Ég datt heldur betur í lukkupottinn, lenti á gömlum og góðum lækni upp á slysó sem skoðaði mig og mat það þannig að ég mætti losna við gipsið og það sem meira var, hann sá ekki ástæðu til að fjárfesta í ofurspelkunni! 'Þetta grær vel og fyrst þú ert farin að geta stigið í hælinn þá er þetta í rauninni eins og rifbeinsbrot. Þú þarft ekkert að vera í gipsi ef þú ferð bara varlega og notar heilbrigða skynsemi.'. Jeiii... ég knúsaði hann ég var svo glöð. Nú get ég hjólað og synt og byrjað að þjálfa upp hreyfigetuna í ökklanum í rólegheitum, allt annað líf.
Við fjölskyldan ákváðum seinni partinn á fimmtudaginn að drífa okkur norður til Orra á Akureyri, klukkutíma síðar vorum við komin af stað og renndum í hlað á áfangastað rétt fyrir miðnætti. Ferðin gekk eins og í sögu, krakkarnir til fyrirmyndar.
Föstudaginn notuðum við á Akureyri, röltum um bæinn, fengum okkur gott að borða og slökuðum á. Við tókum daginn snemma á laugardag og keyrðum á Mývatn þar sem við heimsóttum góða vinkonu okkar. Eftir gott stopp í Vagnbrekku og hádegismat, héldum við áfram í Jarðvegsböðin í þvílíkri blíðu, svo fallegt í Mývatnssveitinni. Um kvöldið var slegið upp heljarinnar grillveislu hjá Orra með góðum gestum. Mikið hlegið og skrafað. Á sunnudaginn fórum við í sund á Akureyri og fikruðum okkur í átt að bænum aftur. Þórólfur græjaði gistingu fyrir okkur á Laugabakka, sem er ekki svo langt frá Staðarskála. Skemmtum okkur konunglega og krakkarnir alsælir að komast í íþróttahúsið og léku sér í körfubolta, badminton, fótbolta, kaðlaklifri og gamla tók nokkara léttar yoga teigjur á meðan. Sváfum eins og englar á Eddu hótelinu og eftir góðan morgunverð og 'round two' í íþróttahúsinu, var ekkert mál að keyra síðasta spottann í bæinn og allir glaðir.
Framundan eru spennandi tímamót, Sonja verður tveggja ára þann 1. ágúst og ég byrja að vinna hjá Betware sama dag. Hlakka mikið til hvoru tveggja!
Rölt um bæinn á Akureyri.
Í Vagnbrekku hjá Dagbjörtu.
Stelpurnar komust heldur betur yfir hundahræðsluna!
Sonja er sérstaklega hrifin af hænum.
Vinkonur.
Jarðböðin á Mývatni.
Íþróttahúsið á Laugabakka.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli