22. des. 2014

Á erminni

Búin með hliðarnar og byrjuð á ermi.  Nú fer þetta að vera spennandi og komin mynd á þetta hjá mér.  Næ örugglega ekki að klára fyrir jól en hugsanlega í jólafríinu, það væri fínt.

Vika 6

Æfingar ganga eins og í sögu.  Er svo heppin að vera með æfingafélaga sem ýtir mér út fyrir þægindarammann og ég er að taka hraðari spretti en nokkru sinni fyrr.  Nýt þess að vera í toppstandi, þá er allt skemmtilegra.

Annars snýst mest um krakkana og jólin núna.  Við höfum aldrei áður verið tímanlega í undirbúningi og í minningunni erum við alltaf grútsyfjuð að klára að skreyta, pakka og græja seint á Þorláksmessu. 

Ekki í ár skal ég segja ykkur!  Jólatréð var komið upp um síðustu helgi, pakkarnir komnir undir með merkimiðum, maturinn stendur klár í ísskápnum og búin að plana jólaboðin.  

Nú dúllum okkur við að baka, leika okkur og njóta aðventunnar eins og manni dreymir um, mmmm.... mæli með'essu.

12. des. 2014

Powerade #3 2014

Úff ekki var nú hátt á okkur hjónum risið þegar líða tók á fimmtudaginn.  Kalt og vindur, brrr...  Við tókum ekki þátt í fyrstu tveimur hlaupunum og þar af leiðandi ekki í baráttu um toppsæti sem var ekki að hjálpa til.  En pössunarpían mætti á slaginu og engin afsökun til að losna... og jú, auðvitað vissum við innst inni að þetta er alltaf hrikalega gaman þegar maður er komin á staðinn og hleypur af stað.

Vorum heilmikið að vangaveltast með fatnað.  Fór af stað í ullarbol, vindheldri peysu og jakka og í upphitun vorum við alveg á mörkunum að halda á okkur hita.  Eftir upphitun og smá slökun inn í laug fann ég nú samt að jakki væri of mikið en ákvað í staðinn að fara með hlýja húfu, buff og lúffur, verja haus og hendur.

Myndir frá Pétri Helgasyni á Powerade síðunni.
Fyrir hlaup, alveg að sofna...

Fiðrildi í maganum á startlínunni og ég var strax í upphafi 2. kona á eftir Arndísi og sá ekki í fljótu bragði að einhver gæti ógnað mér.  Við fengum vindinn í bakið fyrstu kílómetrana og gaddaskórnir svínvirkuðu í þessu færi.  Rúllaði vel fyrstu km í hóp en eftir brú og upp brekkuna var orðin ein og var að velta fyrir mér hvort ég ætti aðeins að slaka eða reyna að blasta niður að næsta hóp.  Í því kom félagi minn fram úr mér og ég negldi mig á hælana á honum.

Næstu 5-6 km voru bara snilld fyrir mig!  Ég kúrði mig í skjólinu og þurfti ekkert að hugsa, með frábæran pace-er.  Þessi félagi minn var að hlaupa aðeins hraðar en ég í Valshlaupinu en það munaði því að ég var á negldum skóm en hann ekki.  Miklu erfiðara að pjakka þetta á ónelgdu og um leið og við vorum komin yfir stífluna skildi á milli okkar, ég með þetta fína grip gat spænt upp brekkuna.  

Þegar 4-500 metrar voru eftir þá heyrði ég í einhverjum fyrir aftan mig, spýtti þá í og tók góðan sprett í mark 3:24 pace síðustu 400 m.   Tíminn ca. 44:20, ég hélt mínu og var 2. kona í mark og þetta er eitt skemmtilegasta Powerade sem ég hef tekið þátt í.

Runners high eftir hlaup :)

Þórólfur var að keppa í fyrsta sinn eftir liðþófaaðgerðina og honum gekk hrikalega vel, fór undir 40, var í topp tíu og kom brosandi hringinn í mark.

Svona hljóp ég þetta:





Splits  Time

1 4:14

2 4:12

3 4:34

4 4:15

5 4:09

6 4:05

7 4:18

8 4:30

9 5:03

10 4:34

11 :24





3. des. 2014

Valshlaupið 2014 - Bakið búið en ekki búin í bakinu.

Það er ekki hægt að segja að keppnishungrið sé mikið þessa stundina.  Ég er búin að vera stíf og stirð svo lengi, hef ekki tekið tempóæfingar síðan ég veit ekki hvenær og eiginlega bara hlaupið rólega fyrir utan stuttu sprettina inní Höll.  Ég ákvað að taka stöðuna að morgni keppnisdags og sjá hvernig veðrið og líðanin væru og ef ég myndi detta í stuð, þá slá til og vera með. 

Mætti klukkutíma fyrir hlaup og náði góðri upphitun.  Þrátt fyrir að vera orðin algjörlega verkjalaus í bakinu eftir síðustu trakteringar þá átti ég ennþá eftir að ná alveg úr mér stífleikanum en það er fljótt að koma þegar maður getur hreyft sig án þess að finna til.  

Frábært veður, eiginlega bara ótrúlega góðar aðstæður á þessum tíma árs og brautin er frekar flöt og þægileg ef ekki er mikill vindur.  Markmiðið var að fara undir 42 mínútur en konur sem hlaupa undir 42 og karlar sem hlaupa undir 40 fengu þúsara endurgreiddan í markinu.  Ég var með í Valshlaupinu 2012 og hljóp þá á 42:47 og í fyrra hljóp ég á 42:20 þannig að sub 42 þýddi bæting í brautinni.

Fullt af góðum félögum á startlínunni og bara gaman.  Ég var strax í upphafi fjórða kona og sá vel í tvö og þrjú en þær voru í öðrum gír en gamla og ég rúllaði þetta mjög jafnt og þægilega.
Rétt fyrir snúning á Ægissíðunni.
(Nappaði myndunum af Valssíðunni)

Á tímabili fannst mér ég vera að vinna á þær og þær skiptu um sæti sín á milli en eftir 7-8 km sá ég að ég myndi ekki ná í skottið á þeim.  9. km var slakastur hjá mér en ég verð að viðurkenna að þegar ég sá eftir pallinum þá varð ég bara pínu löt...   Ég hafði verði í samfloti við annan hlaupara langleiðina og við skiptumst á að leiða en þegar hér var komið við sögu, þá hélt hann sínu striki á meðan ég fór að lufsast.  Þegar hann var komin með smá forskot þá hristi ég slenið af mér og spýtti aftur í lófana og kláraði sómasamlega.  Hefði nú ekki verið töff að lufsast yfir 42!  
Pústað í markinu.
(Gummi meiri dóninn að smeygja sér fram fyrir mig á síðustu metrunum!  :)

Lokatíminn 41:32 og ég bara sátt, leið mjög vel eftir hlaupið og hlakka til að takast á við næstu áskorun.  Hérna eru úrslitin og svona hljóp ég þetta:





Splits  Time

1 4:01

2 4:03

3 4:06

4 4:09

5 4:12

6 4:06

7 4:06

8 4:09

9 4:23

10 4:06

11 00:06




Á sunnudaginn fórum við í Laugar SPA með vinahjónum og eftir þriggja tíma dekur og lúxus...  varð ég fárveik!  Þvílíkt svndl.  Í keng með magaverk og svo rauk ég upp í 39 stiga hita um kvöldið.  Lilja tók við mér í veikindunum og kastaði upp í hálfan sólarhring, litla skinnið mátti nú ekki alveg við því en hún er líka orðin hress aftur.  En merkilegur andsk... eftir hitann og þegar ég jafnaði mig aftur þá var ég alveg laus við stífleikann í bakinu og nú er ég bara alveg eins og ég á að vera, sem sagt komin í toppstand, yeehaawww...

Ekki má gleyma prjóna statusnum, nú eru komin kaflaskil.   Búin með bakið!

Vika 4.

27. nóv. 2014

Vandræðalegt...

Annar tími hjá Postura og í þetta sinn bjó ég mig undir alvöru pyntingar.  En allt kom fyrir ekki, þrátt fyrir að það væri ansi mikið þjösnast á mér þá gat ég vel umborið þetta.  Rótin að verknum neðst í mjóbakinu var í mjöðminni á mér og eftir pot og nudd, þá endaði tíminn á því að mér var hnykkt út og suður.  Fyrst hálsinn, braaakkkk... svo vinsti hliðin, meira brak og að lokum hægri hlið.   Í lokahnykknum gerðist eitthvað furðulegt og ég fékk ósvöðvandi hláturskast!  Ég emjaði úr hlátri, hristist og fékk tár í augun og gat engan veginn hætt að hlægja.  Maðurinn horfði á mig í forundran og sagði síðan eftir nokkra stund 'Ég fer bara fram á meðan þú jafnar þig...'.

Í nokkrar mínútur í viðbót hristist ég úr hlátri á bekknum en náði svo hemja mig að lokum.  'Þú mátt bara fara núna.'  Hláturinn bubblaði ennþá í mér og þegar ég borgaði fyrir tímann (hjá öðrum manni) og ég handviss um að hann hafi flissað pínu þegar hann leit upp.  Svo hló ég alla leiðina í vinnuna og var hálf flissandi allan daginn.  Sem betur fer er verkurinn farinn og ég þarf ekki að fara aftur.



