Esjuæfingu og ég hef ekki farið tvær ferðir í röð síðan 2012.  Ég var mikið að hugsa um hvort ég vildi frekar einbeita mér að Miðnæturhlaupinu og svo finn ég að ég sakna þess að æfa almennilega.  Ég var meira á því að vera ekki með á fimmtudaginn og tók 8*200m spretti í hádeginu í staðinn fyrir að hvíla.  

Eftir að hafa lesið bloggið mitt um Esju hlaupið árið 2012, þar lýsi ég upplifuninni sem eintómri gleði, ákvað ég að láta vaða.  Um leið og ákvörðunin var tekin, þá hætti þetta að þvælast í kollinum á mér og í kjölfarið fylgdi tilhlökkun og spenningur.

Ég kann vel við rástímann, hlaupið byrjar 13:00, ekkert stess að vakna og borða eins og svo oft.  Dúllaðist hérna með krökkunum mínum, tók til dótið mitt í rólegheitum og fór yfir hlaupaplanið í kolllinum.  Ég var komin upp eftir tímanlega, gat skoðað aðstæður, tekið púlsinn á hlaupurunum í brautinni og komið dótinu mínu fyrir.  Ég skokkaði 800m hringinn tvisvar til að hita upp, kom stöfunum og tveimur drykkjarbrúsum fyrir á skiptisvæðinu og kom mér í gallann.  Það leit úr fyrir að vera kaldara en það var en hlaupararnir voru sammála um að það væri mjög hlýtt á leiðinni.  Ég ákvað á endanum að hlaupa í léttum stuttbuxum, stuttermabol og háum sokkum.  Var með tvenna utanvegaskó með mér, Asics Trail Attack sem eru aðeins þyngri en mjög þægilegir og svo Asics Fuji Racer sem eru laufléttir, drena vel og ég hef verið að keppa í undanfarið.  Eina sem var að trufla mig með þá var að ég vissi að brautin væri mjög blaut og mikil drulla í henni og ég var smá smeyk við að fá bleytuna upp í gegnum sólann.  Ákvað á endanum að þar sem ég yrði að öllum líkindum rennandi blaut hvort eð er þá væri betra að drena í gegn og Recer-inn varð ofan á.  Myndirnar erum okkar eða fengnar að láni á Mt. Esja Ultra síðunni.

800m hringur, svo upp vinstra megin og niður hægra megin * 2


Ég ákvað að nota aðeins aðra taktík en ég er vön í þetta sinn, þ.e. í staðinn fyrir að spara mig í fyrri ferðinni ákvað ég að kýla vel á það, hlaupa eins mikið upp á við og ég gæti og freistast til að ná góðu forskoti.  Taka svo seinni ferðina eins og á góðri æfingu, rigsa um leið og hallinn var orðinn töluverður en samt hlaupa alltaf nokkur skref upp í bekkurnar og byrja að skokka af stað nokkrum skrefum áður en komið var að flata.

Til í tuskið.

Mikil stemmning í startinu, áttatíu spenntir hlauparar og saman töldum við niður.  Strax í upphafi var ég framarlega en maður á erfitt með að átta sig alveg á stöðunni í hamaganginum, vissi alla vega að ég var fremst kvenna.  Ég hljóp hringinn frekar hratt, greip stafina með mér á skiptisvæðinu og hljóp af stað upp brekkurnar.  Ég hef aldrei hlaupið eins langt upp í fjallið án þess að taka labb á milli, held að ég hafi nánast hlaupið alla leið að fystu brúnni.  Ætli ég hafi ekki farið fram úr 2-3 frekar snemma á mýrunum og þegar nálgaðist Stein tók ég fram úr einum fimm ferða hlaupara.  Eftir að ég fór fram úr honum sá ég ekki hlaupara á undan mér fyrr fyrr en á endasprettinum.  Mér var vel heitt þrátt fyrir að vera bara á stuttermabol.



