Að blogga eða ekki blogga, það er spurningin.
Ég hef tekið eftir ákveðnu blogg-munstri hjá mér. Svo lengi sem mér líður vel og lífið er í föstum skorðum þá hef ég löngun til að skrifa. Þegar það er of mikið áreiti og breytingar í gangi þá er það bara kvöð. Nú er staðan þannig að ég bý þar sem ég vil búa, með þeim sem ég vil búa, er ánægð í vinnunni, með frábæra þjálfara og topp æfingafélaga.
Fjölskyldulífið er ljúft. Litla barnið okkar er orðið að krakka og þarf ekki eins mikla umönnun. Hætt á bleyju, farin að spjalla um allt mögulegt, telur upp á tíu... á ensku líka og svo getur hún náttúrulega ALLT sjálf. Þessi stelpa er svo mikill gleðigjafi að það er engu lagi líkt, hún laðar fram það besta í okkur öllum.
Miðjan hörkudugleg, flott og góð stelpa og ungi maðurinn á heimilinu er komin yfir erfiðasta hjalla unglingsáranna, fjúff...
Það kemur bara í ljós hvort áhuginn endist, en þegar ég var að skoða gamlar bloggfærslur síðustu daga þá rifjaðist margt skemmtilegt upp og mig langar til að blaðra aðeins hérna, aðallega um hlaupin en líka fólkið mitt og ef mér liggur eitthvað sérstakt á hjarta. Kannski hætti ég þá að tala eins mikið! (Nei sennilega ekki...).
Síðustu níu mánuður eða ca. frá því ég fótbrotnaði síðasta sumar hafa verið mjög viðburðaríkir. Ég man þegar ég fékk að vita upp á slysó að ég væri brotin, þá vonaðist ég til að geta farið að hlaupa eitthvað af viti og keppa aftur núna í sumar. Reiknaði með að þetta tæki árið, miðað við reynslu annarra. Ég þurfti ekki að bíða svo lengi, 6 vikum síðar hljóp ég 10 km í RM á undir 50 mínútum. Powerade serían byrjaði nákvæmlega 3 mánuðum eftir brot og á dauða mínum átti ég von en að jafna minn besta árangur í seríunni, annað sæti over-all og sigur í Parakeppninni með bónda mínum.
Í febrúar var ég komin í topp form og farin að æfa fyrir Milanó maraþon sem við hjónin höfðum skráð okkur í töluvert áður en ég brotnaði. Ég datt á rassinn í hálkunni þrem vikum síðar og tognaði aðeins á hné og mátti ekkert æfa af viti í 3 vikur. Ekki fyrr búin að jafna mig á því þegar ég varð lasin og með því að keyra mig áfram í stað þess að henda mér í bólið eins og gamalli konu sæmir, þá endaði það með ósköpum og lungnabólgu. Milanó var afskrifað, en Þórólfur hélt sínu striki með maraþonþjálfunina á meðan ég einbeitti mér að ná heilsu.
Hjólaði seinni hlutann af Vorþoninu með Þórólfi, mynd frá Summa.
FH hlaupið 5 km, í mars var fyrsta keppnishlaupið eftir vetrar veikindin. Hljóp það svona til að taka stöðuna, í miðri æfingaviku og það gekk bara ágætlega, tíminn 20:12. Næsta hlaup var Flóahlaupið 10 km. Það gekk ekki eins vel, það var kaldara úti og ég of lítið klædd. Ég fann fyrir í lungunum, erfitt að anda og var stíf og ómöguleg af kulda. Tíminn 42:02 minnir mig.
Nú finnst mér ég aftur vera komin á mjög gott ról og æfingarnar ganga vel. Við erum þrjú sem höldum hópinn og vinnum vel saman undir stjórn Gunna Palla hjá ÍR og svo fáum við líka að hanga með afrekshlaupurunum. Svo er það nú bara þannig að í vinnunni hjá mér er frábær hlaupahópur. Hér er ekkert verið að lufsast 5 í hádeginu, aldeilis ekki. Við erum með tvo þjálfara sem plana fyrir okkur fjölbreyttar æfingar og stýra hópnum eins og herforingjar.
Ég fór fyrstu ferðina upp á Esju á föstudaginn (ca 35:30 upp að Steini), fór upp og niður vinstra megin og það er fínt færi fyrir utan drulluna á mýrunum. Ég notaði öll trixin í bókinni til að lágmarka Esju-harðsperrurnar, notaði stafi, var í compression buxum og sokkum, drakk vel áður en ég fór upp, skokkaði niður en missti mig ekki í hlaup, borðaði banana og drakk kókómjólk um leið og ég kom niður og stoppaði í Mosó sundlauginni á leiðinni heim. Fór aftur á sunnudaginn (ca. 34:30 upp að Steini), sama aðferð og ég hef aldrei áður komist svona vel í gegnum þetta. 3 dagar í staðinn fyrir að vera ónýt í viku!
Esja #2
Næsta keppnishlaup er einmitt með vinnufélögunum, en við erum að fara saman í Þórsmörk og ætlum að taka þá í Volcano Trail Run á laugardaginn. Þetta verður eitthvað!