Það var svo mikið um að vera hjá mér í vikunni að ég var algjörlega afslöppuð fyrir Víðavangshlaup Íslands að þessu sinni. Þriðja keppnishlaupið á viku og 100 km í Hjólað í vinnuna en ég vara bara ótrúlega spræk og fann ekki fyrir mikilli þreytu. Ég var búin að bíta það í mig að hlaupið myndi hefjast kl. 11 og vaknaði miðað við það, borðaði keppnismorgunmat og fór i gegnum mína rútínu. Þegar líða tók á morguninn rifjaðist upp fyrir mér að það er keppt í öllum aldursflokkum og á mismunandi tímum. Kíkti á hlaup.is og hlaupið hjá konum 20 ára og eldri átti að byrja 13:15. Alsæl með það, þar sem planið var að leyfa stelpunum okkar að sprikla í Fjölskylduhlaupi Ármanns sem var á dagskránni á sama stað í Laugardalnum, fyrr um morguninn. Stelpurnar voru æðislegar báðar tvær, Lilja að taka þátt í annað sinn og Sonja hljóp alla leið og var með taktana á hreinu á endasprettinum!
Kom mér heim á skikkanlegum tíma til að fá mér keppnismat númer tvö og græja mig. Hjólaði niðrí Laugardal og reynslunni ríkari frá því í fyrra, þegar hlaupinu var startað 20-30 fyrir auglýstan tíma og ég rétt náði að skransa að startlínunnu áður en það var ræst, þá var ég snemma í því. Það var líka eins gott, það var aftur búið að flýta tímaseðli, start á mótaforritinu var skráð 13:00 en ekki 13:15 eins og á hlaup.is. Við gerðum skipuleggjendum grein fyrir þessu misræmi, það var farin millivegur og tryggt að allir væru tilbúnir til að hlaupa af stað 13:05. Ætti að komast í lag á næsta ári.
Veðrið var alveg frábært og ég ákvað að hlaupa í stuttum stuttbuxum (sem ég geri aldrei...), hlýrabol og háum sokkum. Í þetta sinn valdi ég líka léttustu trail skóna mína, Asics Fuji Racer, hrikalega góðir og einir uppáhalds skórnir mínir.
Í kvennaflokki eru hlaupnir 4 hringir ca. 1,5 km hver. Brautin byrjar aflíðandi á grasi og stígum inn í Grasagarðinn, þar er tekin u-beygja upp á grösugan hól, aftur inn í dal á stígunum og svo mesta klifrið, upp í átt að Laugarásveginum á grasinu. Til vinstri á stígunum inn meðfram tjaldstæðinu og í gegnum tjaldstæðið til baka og endað á brekku niður að markinu.
Ég var alveg ákveðin í að halda haus, missa mig ekki út í einhverja vitleysu í byrjun og notaði fyrsta hringinn til að finna mig. Ég var 5. eftir fyrsta hringinn og nokkuð bil í 4. konu. Ég náði henni fyrir brekkuna löngu, elti upp og þegar við komum inn á tjaldstæðið rúllaði ég fram úr. Þegar ég var að klára annan hringinn sá ég að 3. kona hljóp út úr brautinni og hætti. Ég var þá komin í þriðja sætið á eftir Mörthu og Fríðu Rún.
Ég hljóp fyrsta hringinn hraðast á 3:58 pace en hina þrjá á 4:12 pace, meðal pace 4:09. Þórólfur var á hliðarlínunni að hvetja og tók upp endasprettinn.
Þetta var eitt besta keppnishlaupið mitt held ég bara svei mér þá. Ég naut þess að tæta í mig brekkurnar og rúlla á milli. Ég var allan tímann mjög sterk og dró á keppinauta mína. Og veðrið maður, algjör snilld að þurfa ekki að vera kappklæddur. Tíminn 27:08 (var á 28:48 í sömu braut í fyrra), 3. sæti og Íslandsmeistari í sveitakeppninni.
Öll umgjörð hlaupsins var til fyrirmyndar. Brautin var vel merkt, sjálfboðaliðarnir duglegir að hvetja okkur og verðlaunin frábær, stappfull karfa af fersku grænmeti og ávöxtum. Frábær dagur í einu orði sagt.
Vel gert, mín kæra. Til hamingju með gott hlaup og glæsilega bætingu. :)
SvaraEyðaVala var það, heillin - ég veit ekki alveg hvort eða hvernig þessi auðkenning virkar, ég loggaði mig inn en samt kom Unknown.
EyðaTakk cara mia. Kaffibollinn minn saknar þín :)
SvaraEyða