21. maí 2014

Það er svo óþægilegt ef þú talar um þetta...

Ég hef mikið verið að hugsa um heilindi (Integrity) síðustu daga.  Ekki væri nú verra að hafa hann stóra bróður minn hjá mér til að ræða orðsifjar en það verður að bíða betri tíma.  Fyrir mér eru heilindi sá eiginleiki sem ég kann hvað mest að meta í fólki sem verður á vegi mínum hér í heimi og að sama skapi hef ég óbeit  heilindum.  Ég held að ástæðan fyrir mikilvægi heilinda og þá óbeitin á óheilindum, séu komin af því að lengi vel þá lifði ég lífi þar sem ekki var pláss fyrir heilindi og ég sjálf var svo langt frá því að vera heil.  Ég veigraði mér ekki við að ljúga, svíkja og pretta.  

Ég hugsa að þetta sé svona svipað eins og með reykingarnar, þú finnur engan fanatískari á reykingar en fyrrverandi reykingamenn.   Mér finnst óþægilegt að svo mikið sem finna vott af reykingarfýlu, þó svo/eða sennilega einmitt vegna þess að ég reykti eins og strompur sjálf í mörg ár.  Það er meira að segja smá pirrandi að mæta reykingarfólki úti, jafnvel þó það sé hinu megin við götuna...  

Síðustu 16 árin eða svo, frá því að ég ákvað að taka u-beygju í lífinu, hefur það verið mér mikið hjartans mál að reyna að lifa lífi mínu af heilindum.  Ég geri miklar kröfur til sjálfrar mín og legg ríka áherslu á það í uppeldinu að koma fram við aðra af heilindum og heiðarleika, spila eftir reglunum.   Krakkar byrja snemma að prófa sig áfram, plata pínulítið og sjá hversu langt þau komast.  Það er okkar foreldranna að stoppa þau af og kenna þeim að það hefur afleiðingar í för með sér að koma óheiðarlega fram.  Þegar þau eru eldri þá prófa þau að svindla í spilum, við sláum á puttana á þeim og segjum að það sé ekki í lagi.  'En hann svindlaði líka!!!'.  Það skiptir ekki máli, það má ekki svindla.  Unglingarnir okkar reyna líka á þolrifin, pjúff...  En upp til hópa erum við sem samfélag með svipaða sýn, heilindi eru eftirsóknarverður eiginleiki.  Og við höfum skýra tilfinningu fyrir hvað er rétt og rangt.   Þess vegna þarf ekki að taka fram allt sem er bannað í leik enda væri það ekki hægt.

Ég er með ofnæmi fyrir svindli, ég get svarið það ég fæ líkamleg einkenni!   Fyrir mörgum árum var ég með í vinnustaðaleik þar sem starfsmönnunum var skipt í lið og við kepptum svo í alls konar þrautum.  Við kepptum m.a. í því að fara í gegnum þrautabraut í ætt við skólahreysti, í súludansi, sömdum og fluttum rapplag.  Þetta var gert til að hrista saman hópinn, rosa fjör og hrikalega gaman.  

Þangað til að eitt liðið ákvað að svindla.  Í lokaþrautinni áttum við að búa til eins langan orm og hægt var úr fötunum sem við vorum í og þeir allra hörðustu stóðu á nærbuxunum einum saman.   Liðið sem svindlaði læddist inn í búningsklefa og náði í fullt af fötum þar og bjó til lengsta orminn.  Þeir sem stýrðu keppninni tóku ekki eftir þessu en allir aðrir gerðu það.  Liðinu sem svindlaði var dæmdur sigurinn og allt í einu var þetta var bara ekkert gaman.  Allir vissu af svindlinu og svindlararnir flissuðu bara, hálfskömmuðust sín og sögðu bara að 'Auuu þið eruð bara svekkt að hafa ekki fattað upp á þessu!  Það var ekkert tekið fram að það mætti ekki!'  Svo tóku þau við bikarnum og hömpuðu honum.  

Mér var svaðalega misboðið.  Konan sem var að reyna að bæta fyrir allt ruglið sem hún hafði lifað og hrærst í gat engan veginn kyngt því að fullorðið 'almennilegt' fólk gæti komið svona fram.  Ég hafði á tilfinningunni að flestir væru sammála mér, er eiginlega alveg viss um það.  Það var pískrað á göngunum og það látið gott heita.   

Eftir nokkra daga bloggaði ég um þetta til þess að losa mig við frústrasjónina.   Stuttu síðar var ég kölluð á teppið hjá yfirmanni mínum, þar sem hann bað mig vinsamlega um að fjarlæja bloggið.  Ástæðan var sú að þeir sem voru í 'sigur' liðinu urðu svo svakalega sárir.  Samt var þetta bara hárnákvæm frásögn af því sem gerðist, ég tók ekki einu sinni afstöðu í blogginu og engin nöfn...   Nei, skilaboðin voru skýr, það er allt í lagi að koma svona fram við samstarfsfélaga sína og vini, þetta var nú bara til gamans, en ef þú vogar þér að tala um það, það er sko alvöru glæpur.  Nánast brottrekstrarsök...

Ég fjarlægði bloggið, hugsaði mitt, lengi...   Jú þetta voru margir hverjir vinir mínir og eru enn.  Fólk sem mér þykir hryllilega vænt um og dáist að.  Sumir úr hópnum hafa eftir þetta reynst mér ótrúlega vel meira að segja.  En það var einmitt þess vegna sem mér fannst svo erfitt að kyngja þessu.  Mér er skítsama ef einhver njóli út í bæ svindlar, ég verð bara sorgmædd ef það er einhver sem skiptir mig máli.  Og ef það er stundum í lagi að svindla, já bara svona í gríni, hvaða skilaboð erum við að senda.  'Nei ástin mín það má ekki svindla, nema kannski þegar þú ert fullorðinn og í einhverju gríni.  Öllum finnst það bara fyndið.  Líka þeim sem hefðu unnið ef þú hefðir ekki svindlað.  Já og ef þú svindlar eða verður vitni að svindli þá mátt þú alls ekki nota orðið svindl því það getur látið fólki líða illa, mundu það.'  

Ég verð bara óörugg og ómöguleg þegar það eru ekki skýrar reglur.  Mér finnst að fólki sem svindlar eigi að líða illa og laga svo til eftir sig.  Þess vegna höfum við samvisku og samviskubit.  Nú og sé einhver sakaður um svindl sem alls ekki hefur svindlað (og já ég hef líka reynslu að því :), þá ætti það ekki að skipta máli, það er eins og að skvetta vatni á gæs.  Heilindi eru nefnilega eins og ósýnileg ofur brynja.  Ekkert bítur á manni.  Ég hef líka óvart svindlað og þurft að biðjast afsökunar á því, þegar mér var bent á mistökin.  

Fyrirtækið sem um ræðir er ekki lengur til.  Glitnir hrundi eins og spilaborg.  Ég held að allir geti verið sammála um að skortur á heilindum hafi þar átt stærstan hluta að máli.  

Engin ummæli:

Skrifa ummæli