Maður veit aldrei og það er eins gott að lifa í nú-inu, það er lexía vikunnar. Ég sit hérna með gips upp að hné og er rétt svo að átta mig á því að lífið verður aðeins með öðru sniði næstu vikurnar.
Á miðvikudagskvöld var komið að Ármannshlaupinu sem er fjórða hlaupið af fimm í Powerade mótarröðinni. Brautin er hröð og góð, það var flott veður og ég í besta stuðinu mínu. Ég missti aðeins keppnis mojo-ið mitt fyrr í sumar, var að ströggla of mikið og um leið og áherslan fer af því að hafa það gaman, yfir í að vera of markmiðadrifin, þá gengur mér ekki eins vel. Hjá mér er algjört samasem merki á milli þess að ég hafi gaman og árangrinum á hlaupabrautinni.
En alla vega, fullt af góðum konum með og nokkrar miklu hraðari en ég, þá var öll pressa farin og bara tilhlökkun eftir. Lagði upp með að hlaupa á sub 41 og einbeita mér að því að fara ekki of hratt fyrstu 2-3 km. Það gekk eins og í sögu, var yfirveguð og leið frábærlega og km flugu árfam einn af öðrum. Þegar komið var að snúningpunkti var ég 7. kona en ekki langt á eftir næstu tveimur á undan og hafði greinilega verið að vinna á þær.
Í banastuði eftir rúmlega 4 km.
Ég gaf mér 2 km í að ná þeim í huganum og eftir einn og hálfan var ég komin fram úr báðum og átti helling inni, hrikalega gaman. Rétt eftir 7 km keiluna var ég komin í hælana á Pétri Helgasyni, vini mínum, og var að undirbúa að kasta á hann kveðju, þegar ég fæ skot rétt fyrir ofan ökklann á utanverðum vinstri fæti. Aldrei fundið þessa tilfinningu áður og hugsaði með mér að það væri eins gott að þetta væri ekkert sem truflaði þangað til ég kláraði hlaupið! Rétt á eftir fæ ég stingandi verk á sama stað og finn að þetta er búið, stíg út fyrir brautina, trúi þessu ekki, reyni að stíga í fótinn, gengur ekki. Horfi á hlauparana einn af öðrum hlaupa fram úr mér, 'Er allt í lagi með þið?', 'Komaso, lítið eftir...'. Úff...
Tók af mér númerið og skakklappaðist af stað í átt að markinu en eftir 100-200 m gefst ég upp og húkkaði mér far til baka að bílnum okkar. Ég vissi strax að það var eitthvað mikið að því mér fannst eins og ég væri brotin og að brotin væru að nuddast saman. Fann ekki lykilinn af bílnum en ég ætlaði bara að bíða eftir Þórólfi eða hringja eftir hjálp en í því kom Arnar, sem varð 2. í hlaupinu fram hjá með foreldrum sínum. Ég bað hann að stökkva eftir Þórólfi og áður en ég vissi af voru þeir komnir. Ég spjallaði við foreldra hans á meðan og sagðist halda að ég væri brotin en þeim fannst ég ekki nógu illa haldin og föl, héldu frekar að ég væri tognuð.
Við komum við heima til að ná í föt og Kindle því við reiknuðum alveg með því að þurfa að bíða á Slysó. Mamma passaði krakkana fyrir okkur og tók vaktina til ellefu en þá tók Gabríel við. Ég fékk hjólastól og 2 parkódín um leið og ég var búin að skrá mig inn og hjúkkan sem kom með verkjalyfin sagði að ég kæmist örugglega ekki að fyrir miðnætti. Sendi Þórólf eftir mat handa okkur og það var mjög góð ákvörðun því það kom í ljós að ég myndi ekkert fá að borða og drekka til klukkan þrjú daginn eftir.
Síðasta máltíðin í bili, á biðstofunni á Slysó.
Eftir fjögurra og hálfs tíma bið á biðstofunni bað ég um að fá að komast í rúm af því ég var orðin frekar þreytt í bakinu á að sitja svona lengi og hálftíma síðar fór eitthvað að gerast. Eftir forskoðun fór greyið Þórólfur loksins heim en hann vildi endilega vera mér til halds og trausts þangað til að ég kæmist í hendurnar á fagfólki. Ég var send beint í röntgen og klukkutíma síðar fékk ég að vita að ég væri brotin og þyrfti hugsanlega að fara í skurðaðgerð. Fyrst var talað um að leggja mig inn en ég bar mig svo vel að ég mátti fara heim og svo yrði hringt í mig um leið og bæklunarlæknarnir væru búnir að skoða myndirnar. Ég fékk spelku gips og var send heim fastandi klukkan fimm um morguninn, 9 tímum eftir að ég kom upp á Slysó. Það gleymdist að senda með mér verkjalyf og eftir tvo tíma heima, frekar illa haldinn hringdi ég upp eftir og því var reddað.
Bráðabirgða spelkan mótuð.
Ég heyrði í Orra bróður sem er röntgen læknir og bað hann að kíkja á myndirnar og hann sagði mér að þetta liti vel út að sínu mati og hann væri hissa ef ég þyrfti í aðgerð.
Ekkert heyrðist frá bæklunarlæknunum og þegar klukkan var að verða eitt, þá gafst ég upp,hringdi og bar mig aumlega. Úbbss... var ekki búið að tala við þig, þetta á alls ekki að vera þannig að fólk sé látið fasta heima hjá sér og fái ekki að vita neitt... Mjög ólíklegt að þú verði skorin í dag, bæklunarlæknir hringir eins fljótt og hægt er. Hálf þrjú hringdi bæklunarlæknirinn og baðst innilega afsökunar á þessu öllu saman, farðu og fáðu þér að borða og komdu svo til okkar og við skellum þér í almennilegt gips, það þarf ekkert að skera þig, þetta verður í fínu lagi. Jeiii...
Frábært starfsfólk á spítalanum, þessi stakk upp á fallega fjólubláu gipsi, snilld!
Langaði mest í hafragraut og góðan kaffibolla á eftir föstuna. Það var allt annað að koma aftur á Slysó, nú gekk allt hratt og vel fyrir sig og engin bið. Bæklunarlæknirinn tók á móti mér og sýndi mér myndirnar, brot þvert í gegnum Fibula (sperrilegginn) 6 cm fyrir ofan ökklann. Smá beinflís sem stóð út úr brotinu en það á ekki að hafa nein áhrif. Engin hreyfing á beinunum og leit allt saman mjög vel út. Gips í fjórar vikur og svo verður staðan tekin.
Ég get gert magaæfingar :)
Maður er rosalega fljótur að aðlagast nýjum aðstæðum og ég var ekki lengi að velta mér upp úr þessu. Það var aðallega rétt eftir brotið, að sætta sig við að þurfa að hætta í hlaupinu og hugurinn skannaði næstu vikur og markmiðin sem klárlega þyrftu að breytast. Svo var þetta bara búið, ég sættist við stöðuna eins og hún er og fór að spá í hvernig ég gæti gert það besta úr stöðunni. Er eiginlega alveg hissa á því hvað ég er róleg og mér líður vel. Ég finn að verkirnir eru í rénun og gæti trúað að ég verði verkjalaus eftir einn til tvo daga í viðbót.
Sonja purrar á magan á mömmu sinni.