Það er alveg hrikalega gaman að koma upp að Steini og láta merkja við sig og tilfinningin er eins og maður sé hálfnaður.  Niðurleiðin er svo adrenalínkikk dauðans, þar sem málið er að finna þessa fínu línu á milli þess að láta sig gossa en samt ekki þannig að það sér hættulegt.  Ákvað að rífa mig úr bolnum fyrir seinni ferðina, gerði það með einstaklega þokkafullum tilburðum á meðan merkt var við mig og sá ekki eftir því.

Búin að rífa mig úr, sem var pínu strembið með drykkjarbelti og derhúfu :)

Eins asnalegt og það hljómar þá fannst mér eiginlega seinni 800 m hringurinn erfiðastur.  Maður hefur á tilfinningunni að maður sé að fara ótrúlega hægt eftir að hafa flogið niður brekkurnar og ég var dauðfegin að komast í klifrið aftur.

Tilbúin í ferð númer tvö.

Aðeins annar taktur í þetta sinn en ég var mjög meðvituð um að klippa leiðina niðrí búta og hugsa með mér á hverri stundu, er ég að gera eins vel og ég get?  Með það í huga gat ég einhvern veginn alltaf byrjað pínu fyrr að hlaupa og hlaupið aðeins lengra en ég gerði ráð fyrir.  Ég sá fljótlega að það þyrfti eitthvað mikið að fara úrskeiðis til að ég myndi missa forystuna, leit til baka einu sinni eða tvisvar í seinni ferðinni og sá engan nálægt.  Ólýsanleg tilfnning að komast upp að Steini í seinni ferðinni, vitandi að nú var bara gamanið eftir.  Það bubblaði í mér hláturinn alla leiðina niður, ég fór þétt en var hrikalega ákveðin í að halda fókus, vera í núinu og ekki fara fram úr sjálfri mér.  Þegar 2-300 m voru eftir í mark sá ég loks í rass til að elta og blastaði eins og druslan dró en náði bara í hælana á honum.  Þar var á ferðinni fimm ferða hlaupari sem var að klára sitt hlaup.

Endaspretturinn.


Þvílík gleði!

Ég leit aldrei á klukkuna í hlaupinu en heyrði að einhver kallaði 'hrikalega góður tími' eftir fyrri ferðina mína.  Eins vissi ég ekki hversu margir væru á undan mér.  Ég var því hoppandi glöð að heyra að ég hafði bætt mig um 5 mínútur frá því fyrir tveimur árum og lokið þessari þraut á 1:44:51 sem var jafnframt nýtt brautarmet.  Ekki fannst mér verra að heyra að ég væri 3. overall, bara einn Íslendingur á undan mér og svo sprækur Frakki sem hafði skömmu áður hjólað hringinn í kringum landið.

Millitímarnir hjá mér voru svona:
800 m og upp að Steini I: 33:45
Niður: 16:52
800 m og upp að Steini II: 37:00
Niður: 17:13

Slakað á eftir hlaup.

Elín, Eva og Ásdís, fyrstu konur í Mt. Esja Ultra II

Ég tók því alveg rólega á sunnudaginn og fór smá skokktúr í gær og ég er með þvílíkar harðsperrur eftir þetta.  Sennilega er ég að borga fyrir tímann sem liðinn var frá síðustu Esjuæfingu.  Hafi ég fyrirfram verið að gæla við að fara í Miðnæturhlaupið líka, þá var það sko algjörlega blásið af!  Enginn vafi og ég naut þess að liggja eins og skata upp í sófa á náttfötunum meðan ég beið eftir úrslitum úr 5 km hlaupinu og fréttum að bónda  mínum.  Hann rokkaði spikfeitt eins og hans var von og vísa, varð 2. á 17:12.  Ekki laust við að við séum pínulítið óþolandi ánægð með okkur og hvort annað þessa dagana en sem betur fer fáum við útrás fyrir því heima hjá okkur og það líður fljótt hjá!

