Aldrei þessu vant vorum við hjónin spriklandi spræk á leiðinni í Powerade hlaup. Alla jafna erum við frekar lúin svona seint á fimmtudagskvöldum og geispum til skiptis á leiðinni upp í Árbæ. En alla vega, spriklandi spræk og þvílíkt spennt að taka stöðuna 'eftir brot' í fyrsta alvöru keppnishlaupinu mínu þar sem ég hef samanburð milli ára.
Æfingarnar hafa gengið mjög vel en nú eru rétt um 8 vikur frá því ég gat farið að stíga almennilega í fótinn og skokka aðeins af stað. Fyrstu tvær vikurnar fór ég mjög varlega, passaði að hlaupa á sléttu undirlagi og lágmarka álag á ökkla. Næstu tvær vikur fór ég reglulega í Hólmann til að venja mig við að hlaupa á stígum utan vega og auka þannig styrkinn og mýktina í ökklanum. Ég var dugleg að gera styrktaræfingar eftir leiðbeiningum sjúkraþjálfara enda mikið í mun að gera allt rétt til þess að ná mér sem fyrst. Eftir æfingar fékk ég yfirleitt töluverðan bjúg í kringum ökklan og ég svaf í tegjusokk og með hátt undir fætinum. Ekkert popp í marga mánuði!
Ég myndi segja að síðustu 4 vikur þá hafi ég getað beitt mér almennilega á æfingum og tekið vel á því án þess að finna nokkurn skapaðan hlut fyrir fætinum. Ég er annars vegar að æfa með vinnufélögum mínum, tvisvar í viku tökum við góðar æfingar í hádeginu, brekkur, tempó eða spretti og svo hef ég síðustu vikurnar verið hjá honum Gunna Palla með öllum hans frábæru hlaupurum. Það er frábært að blanda þessu svona saman, í öðrum hópnum er ég mjög sterk en hinum er ég að elta mér sterkari hlaupara. Fer voða vel með geðheilsuna að upplifa bæði og báðir hóparnir eru mér mikilvægir. Ég finn að ég er að styrkjast og formið verður betra með hverri vikunni, lungun að taka við sér á ný.
Ég veit fátt skemmtilegra en að standa á ráslínunni með hlaupafélögunum, finna spenninginn hríslast um kroppinn. Planið var að hlaupa algjörlega eftir tilfinningu, hlusta á kroppinn, huga að stíl og öndun. Ég vonaðist til að það myndi skila mér sub 45 og í topp 10.
Strax í upphafi fann ég að ég réð vel við að fylgja gömlum hlaupafélögum og ég var fljót að finna góðan takt. Eftir brekkuna tók við gott rúll og ég náði að keyra vel niður dalinn. Eftir stokkinn fór ég aðeins að þreytast og vindur í fangið var ekki að hjálpa til. Nú fóru öll plön um að hlaupa þetta þægilega og yfirvegað út um gluggann, tveir km eftir, nú skyldi duga eða drepast. Rafstöðvarbrekkan tók vel í og ég missti eina svífandi fram úr mér upp bekkuna en ég hélt alveg dampi og efst í brekkunni náði ég að taka fram úr nokkrum og svo var bara að bíta á jaxlinn síðasta km og koma sér í mark. Kláraði á gufunni og lokatíminn 43:51 og sjöunda kona í mark.
Þetta verður skemmtilegur vetur!