Ég er búin að ræða þetta við heilmarga en engin kannaðist við þessar lýsingar og ég var farin að hallast að því að ég væri 'klín kókos'...  En hver kemur þá til bjargar nema Google!  Þetta fyrirbæri er al-þekkt og ég er alls ekki sú eina í heiminum sem hef upplifað þetta!  Sjáið bara þetta!  Og þessar upplýsingar fann ég á FAQ síðum um allt sem viðkemur hnykkingum (Chiropractic)...

Is it true that some patients experience emotional changes while under chiropractic care?

Yes. Almost every patient experiences some emotional change. It can range from uncontrollable laughter, gentle crying, singing and outbursts of joy to the more typical sense of optimism and lightness. Subluxations are caused by emotional, physical and chemical stress to the nervous system and body. My understanding is that once an emotionally-caused subluxation is removed, the body is released from the pathological effect of this emotion, leading to a cathartic release.

Og hér er kafli sem ég fann annars staðar:

Where chiropractic adjustments usually are associated with swift movements and the sound of bones cracking, the Network practitioner uses mostly the light touch of a finger to create the desired effects. Patients under treatment experience not only physical changes, but also emotional release such as uncontrollable laughter or crying, easier breathing, and deep relaxation.
Hjúkkit.

23. nóv. 2014

Gerir mistök... og lagar til eftir sig.

Mér líður best á hlaupabrautinni þessa dagana, það er bara þannig.  Er ekki orðin alveg góð í bakinu en þegar ég hleyp finn ég ekki fyrir neinu nema vellíðan og því hraðari æfing, meiri hiti, því betra. Eftir sprettæfingarnar er ég súper-góð í sólarhring.  Engu að síður leiðist mér þófið og er afspyrnu léleg í að vera ekki 100% og þá grípur maður til allra ráða og einmitt þess vegna pantaði ég tíma hjá náunga sem ég hef heyrt mikið um en aldrei farið til og ekki að ástæðulausu... hann er kallaður Jói pyntari.

Fór á þriðjudaginn í Postura þar sem Jói tók á móti mér.  Ég þurfti nú ekki mikið að segja hvað væri að hrjá mig, hann horfði á mig og sagði mér svo frá öllu sem var í ólagi.  Hann leiðrétti líkamsstöðuna, gaf mér góð ráð, benti svo á staðina þar sem ég fann til og sagði að vinstri löppin á mér væri úr synci.  Því næst fór ég á bekkinn, þar sem hann og félagi hans héldu mér, tosuðu, kipptu og hnykktu mér sundur og saman.  Það brakaði í mér frá tám og upp í hvirfil en eftir að hafa verið með þetta tak í bakinu í nokkrar vikur þá er ég búin að stífa líkamann svo gjörsamlega af að ég var eins og spítukarl.  Ég upplifði engar pyntingar í þetta sinn en missti andann nokkrum sinnum í hnykkjunum en það var ekkert mál.

Þegar þeir voru búinir stóð ég upp og fann strax að ég var allt önnur en ennþá með smá verk neðst í mjóbakinu.  'Hvenær fer verkurinn?'.  'Eftir þrjá daga.'   Ég tók síðustu verkjatöfluna tveim dögum síðar og er búin að vera góð í nokkra daga.  Ég fór ekkert að hlaupa í gær vegna anna og í gærkvöldi fannst mér ég aðeins verri aftur.  Betri eftir hlaup í dag en ég á annan tíma í Postura á þriðjudaginn og spurning hvort það klári málið.  

Þetta var erfið vika peysulega séð.  Ekki það, ég prjónaði eins og vindurinn en þegar ég var að bíða eftir henni Lilju minni á sundæfingu kíkti ég í gamni á uppskriftarsíðuna og á myndir frá öðrum sem eru að prjóna sömu peysu.  Og þá rak ég augun í að hliðarnar á bakinu hjá mér voru ekki eins og hjá þeim!!!

Kom heim og kannaði málið betur og jú, var búin að gera bölvaða vitleysu.  Ekki það, ég las uppskriftina aftur og mér fannst þetta ekki mjög skýrt en alla vega í staðinn fyrir að það væru tvær slétta og tvær brugðnar eins og í stroffinu sitt hvoru megin við aðal mynstrið þá átti að vera tvöfalt perluprjón.  Hugsaði aðeins málið hvort ég ætti bara að breyta restinni af peysunni til að sleppa við að laga en komst að því að ég yrði aldrei ánægð með það.  Þannig að ég notaði tvö kvöld í að rekja upp eina lykkju í einu alla leið að stroffi og hekla hana svo upp á réttan máta aftur...   20 lykkjur alls.  Og tatahhh..., hrikalega fínt núna og ég komin vel upp yfir ermaúrtöku.  

Hérna er ég búin að laga hægra megin.

Hérna er þetta svo komið og byrjuð á úrtöku fyrir ermar.

16. nóv. 2014

Heldur sér við efnið

Leiðinda vika heilsufarslega séð.  Fylltist af kvefi og ógeði á sunnudagskvöldið síðasta og er ekki ennþá búin að jafna mig alveg þó ég sé betri í dag en í gær.  Finn ennþá fyrir stífleika í bakinu og líður pínulítið eins og konu á fimmtugsaldri svei mér þá, mjög framandi tilfinning.  Og í dag tók svo betri helmingurinn upp á því að næla sér í svæsna magapest, grey kallinn veit ekki hvort hann er að koma eða fara.  Krossa putta, tær og allt annað sem mér dettur í hug og forðast hann eins og pestina...!

Hápunktur vikunnar var nú samt í gær, ég orðin þokkalega spræk og bóndinn ekki orðin veikur, en þá fögnuðum við 11 ára brúðkaupsafmæli.  Við héldum uppá áfangann með rómantískri bæjarferð, köku og kaffi latte á Garðinum.

Áskirkja 15. nóvember 2003

Garðurinn 15. nóvember 2014

Þegar maður er ekki til stórræðna í hlaupum og öðrum líkamlegum átökum þá er nú aldeilis gott að nýta tímann í prjónaskapinn og ég er hæst ánægð með afrakstur vikunnar.  Ta..tahhh...  eins og dóttir mín hin yngri myndi segja:

Vika 2

Og nóttin er ung, næ örugglega nokkrum umferðum í viðbót, allir aðrir á heimilinu í bólinu :)

10. nóv. 2014

Finnur sér verðugt verkefni

Nú þegar aðal hlaupa-keppnistímabilinu er lokið og það eina fram undan eru stöku 10 km hlaup, þá er allt í einu fullt af tíma og ég er ekki eins þreytt á kvöldin eftir langar æfingar.  Ég er reyndar að æfa mjög vel, hleyp 5-6 sinnum í viku en ekki eins mikið magn og ég hef verið að gera undanfarna mánuði.  Reikna með að auka í aftur eftir áramótin.  Sprettæfingarnar á mánudögum og miðvikudögum með stelpunum hjá GPJ erum alveg frábærar, nú erum við 6 sem æfum saman og höldum hvor annarri við efnið.

Dró fram prjónana aftur eftir langt hlé og fleira kom til en minni æfingar.  Sonja orðin svo stór að hún er hætt að flækjast í garninu mínu og fátt eins kósý og sitja með prjónana á kvöldin þegar vetrar.  Ég byrjaði á prjóna mér svarta peysu, var búin að eiga garnið í nokkur ár...   Það er orðið ansi langt síðan ég hef prjónað eitthvað eftir uppskrift og ég notaði bara aðarar peysur sem ég á til viðmiðunar enda ekki flókin hönnun hér á ferð.  


Þegar peysan var klár prjónaði ég bindi handa Þórólfi.  Var búin að sjá myndir af flottum bindum á netinu, átti skemmtilegt garn og mixaði nokkrum hugmyndum í eitt bindi.  Bóndinn alsæll með útkomuna.  


Það er voða mikið um kaðlapeysur núna, mér finnst þær fallegar og var með augun opin fyrir flottri uppskrift.  Ég prjónaði síðast kaðlapeysu á hann Gabríel fyrir 12 árum eða svo, en það er eins og með flest, það virkar miklu flóknara en það er og ég er alveg óhrædd við að taka slaginn.   Fann svo flotta uppskrift um daginn og það má segja að hún sé fyrir allan peninginn!  


Keypti garn í RL og byrjaði að prjóna í vikunni.  Þetta verður 'langhlaup' ef það má orða það þannig og til að halda mér við efnið mun ég pósta framvinduskýrslu vikulega þar til verkinu er lokið.  Ekki alveg tilbúin að setja mér markmið ennþá, þarf að fá alla vega tvær vikur til að sjá meðal framleiðni til að geta reiknað út verklok... En fyrir jól hljómar sérstaklega vel!  Sé þetta alveg fyrir mér... í náttbuxum og peysunni, drekkandi heitt kakó úr blóma-bolla frá tengdó (fann ekkert ittala dót til að troða inná myndina :).

Vika 1 - Bak hluti

28. okt. 2014

Haustþonið 2014 - Hálfmaraþon

Ég gat ekki verið með í Haustþoninu í fyrra vegna þess að viku fyrir hlaup var ég að rölta með hana Sonju út á leikskóla, hún rann til í hálku og við að tempra fallið hjá henni fékk ég þursabit.  Skakklappaðist með hana á leikskólann og gat svo ekki klætt mig í sokka næstu vikurnar...