Mynd frá GPJ.

16. jún. 2014

Gullspretturinn 2014 og litið yfir farinn sprett.

Ég elska Gullsprettinn!

Við vorum svona að spá í að brenna upp í bústað eftir vinnu á föstudaginn en allt í einu hrúguðust verkefnin á okkur svo við sáum fram á að það yrði einfaldara og þægilegra að vera heima.  Við lögðum í hann rétt upp úr hálf tíu og renndum inn á Laugavatn klukkan tíu og hittum þar tengdapabba, pössunarpíu dagsins.  Hann fór í ísbíltúr á Geysi með stelpurnar á meðan við gerðum okkur klár fyrir keppnina.

Eftir að hafa skoðað keppendalistann þá gerði ég fastlega ráð fyrir að ég yrði önnur á eftir henni Agnesi.  Ég var staðráðin að njóta dagsins og hlaupsins til hins ítrasta.  Ég var of kepnisþreytt til að gera einhverjar rósir og það var þægileg tilhugsun að geta bara skottast á eftir henni Agnesi á þægilegum dampi.

Þetta var 10. Gullspretturinn frá upphafi og við höfum tekið þátt í þeim flestum.  Í fyrsta hlaupinu árið 2005 var ég 3. kona á tímanum 50:30.  Það er hægt að smella á myndirnar til að stækka þær.
2005: Örlítill munur á startinu þá og í dag þegar takmarka þarf fjölda þátttakenda við 200!
2005: Endaspretturinn.
2005: Fyrsti Gullspretturinn með sítt hár og tagl!

Ég vann tveimur árum síðar, 2007 hljóp ég á tímanum 49:30.  Það var líka í síðasta sinn sem ég vann hana Anítu Hinriksdóttur en hún náði mér ca. í mitti og var 11 ára!
2007: Endaspretturinn. 
2007: Alltaf jafn gaman.
2007: Næstum því pínlegt :)

Árið 2009 átti ég ekki lengur séns í Anítu sem vann það árið og ég var önnur á 46:27.

2009: Rétt eftir startið.  Ef vel er að gáð þá má sjá að ég er með umbúðir á hægri hendinni og plastpoka utan um en tveimur dögum áður datt ég alveg svakalega á hjóli þegar ég lagðist of mikið í beygju og rak pedalann í jöðina.  Slysó og 10 spor hér og þar um líkamann en maður lætur það ekki skemma fyrir sér Gullsprettinn!
2009: Gott að hengja sig á einhvern stæðilegan yfir vaðið.
2009: Sandurinn getur verið þungur.

Ég hljóp næst 2012 (en ekki 2011, vel athugað Vala vinkona mín :) og sigraði þá á mínum besta tíma 42:06 og náði brautarmetinu í leiðinni.
2012: Einhvers staðar á lokakaflanum.
2012: Kát að venju eftir hlaupið. 

Í fyrra eins og í ár hljóp ég þetta eftir mikla keppnistörn og tímarnir bera þess merki, þriðja sæti 2012 á 43:53.
Við Frikki erum oft á svipuðu róli ;)
2013: Á endasprettinum
2013: Verðum við ekki bara yngri með árunum?

Ég hef hingað til alltaf haft einhvern til að elta en eins og í Álafosshlaupinu um daginn þá varð töluvert bil í næstu menn á undan.  Í Gullsprettinum er engin hætta á að villast, það sem var frábært í ár var að fá tækifæri til að spá almennilega í leiðina og besta hana eins og hægt er.  Alltaf ákveðin léttir að henda sér ofan í fysta vaðið og taka út sjokkið.  Maður fær horn og hala og það hlakkar í manni þegar óreyndir vaða út í mýrina til að stytta sér leið og gera sér ekki grein fyrir að það borgar sig að taka bakkann þó leiðin sé lengri, þá er hún miklu fljótfarnari.  Í ár var vaðið óvenju stutt en þvílíkur straumur!!!  Ég lenti í bölvuðum vandræðum og það er ekki oft sem maður óskar þess að vera þyngri á hlaupum en það gerði maður svo sannarlega þarna.  Ég missti undan mér fæturnar og var heppin að fljóta ekki eitthvað út í buskann, náði að fóta mig og krafla mig upp á bakkann.  Svo kemur uppáhaldshlutinn minn, þar sem maður nær þeim sem eru búnir að keyra sig út fyrri partinn.

Ég lærði líka frábæra lexíu í ár, hljóp lengst af með hann Frikka á hælunum og hann hafði minnst á að hægt væri að fara yfir mýri og sleppa við tanga í lok hlaupsins.  Ég var skeptísk á það og þekkti ekki staðinn sem hann var að tala um.  Þegar til kom hljóp ég bakkann en hann mýrina og hann náði um hálfrar mínútu forskoti á þessum stutta kafla.  Ekki spurning hvað maður gerir næst ;)

Fyrstu konur í Gullsprettinum 2014 

Agnes vann með yfirburðum og bætti brautarmetið sitt frá því í fyrra, ég varð önnur á 43:20.

Við vorum rétt komin í mark, búin að ná andanum og fara yfir hlaupið þegar tengdapabbi kom með stelpurnar og veislan byrjaði.  Í gróðurhúsinu var boðið upp á nýbakað hvera-rúgbrauð með reyktum silungi, þvílíkt lostæti.  Það tekur alltaf góðan tíma að bíða eftir verðlaunaafhendingu en það er ekkert mál í þessu fallega umhverfi með öllum hlaupavinum sínum!  Ég fékk að launum fyrir 2. sætið þriggja rétta máltíð fyrir tvo í Efstadal.  Þórólfur krækti sér í úrdráttarverðlaun, Vegahandbókina og hún mun örugglega koma að góðum notum í sumarfrínu.   Ég held ég verði að segja að þetta sé uppáhalds Gullspretturinn minn hingað til.

Tengdapabbi er engum líkur, alveg með'edda og gerir okkur kleift að njóta þessarar upplifunar.

Ef við fáum einhverju um það ráðið þá verðum við hjónin með okkar fólki á staðnum að ári og tökum þá þátt í 10 ára afmælis Gullsprettinum.  Svei mér þá, hlakka strax til og þá verður tekið almennilega á því!

13. jún. 2014

Álafosshlaupið 2014

Göngugrind og áttaviti, jólagjöfin í ár fyrir mig takk!

Við tökum alltaf þátt í Álafosshlaupinu ef við getum, eitt af þessum sem manni þykir sérstaklega vænt um vegna þess að þeir sem standa að því, gera það af svo mikilli væntumþykju.  Þetta er low-key hlaup, ekki mikið lagt upp úr brautarvörslu og merkingum en þess meira upp úr stemmningu og verðlaunaafhendingin er frábær, þar sem nánast annar hver maður fær einhvern glaðning.  Skiptir engu máli upp á gleðina hvort það sé frosin kjúklingur eða einhver glaðningur úr Álafossbúðinni.

Ég átti harma að hefna eftir herfilegar ófarir í fyrra!  Í ár passaði ég upp á að borða á réttum tíma fyrir hlaup, tók með mér keppnismatinn minn í vinnuna til að tryggja það.  Við fengum pössun mjög tímanlega og vorum komin snemma upp í Mosó. Eina sem ég gat ekki ráðið við var að losna við uppsafnaða þreytu eftir síðustu keppnir en kroppurinn þess utan í topp standi.  Ég reiknaði það út fyrir hlaup að minn helsti keppinautur í þetta sinn væri hún Birna, einn mesti hlaupanagli sem ég þekki bara svei mér þá, en hún hefur ekki verið að keppa mikið síðustu árin þannig að ég vissi svo sem ekkert hvernig það færi.

