Ég gat ekki verið með í Haustþoninu í fyrra vegna þess að viku fyrir hlaup var ég að rölta með hana Sonju út á leikskóla, hún rann til í hálku og við að tempra fallið hjá henni fékk ég þursabit. Skakklappaðist með hana á leikskólann og gat svo ekki klætt mig í sokka næstu vikurnar...
Í ár var allt í góðu, skráði mig og sótti gögnin á föstudaginn. Þegar ég er að taka saman eftir kvöldmatinn og henda einhverju í ruslið þá 'spojng...', sá stjörnur og þurfti að styðja mig við til að rétta úr mér. Ekki fundið fyrir bakinu í heilt ár... þetta var klárlega ekki eins slæmt og í fyrra en ég fann hvernig ég stífnaði upp hægra megin við hryggsúluna, helvítis, fokking, fokk.
Ohh well, ætlaði svo sem bara að fara mér til skemmtunar. Ég tók eina íbúfen og bóndinn bar krem á bakið og ég hugsaði sem svo að ég myndi taka stöðuna morguninn eftir. Ég var stíf og stirð í morgunsárið en gerði allt eins og venjulega og hjólaði af stað að rásmarkinu, annað hvort til að skila inn flögu og númeri eða ef ég gæti hlaupið upphitunina án þess að finna fyrir, þá myndi ég rúlla af stað og sjá hvað gerðist.
Skokkaði í átt að Rafstöðvarbrekkunni og fann ekkert fyrir bakinu. Þegar ég kom til baka að rásmarki var ég bara aðeins betri ef eitthvað var. Þá var bara málið að festa á sig flögu og númer og rúlla af stað. Veðrið frábært og allir vinir mínir úti að leika!
Ég var komin af stað þegar ég áttaði mig á því að ég hafði ekki stillt Garmin á að lappa á km, skítt með það, dró ermina yfir úrið og leit ekki á það aftur fyrr en eftir hlaupið.
Ég hljóp þetta létt, engin átök og skemmti mér konunglega alla leiðina. Ótrúlega margir að hvetja, Þórólfur út um allt, gaman að sjá hann á hliðarlínunni og reyna að spá fyrir um hvar hann væri næst. Ég var fljótlega 3. kona á eftir Arndísi og Önnu Berglindi og sá á snúningi á Ægissíðu að ég gæti bara haft það huggulegt á bakaleiðinni og haldið sama dampi, ég hafði gott forskot á næstu konur.
Ljósmyndari: Rúdolf Adolfsson
Á bakaleiðinni fengum við smá mótvind en ekkert til að væla yfir. Svo er líka hrikalega gaman að pikka upp marathonhlauparana, alltaf að taka fram úr einhverjum. Hálf maraþonið er í miklu uppáhaldi hjá mér, ekki alveg eins hratt og 10 km og maður þarf ekki að borga fyrir eins og eftir maraþon.
Tilfinningin í kroppnum var eins og ég væri að hlaupa þetta á ca. 1:35 þannig að ég var meira en lítið hissa þegar ég kom á stokkinn og sá klukkuna 1:31:... Blastaði síðasta spottann og kom í mark á 1:32:16, ja hérna hér. Ég sé á
tímatökunni að ég var 45:34 með fyrri hlutann og 46:45 með þann seinni.
Nappaði þessari mynd frá henni Arndísi á Instagram.
Þrjár fyrstu konur, Arndís Ýr, Anna Berglind og Eva.
Ég var miklu betri í bakinu eftir hlaupið og það vottar ekki fyrir harðsperrum eða stífleika í mjöðmum eins og eftir Munchen. Framundan er skemmtilegur tími og æfingar í Höllinni með snilldar skvísum. Svo á maður örugglega eftir að kíkja á
Víðavangshlaup Newton Running og Framfara og svo að sjálfsögðu Powerade. Já og hver veit nema maður bregði sér af bæ, í Borgarnesið og heilsi upp á Flandrara!
Annars bara róleg.