Í ár var allt í góðu, skráði mig og sótti gögnin á föstudaginn.  Þegar ég er að taka saman eftir kvöldmatinn og henda einhverju í ruslið þá 'spojng...', sá stjörnur og þurfti að styðja mig við til að rétta úr mér.  Ekki fundið fyrir bakinu í heilt ár... þetta var klárlega ekki eins slæmt og í fyrra en ég fann hvernig ég stífnaði upp hægra megin við hryggsúluna, helvítis, fokking, fokk.

Ohh well, ætlaði svo sem bara að fara mér til skemmtunar.  Ég tók eina íbúfen og bóndinn bar krem á bakið og ég hugsaði sem svo að ég myndi taka stöðuna morguninn eftir.  Ég var stíf og stirð í morgunsárið en gerði allt eins og venjulega og hjólaði af stað að rásmarkinu, annað hvort til að skila inn flögu og númeri eða ef ég gæti hlaupið upphitunina án þess að finna fyrir, þá myndi ég rúlla af stað og sjá hvað gerðist. 

Skokkaði í átt að Rafstöðvarbrekkunni og fann ekkert fyrir bakinu.  Þegar ég kom til baka að rásmarki var ég bara aðeins betri ef eitthvað var.  Þá var bara málið að festa á sig flögu og númer og rúlla af stað.  Veðrið frábært og allir vinir mínir úti að leika!

Ég var komin af stað þegar ég áttaði mig á því að ég hafði ekki stillt Garmin á að lappa á km, skítt með það, dró ermina yfir úrið og leit ekki á það aftur fyrr en eftir hlaupið.

Ég hljóp þetta létt, engin átök og skemmti mér konunglega alla leiðina.  Ótrúlega margir að hvetja, Þórólfur út um allt, gaman að sjá hann á hliðarlínunni og reyna að spá fyrir um hvar hann væri næst.  Ég var fljótlega 3. kona á eftir Arndísi og Önnu Berglindi og sá á snúningi á Ægissíðu að ég gæti bara haft það huggulegt á bakaleiðinni og haldið sama dampi, ég hafði gott forskot á næstu konur.  

Ljósmyndari: Rúdolf Adolfsson

Á bakaleiðinni fengum við smá mótvind en ekkert til að væla yfir.  Svo er líka hrikalega gaman að pikka upp marathonhlauparana, alltaf að taka fram úr einhverjum.  Hálf maraþonið er í miklu uppáhaldi hjá mér, ekki alveg eins hratt og 10 km og maður þarf ekki að borga fyrir eins og eftir maraþon.

Tilfinningin í kroppnum var eins og ég væri að hlaupa þetta á ca. 1:35 þannig að ég var meira en lítið hissa þegar ég kom á stokkinn og sá klukkuna 1:31:...   Blastaði síðasta spottann og kom í mark á 1:32:16, ja hérna hér.  Ég sé á tímatökunni að ég var 45:34 með fyrri hlutann og 46:45 með þann seinni.

Nappaði þessari mynd frá henni Arndísi á Instagram.  
Þrjár fyrstu konur, Arndís Ýr, Anna Berglind og Eva.

Ég var miklu betri í bakinu eftir hlaupið og það vottar ekki fyrir harðsperrum eða stífleika í mjöðmum eins og eftir Munchen.  Framundan er skemmtilegur tími og æfingar í Höllinni með snilldar skvísum.  Svo á maður örugglega eftir að kíkja á Víðavangshlaup Newton Running og Framfara og svo að sjálfsögðu Powerade.  Já og hver veit nema maður bregði sér af bæ, í Borgarnesið og heilsi upp á Flandrara! 

Annars bara róleg.

24. okt. 2014

Besti dagur í heimi!

Þann 24. október 2010, klukkan 15:00, átti ég pantaðan tíma hjá kvensjúkdómalækni í hormónalykkju uppsteningu.

Eftir fjórða fósturmissinn okkar síðsumars 2010, tókum við hjónin þá ákvörðun að hætta að reyna að eignast fleiri börn.  Við gerðum okkur grein fyrir að við værum ótrúlega rík að eiga Gabríel og Lilju. Við hvern missi, skildum við það betur og vorum þakklátari fyrir börnin sem við þó áttum.  