Það var töluverður vindur í Mosó en hlýtt úti og aftur varð hlýrabolurinn fyrir valinu.  Ég startaði frekar framarlega en Bogga leiddi fyrsta spottann og svo Birna en fljótlega fór ég fram úr og leiddi af konunum.  Við fengum að vita fyrir hlaupið að það væru ekkert sérstaklega margir brautarverðir og í ár var t.d. enginn sem hjólaði á undan.  Þrátt fyrir að hafa hlaupið þetta marg oft þá voru þetta slæmar fréttir fyrir mig því ég er yfirleitt svo einbeitt í keppni að ég tek ekki eftir því hvort ég sé að fara til hægri eða vinstri og ég hef einungis hlaupið þessa leið í keppni og alltaf með einhvern til að elta.

Startið í Álafosshlaupinu.

Fyrstu km kannaðist ég vel við mig og sá vel í næsta mann en eftir ca. 3 km fór ég fram úr og þá var langt bil í næsta þar á undan.  Hlaupið byrjar með heilmiklum og löngum brekkum og það er ég sterk, náði nokkuð góðu forskoti og leið vel.  Við tekur ca. 2 km kafli á malarvegi, fekar flatt og þægilegt eða ætti að vera það.  Ég sá glitta í næsta mann á undan öðru hvoru en hafði smá áhyggjur af því hvað var langt í hann.  Sennilega af því ég var eitthvað að spá í þetta og skima eftir honum þá gerðist það.  Rek tánna í stein og flýg svona líka hrikaleg á hausinn aftur!!!   Reif upp á mér vinsti hendina og allt út í mold, drullu og blóði.  Reif aftur upp sárin á hægri hendinni og sama þar.  Hnjaskaði á mér vinstri mjöðmina og hægri kálfann líka.

Ég varð alveg brjáluð!  Rauk upp og þeysti af stað og blótaði klaufaskapnum í sand og ösku.  Í alvöru, aftur!!!  Næsti á undan horfin og ca. km síðar kem ég að ómerktum gatnamótum.  Enginn starfsmaður og engar merkingar.  Arghhhh....   Ég veðjaði á hægri beygju og hljóp kannski 100 m áður en ég snéri við og vonaðist til að næstu menn á eftir mér þekktu leiðina.  Eftir mikið handapat og öskur virtist einn vera viss í sinni sök og benti til hægri.  Ég sá Birnu nálgast ískyggilega...   Frústreruð og lemstruð hélt ég áfram móð og másandi, búin að missa mójó-ið og mér sýndist ég sjá 4:50 pace sem var afleitt.

Ég er búin að vera að glugga í bók sem heitir The Champion's mind og það síðasta sem ég hafði lesið í henni kvöldið áður var að þegar maður lendir í svona vandræðum þá er málið að útiloka allt annað en öndun og tilfinninguna í kroppnum.  Ég hætti að hugsa um að einhver gæti náð mér eða að ég hefði klúðrað þessu og hugsaði í staðinn fyrir markvisst um að anda út og ná góðum rythma í kroppinn.  Ef ég anda vel og leyfi kroppnum að vinna þá næ ég besta mögulega árangri.

Og ekki leið á löngu þangað til að ég komst á gott rúll og fann taktinn minn og gleðina á ný.  Síðustu 3 km voru bara skemmtilegir, ég var sterk og fann að ég var með þetta.   Rúllaði í mark á 38:07 en það er einmitt pb tíminn minn í brautinni, meira en sátt með það eftir allt sem á undan hafði gengið. Þórólfur stóð sig með sóma, hljóp nálægt sínu besta og varð annar á efir honum Ingvari.

Fyrstu konur, Anna, Eva og Birna.

Gullspretturinn á morgun, það verður æði!