Ákvörðunin var sameiginleg þó svo að ég hafi kannski átt frumkvæðið, ég gat bara ekki meir.  Upplifunin að komast að því að ég væri ólétt var ekki lengur eintóm gleði, heldur hafði í för með sér sjúklega hræðslu um að illa færi.  Við tóku dagar og vikur þar sem ég var endalaust að reyna að sannfæra sjálfa mig um að allt væri í lagi.  Alltaf að gá hvort mér væri farið að blæða.  Hætta að æfa eins og venjulega, finna til afsakanir fyrir hina hvers vegna.  Vera með samviskubit yfir því að geta ekki glaðst innilega.  Vera hrædd um að hræðslan myndi hafa neikvæð áhrif, arghhh....  Þetta var jafn erfitt fyrir okkur bæði.

Þann 24. október 2010, klukkan 13:00, hringdi læknirinn minn í mig.  'Sæl, ég var að komast að því að konurnar sem vinna hérna í móttökunni munu leggja niður störf kl. 14:25 í dag í tilefni þess að 35 ár eru frá Kvennafrídeginum'. (Sjá nánar!)  'Geturðu komið í næsta mánuði?'  

'Ekkert mál, einn mánuður til eða frá skiptir ekki máli.'

Ekki grunaði mig á þeirri stundu að ég gæti ekki haft meira rangt fyrir mér.  

Mánuði seinna pissaði ég á prik til vonar og vara.  

24. október 2010 er sennilega bara besti dagur í heimi.




23. okt. 2014

Yfirgangur, frekja og veruleikafirring

Skokkaði í gegnum Laugardalinn í gær á leiðinni á æfingu í Höllinni.  Vel dúðuð, með bakpoka og tónlist í eyrunum, bara notalegt.  Þegar ég nálgast tjaldstæðið sé ég framundan mér manneskju og lausan hund hlaupandi kruss og þvers yfir stíginn, snusandi af trjánum hér og þar.  Það er bannað að vera með lausa hunda í Laugardalnum og oftar en einu sinni hafa lausir hundar flaðrað upp um mig og tala nú ekki um, þegar ég var krakki og var bitinn í andlitið af hundi 'sem bítur ekki' eins og allir hundar áður en þeir bíta í fyrsta sinn.  Sem betur fer hjuggust tennurnar í augabrúnina á mér og kinnbeinið, augað slapp.

Þar sem ég skokka fram úr manneskjunni og sé að hún er með upprúllaðan taum í hendi, bendi ég henni, n.b. ofurljúflega og með spariröddinni, á að það sé bannað að vera með lausa hunda hérna.

Þá lítur þessi kona á mig og segir 'Hann er ekkert laus!'.  Já svei mér þá ef það var ekki með nákvæmlega þessum svip.


Mér varð svo mikið um að ég stoppaði í sporunum og leit á hana með tauminn í hendinni og svo hundinn sem hljóp út um allt og hef örugglega verið eins og spurningarmerki í framan.

'Ehh, jú hann er laus.  Hann er þarna og þú ert hérna með tauminn.'

'HANN ER EKKI LAUS!'

'Ehhh... jú hann er laus.' og bendi á hundinn sem í því hleypur yfir stiginn og nánast yfir tærnar á mér og út í runna hinu megin.

'Hva, ég var nú bara aðeins að leyfa honum að hreyfa sig.'

'Já ég skil það, en það er bannað hérna og minn réttur er bara ríkari til að fá að vera í friði fyrir lausum hundum hér en þinn réttur til að hleypa honum lausum.  Það er bannað samkvæmt lögum.'

'ÞÚ SKALT BARA HÆTTA AÐ VERA AÐ ÁREITA FÓLK!' 

Ég hefði gjarnan vilja sjá framan í mig á þessari stundu, díhhh ég hélt að fólk gæti ekki komið mér lengur á óvart.  Ég varð orðlaus í smá stund og svo segi ég:

'Fröken Fix, vilt þú ekki bara líta í eigin barm?´ og skokkaði aftur af stað.  Í alvöru, ég sagði Fröken Fix!!!     

Er búin að flissa þvílíkt yfir þessu og gat ekki beðið eftir að leika atriðið fyrir Þórólf sem pissaði næstum í sig af hlátri.  En í alvöru talað, þá verð ég að taka mig á og hætta að áreita fólk svona út í bláinn, þetta gengur ekki lengur.  

17. okt. 2014

Munchen Halbmarathon 2014

Undirbúningurinn fyrir hlaupið gekk eins og í sögu fyrir utan að 10 dögum fyrir hlaup varð ég aðeins lasin, sár í hálsinum, með þurran hósta og full af kvefi.  Ég var alveg pollróleg yfir þessu, náði mér á nokkrum dögum og búin að leggja í hlaupa-bankann.  Á mánudeginum fyrir hlaup heyrði ég eitthvað ókennilegt hljóð í öndunarveginum, brak og hrygl... andsk..  Fékk tíma hjá lækni og það fór ekki á milli mála, ég var komin með bronkítis.  Ég fékk púst og vonaði það besta.  Leið strax miklu betur eftir 3-4 daga og það var alveg hætt að hrygla í mér áður en ég fór út.  