12. jún. 2014

Blast the Bay half marathon 2014

Maður er eins og barinn harðfiskur eftir 20 tíma ferðalag og 7 klukkutíma tímamismun.  Þegar við Þórólfur skriðum inn á hótel að kvöldi fimmtudags þá voru væntingarnar ekki stórkostlegar fyrir hálf maraþonið sem planað var rúmum sólarhring síðar...

Eftir að hafa náð ágætis svefni og fengið okkur stórkostlegan morgunverð fór sólin að rísa á ný og við ákváðum að nýta daginn í að finna startið til að vera ekki að stressa okkur á því rétt fyrir hlaup.  Við fengum leiðbeiningar (ekki mjög góðar...) um hvernig við gætum komist með strætó á staðinn og eftir mikið ark og rannsóknarvinnu vorum við viss um að við værum með þetta.

Brautarskoðun daginn fyrir hlaup.

Annar dagur í langþráðu fríi... og vekjaraklukkan stillt á 4:00!   Vorum búin að versla okkur beyglur með hnetusmjöri og sultu daginn fyrir en borgin var enn í fastasvefni og í fyrsta skipti fór ég í keppni án þess að fá svo mikið sem einn kaffibolla.  

Við vorum tímanlega í startinu, fengum númerin okkar og spjölluðum við hlaupastjórann, Charlie Alewine.  Hann er stór merkilegur gaur sem skipuleggur low-key fámenn hlaup það sem áhersla er lögð á persónulega þjónustu og að hlaupararnir fái tækifæri til að kynnast.  Charlie er 69 ára gamall, í fáránlega flottu formi, á kroppinn eins og unglingur!  Hann er með eitt eða tvö hlaup nánast hverja einustu helgi og í hlaupinu með okkur voru tveir Heimsmetahafar Guinness, annars vegar kona sem hafði 'hlaupið' flest maraþon á einu ári og svo maður sem hafði 'hlaupið' heilan helling af maraþonum berfættur og mætti sá á tásunum í þetta skiptið líka.  Ég segi 'hlaupið' vegna þess að þegar ég sá þau í brautinni voru þau alltaf labbandi :)

Það voru 48 hlauparar sem lögðu í hann á sama tíma, í 3 mismunandi vegalengdir.   Hlaupið var eftir göngu/hjólastíg á ströndinni, rúmlega 5 km að snúningpunkti, ein pulsa fyrir kvart maraþon, tvær fyrir hálft og fjórar fyrir heilt maraþon.  Strax eftir nokkur hundruð metra sáum við að við værum í nokkrum sérflokki í þessu hlaupi, Þórólfur leiddi og ég var önnur.  Planið mitt var að fara út á 4:15 pace alla vega fyrstu lykkjuna og sjá hvernig mér liði eftir það.  Það var bara drykkjarstöð í startinu og ég hljóp af stað með drykkjarbelti og einn brúsa en skildi annan eftir til að taka með seinni lykkjuna.  Það var nánast alveg heiðskýrt þrátt fyrir að við værum snemma á ferðinni og hitinn var svona frá 22° og upp í 26° þegar leið á hlaupið.  

Fyrstu 5 km liðu frekar hratt, brautin var einföld en rétt fyrir snúning hlupum við í gegnum braut sem búið var að setja upp fyrir þríþraut sem var í gangi á sama tíma.  Ég fylgdist vel með Garmin og var vakandi fyrir snúningspunkti en það áttu að vera krítarmerkingar í stéttini rétt eftir að við kæmum að bátabryggju.  Mér leist nú ekki nógu vel á að þegar ég var nokkuð viss um að snúningurinn væri á næsta leiti að ég var ekki enn búin að mæta Þórólfi.  Þegar ég kem að krítarmerkingunum þá var nokkuð ljóst að hann hafði ekki snúið á réttum stað og ég sá glitta í hann í fjarska á stígnum framundan.  Gargaði á hann eins af lífs og sálar kröftum og snéri svo sjálf, nokkuð viss um að hann og allir aðrir Kaliforníubúar hefðu heyrt í mér 'ÞÓRÓLFURRRRR...,  SNÚA....'.

Ég var akkúrat á pace-i og leiðin til baka nokkuð þægileg, náði 100 m hér og þar í skugga sem var svo sannarlega vel þegið.  Við snúninginn í startinu gerði ég mistök, í staðinn fyrir að drekka á drykkjarstöðinni og taka brúsann með mér, greip ég bara brúsann og brunaði áfram.  Það þýddi að fyrir síðustu 10 km hafði ég einn lítinn brúsa af vökva... Ekki gott.  Ég treyndi mér vökvann eins og ég gat en það dugði skammt.  Ég hélt áfram að fylgjast með pace-i öðru hvoru og það kom mér á óvart að ég hélt hraða og þegar leið að síðasta snúning var mig virkilega farið að langa til að sjá hvort ég gæti ekki bara haldið þetta út.

Síðustu 5 km voru frekar mikið 'Hell'.  Ólíkt fyrri ferðinni var enginn skuggi síðasta legginn.  Nú fann ég hvernig líkaminn þornaði og ég var hálfpartinn að vonast eftir að ég myndi klúðra einum km, þá gæti ég bara tekið því rólega restina :)  En einn af öðrum duttu þeir inn alveg innan skekkjumarka.  Þegar tveir km voru eftir hætti ég að skoða klukkuna og mantraði mig í mark.  Ég minnist þess ekki að hafa hlaupið svona langa km áður, þetta ætlaði engan enda að taka en eitt skref í einu og þetta hafðist.  

Við hjónin með Charlie á milli okkar.

Ég kom önnur í mark á eftir Þórólfi á tímanum 1:30:40.  Brautin var tæplega 300 m of löng en það þýðir sub 1:30 í hálfu.  Ég var ótrúlega ánægð að ná að halda 4:15 pace við þessar aðstæður og hlakka mikið til að sjá hvernig hlutirnir þróast hjá mér fyrir hálf maraþonið í Munchen í haust.



10. jún. 2014

Hvítasunnuhlaup Hauka og Sportís 2014

Var að lesa bloggið mitt frá því í fyrra um Hvítasunnuhlaupið og það er greinilegt að á þessum tíma árs er allt á fullu í hlaupunum hjá serial racer-um og ekki mikið fyrir hvíldinni að fara í undirbúningi.

Undirbúningurinn síðustu 12 daga fyrir hlaupið í ár var svona:  Fimmtudagur: Ferðalag til Kaliforníu, hátt í 20 tímar með biðum á flugvöllum og tímamismunur -7 klukkutímar.  Laugardagur: Hálft maraþon á ströndinni í glampandi sól og 26 stiga hita með einni drykkjarstöð.  Var mjög nálægt mínu besta, brautin 300 m of löng og tíminn 1:30:40 avg. pace 4:14.  Inn á milli var svo skokk á ströndinni, göngutúrar og almenn kósýheit (lesist rauðvín/hvítvín og súkkulaði :) sem fylgja utanlandsferðum.  Fimmtudagur: 15 tíma ferðalag heim aftur og tímamismunur +7 tímar.  Laugardagur og sunnudagur:  8 tímar í garðvinnu hvorn daginn í blíðunni og ekki veitti af! 

Þrátt fyrir óhefðbundin aðdraganda var ég bara furðuspræk þegar ég vaknaði að morgni hlaupadags og morgunrútínan eins og venjulega fyrir hlaup. Við vorum komin snemma í Hafnarfjörðinn, en það er eitthvað sem við erum virkilega búin að bæta í okkar undirbúningi fyrir hlaup, höfum svo oft skransað inn á síðustu stundu.   Við fundum bæði fyrir þreytu í kroppnum í upphituninni en veðrið var svo fallegt og svo góð stemmning á staðnum að ég hlakkaði til að takast á við áskorun dagsins.  Vorum aðeins að vangaveltast með klæðnað, þá er skothelt að spyrja þann besta og herma.  Kári Steinn mælti með hlýrabol og hönskum og þá var það ákveðið.