Við fórum á eigin vegum út og gistum hjá systur minni og fjölskyldu í Munchen.  Það var tekið á móti okkur eins og kóngafólki og dekrað við okkur í bak og fyrir.  Við notuðum dagana fram að hlaupi til að skoða borgina og njóta veðurblíðunnar, alveg dásamlegt að fá smá 'Indian summer' til að stytta veturinn.  Það var 27 stiga hiti daginn sem við komum en spár gerðu ráð fyrir aðeins lægra hitastigi næstu daga.  Það má segja að á laugardeginum hafi verið fullkomið hlaupaveður, 18 gráður, logn og skýjað.

Á sunnudagsmorgun vöknuðum við snemma og fórum að hvetja maraþonhlauparana sem byrjuðu að hlaupa kl. 10.  Við náðum þeim á milli km 18 og 19 rétt hjá okkur.  Hrikalega gaman að fylgjast með fystu mönnum hlaupa framhjá og svo smám saman einum og einum hlaupafélaga, vííí...

Fyrsti maður og næstu menn nokkru síðar.
 Það var heilmikið af hjólurum í brautinni en þeir voru allir kirfilega merktir starfsmenn hlaupsins.

Á hádegi var orðið ansi heitt og sólin braust fram úr skýjunum.  Við vorum komin í startið á hálf maraþoninu tímanlega en það var líka rétt hjá okkur.  Þórólfur og Ásta systir skildu við mig tæplega klukkutíma fyrir hlaup og eftir allar kúnstarinnar reglur í undirbúningi, hoppaði ég yfir grindurnar og kom mér fyrir í start block A, hálftíma fyrir start.  Nú var orðið verulega heitt og alveg heiðskýrt, klukkan að verða tvö.  Fiðrildi í maganum af spenningi en líka áhyggjur af skrælnuðum munni...  Hvar var aftur fyrsta drykkjarstöð?

Tilbúin í blíðunni.

Æðislegt að komast af stað niður breiðgötu á milli trjáganga, yehaww... og ég fylgdist bæði með pace-i á Garmin og km merkingum.  Fyrstu 5 km voru meira og minna skv. plani en tilfinningin í kroppnum var að þetta væri erfiðara en það ætti að vera.  Hmmm...   

Fjölskyldan mín stóð vaktina og hvatti gömlu konuna eftir rúma 7 km.

Næstu 5 km var ég að halda nokkurn veginn hraða en á þessum kafla gerði ég mér grein fyrir að ég myndi ekki ná tímamarkmiðunum.  Ég var að ströggla allt of mikið og á drykkjarstöð í kringum 10 km stoppaði ég, drakk almennilega, hellti yfir mig tveim glösum af vatni og byrjaði upp á nýtt.  Nú rúllaði ég þægilega af stað og fór að horfa í kringum mig og njóta dagsins.  Hér og þar í brautinni voru krakkar að hvetja og ég gaf þeim high-five, klappaði fyrir bestu hvetjurunum og ég fann brosið mitt aftur.  

Þegar 5 km voru eftir fór ég að draga á ansi marga hlaupara aftur og fara fram úr þeim sem höfðu keyrt sig út.  Síðustu 3 km var aftur komið smá kapp í kellu, ég jók aðeins hraðann og pikkaði upp hvern hlauparann á fætur öðrum.  Ótrúlega gaman að koma inn á Ólympíuleikvanginn, drúndrandi músík og diskóljós í göngunum áður en maður kemur inn á brautina og svo tæpur hringur á brautinni.  Ég heyrði nafnið mitt gargað úr stúkunni og sá í fjarska fólkið mitt hvetja mig.  Þvílík vítamínsprauta, hljóp síðustu 400 m á 3:32 pace og tók fram úr tveimur konum þar.  

Rétt áður en maður kemur inn á Ólympíuleikvanginn. 
Úbbs, má víst alls ekki nota þessa mynd!
Bara kát :þ

Tíminn minn 1:32:04 var vissulega ekki það sem ég hafði ætlað mér en þannig er þetta bara og maður er löngu búin að læra að það er leiðin sem skiptir mestu máli, ekki endamarkið.  Langflestir (allir nema einn sem ég ræddi við í þessum stóra hóp) voru ekki að toppa þennan dag, aðstæður hreinlega buðu ekki upp á það.  Af tæplega 2600 konum var ég 21. kona í mark og 5. í mínum aldursflokki en í honum voru skráðar rétt tæplega 900 konur.  Frábær reynsla fyrir mig að taka þátt í stóru hlaupi aftur en ég hef ekki gert það síðan 2008, það mun koma að góðum notum í framtíðinni.