Spræk fyrir hlaup.

Í startinu gerði ég ráð fyrir að mínir helstu keppinautar yrðu Beta og Ebba Særún.  Við hlupum af stað og fyrstu km leiddi Ebba en svo seig ég fram úr og leiddi næstu tvo eða svo.  Þá tók Sigrún (Frískir Flóamenn) forystuna og ég elti hana næstu km.  Aftur seig ég fram úr og þegar við komum upp á Stórhöfða (geri ráð fyrir að það sé fjallið...) eftir ca. 7 km þá var Beta komin í hælana á mér.  Hún renndi sér fram úr á niðurleiðinni en það er bara hrein unun að sjá hvað hún er góð niður brekkurnar.   Ég var aðeins farin að finna fyrir þreytu í fótunum þegar hér var komið við sögu en ákvað að reyna að hanga í Betu eins og ég mögulega gæti, með það plan að ef mér tækist að hanga í henni niður síðustu brekkuna þá ætti ég séns á að hlaupa hana af mér á flatanum síðasta km.



Og svona hlupum við langleiðina í mark, Beta leiddi og ég í hælunum á henni.  Gekk bara vel upp brekkurnar, Esjan að borga til baka en ég þurfti aðeins að breyta um stíl og skokka upp í stað þess arka eins og ég er vön til að halda í við Betu.  Þetta er eitthvað sem ég ætla að huga að við æfingar framtíðarinnar.  Á flötu köflunum leið mér mjög vel en var svo með hjartað í buxunum niður brekkurnar sem ég er óvön að hlaupa.  Hefði sko farið miklu hægar niður ef ég væri ekki að elta.  Ég finn ekki fyrir þessu óöryggi í Esjunni en þar þekki ég hvern einasta stein, borgar sig að þekkja leiðina betur og venja sig við þessar tilteknu brekkur.  Í síðustu brekkunni niður að flata lokakaflanum rak ég tánna í stein þegar ég var að fara fram úr 14 km hlaupara og flaug rækilega á hausinn.  Reif upp á mér hægri hendina og hægra hnéð, marðist á vinsti hendinni og mjöðminni, en þetta var ekkert sem kom í veg fyrir að ég gæti hlaupið.

Hrufl mar...

En... við fallið missti ég Betu of langt frá mér til að eiga séns.  Hljóp eins vel og ég gat síðasta kílómeterinn og skilaði mér í mark 17 sek á eftir Betu sem sigraði með glæsibrag á nýju brautarmeti.  Tíminn minn var 1:25:57 sem er bæting um fjóra og hálfa mínútu frá því í fyrra, hérna eru úrslitin.


   
Fyrstu þrjár konur, Eva, Beta og Sigrún.

Haukamenn og Sportís bættu um betur í ár þrátt fyrir að allt hafi í raun verið til fyrirmyndar í fyrra.  Í ár var brautin enn betur merkt og keppni á milli sjálfboðaliðanna gerði þetta enn skemmtilegra með stuðtónlist og hvatningu.  Já, þetta verður klárlega árlegt hjá okkur hjónum ef við mögulega getum verið með.

Bravó Haukar og Sportís!

Ótrúlega ánægð með formið mitt.  Jafnaði pb í Icelandair hlaupinu, bætti pb í 5 km í Sr. Friðrikshlaupinu og er núna að hlaupa miklu hraðar í Hvítasunnuhlaupinu en í fyrra.  Ekki hefði mig grunað þetta þegar ég lá uppá slysó fyrir 11 mánuðum og fékk að vita að ég væri fótbrotin!

Framundan eintóm skemmtun og ég stefni að sjálfsögðu á að gera betur en í fyrra, Álafosshlaup á fimmtudag, Gullspretturinn á laugardag og svo Esjuhlaupið viku síðar.  Rock and Roll.