Eftir að hafa drukkið vel og nært mig á marksvæðinu, fann ég fjölskylduna mína fyrir utan leikvanginn, yndislegt.  Þá kom í ljós að þau höfðu lent í veseni með samgöngur og voru alls ekki inn á leikvanginum þegar ég kom hlaupandi inn!!!  Lýsi hér með eftir hóp af fólki á áhorfendapöllunum rétt eftir að hlaupararnir komu inn á leikvanginn, sem hvöttu mig í mark.  Takk fyrir hver sem þið eruð :)
Þessi er bestur.

Garmin mældi brautina 21,380 km og svona voru splittin mín.  Ég hljóp fystu 10 km á 41:39 sem er nákvæmlega 4:10 pace.  Fyrri helminginn (10,69 km) hljóp ég á 44:09 en seinni helminginn á 47:55, tæplega fjórum mínútum hægar.     





29. sep. 2014

Hjartadagshlaupið 2014

Ég flýtti löngu laugardagsæfingunni um einn dag til að fá hvíldardag fyrir Hjartadagshlaupið.  Æfingin var ein af þeim strembnustu í prógramminu fyrir mig, mér finnst alltaf erfiðast að hugsa um langar, hraðar æfingar...  90 mínútur á E-pace (4:40-5:00 pace) með 20 mínútna kafla á HMP (4:10). Ég hljóp þetta ein seinnipartinn á föstudaginn og var nú ekki allt of bjartsýn áður en ég fór af stað en kroppurinn er greinilega komin í gott stand, skilar því sem ég bið um.  Tók 30 sek. labb-pásu eftir hraðakaflann.

Split
Time
Distance
Avg Pace
Summary1:31:27.619,414:43
132:23.26,524:58
220:00.04,814:10
3:30.00,077:33
438:34.48,014:49

Kom mér ánægjulega á óvart að ég var hraðari seinni hlutann.  Ég fann lítið fyrir æfingunni eftir á en tók samt algjöran hvíldardag á laugardaginn.  Var svona frekar illa sofin eftir laugardagsnóttina en Sonjan mín vaknaði grátandi með eyrnaverk og ég leyfði henni að kúra í mömmufangi þangað til hún jafnaði sig og sofnaði hjá mér áður en ég fór aftur með hana í rúmið sitt.

Vaknaði upp við fallegan dag og ljómandi gott hlaupaveður.  Ég var frísk og fín í kroppnum og hlakkaði til að haka við enn eina æfingu fyrir Munchen.  Planið var að hlaupa á T hraða (4:04) eða eins nálægt því og ég gæti án þess að streða.  

Alltaf jafn gaman að hitta félagana á start línu og þegar skotið reið að þurfti ég að hafa mig alla við að halda plani og missa mig ekki.  Kílómetrarnir flugu þægilega einn af öðrum, hugsaði um öndun og stíl og naut þess að hlaupa.  Ég var mjög fljótlega þriðja kona en þegar ég fór að nálgast snúning sá ég að ég var farin að draga verulega á konu númer tvö.  Jók hraðann örlítið næstu tvo km á meðan ég fór fram úr og náði góðu forskoti en slakaði svo aftur aðeins á og rúllaði þétt en þægilega restina.

Mynd frá Torfa á hlaup.is

Maður fylgist svona með pace-inu með öðru auganu í keppni, mis mikið og ég er yfirleitt aldrei að spá í hraðann seinni hlutann.  Þá er maður komin í einhvern takt og gerir bara eins vel og maður getur.  Ég pikkaði upp nokkra hlaupara í viðbót síðustu kílómetrana og kom hoppandi kát í mark akkúrat á pace-i.   Hér er mynd sem hann Felix vinur minn tók af mér á endasprettinum:

Vííí... alveg að verða búið.

Hér eru úrslitin!  Og svona hljóp ég þetta:

Split
Time
Distance
Avg Pace
Summary41:13.710,124:05
14:03.01,004:03
24:04.71,004:05
34:03.51,004:04
44:04.41,004:04
54:01.11,004:01
64:00.41,004:00
74:06.31,004:06
84:07.41,004:07
94:09.11,004:09
104:08.01,004:08
11:25.60,123:4

Flott framkvæmd hjá skipuleggjendum í alla staði.  Afgreiðslan á númerum gekk fljótt og vel.  Leiðin er fín og var vel merkt  Brautarvarsla góð og fínar veitingar eftir hlaup.  Verðlaunaafhendingin gekk snurðulaust og úrdráttarveðlaunanúmer voru lesin upp hátt og snjallt í belg og biðu, ekkert lufs.  Var komin heim hálf tólf til að sinna fólkinu mínu!

Já og svo var þetta frítt líka, takk fyrir mig :)