Við hjónin vorum búin að plana rómantískt 'get-away' á föstudaginn. Þórólfur græjaði gistingu á Hotel Marina, ég pantaði miða fyrir okkur á Tengdó í Borgarleikhúsinu og Mamma tók að sér börn og bú í tæpan sólarhring á meðan.
Snemma í vikunni fékk ég vinabeiðni á Facebook frá manni sem ég þekki ekkert, virðulegum lögfræðing hér í bæ og ég sendi smá skilaboð til baka:
Fékk vinabeiðni frá þér en er ekki viss um að það hafi verið viljandi, þekkjumst við?
Kv. Eva
Eftir tvo daga kom svar (stytt, nöfn og heimilsföng fjarlægð):
Sæl, Líklega hefur þessi vinabeiðni bara komið óvart. Ég var að búa til atburð í fyrsta skipti og það skýrir þetta. Hef óvart ýtt á takka. Er enn að fást við þessar flækjur sem eru marghverjar illleysanlegar. Efast um að ég bjóði aftur í boð á Facebook nema með aðstoð mér betra fólks. Við - fyrst allt þetta hefur gerst - getum ekki annað en boðið þér og þínum maka að taka þátt í fárviðrafagnaðinum, sem á að heita sumarfagnaður eða dúfnaveisla hér kl. 17.30 á föstudaginn kemur, þ.e. 7. júní.
Þetta var of skemmtilegt til að láta eiga sig og ég svara:
En skemmtilega rangur misskilningur, þetta kann ég að meta eins og margt annað sem er óvænt í lífinu. Ég lenti sjálf í því að senda óvart vinabeiðni á þekktan söngvara hér í borg sem ég þekkti ekkert og ég hef unnið við hugbúnað í 15 ár, svo það getur kárlega hent hvern sem er.
Ég myndi eindregið ráðleggja þér að láta ekki deigann síga og halda áfram að búa til atburði á Facebook. Við hjónin erum reyndar að fara í leikhús á föstudaginn að sjá Tengdó en hver veit nema við náum að grafa upp ævintýramanneskjurnar í okkur og finna hugrekki til að heilsa upp á ykkur fyrst.
Bestu kveðjur, Eva
Ég reiknaði svo með að þessar línur myndu ljúka málinu en svo var ekki. Daginn eftir kom svar:
Þið skuluð endilega líta við áður en farið er á leiksýninguna. Hér verður alls konar fólk og líklega ekki minna leikhús!! Tilviljanir eru líklega það öruggasta sem kemur fyrir mannskepnuna. Sem sagt: Boðið hefst ca kl. 17. Gert er ráð fyrir að hafa gestina úti við en þeim verður samt hleypt inn geri verulega rigningu.
Hmmm... ættum við kannski að láta vaða:
Takk kærlega, tek þessu sem alvöru boði núna og við hjónin sitjum hérna og brosum prakkaralega til hvors annars. Finnst þetta pínulítið vera eins og áskorun og við erum mikið keppnisfólk!
Planið var að leggja í hann héðan klukkan hálf fimm, strax eftir vinnu, koma okkur fyrir á hótelinu, fá okkur smá bita og kíkja svo í veisluna áður en við héldum í leikhúsið. Það er skemmst frá því að segja að það gekk ekki upp! Sonja kúkaði upp undir eyrnasnepla á leiðinni heim frá dagmömmunni, ég þurfti að smúla hana í sturtunni áður en ég afhenti mömmu barnið, fundur í vinnunni hjá Þórólfi dróst á langinn og við vorum ekki komin niðrí bæ fyrr en rúmlega sex. Timinn var of naumur til að fara út að borða þannig að við gripum með okkur Búlluborgara upp á herbergi... Rétt náðum að shine-a okkur aðeins til fyrir leikhúsið og ekki séns að ná því að koma við í veislunni. Vorum bara verulega svekkt yfir því...
Í leikhúsið fórum við og sýningin var alveg frábær, snerti okkur sérstaklega. Við hittum vinkonu okkar á leiðinni úr leikhúsinu sem skutlaði okkur í bæinn. Klukkan rétt rúmlega tíu... ættum við að kíkja við og sjá hvort það sé eitthvað um að vera ennþá?
Við fundum rétta húsið og jú viti menn þarna var fólk á vappi í garðinum. Kíktum inn og þar tók nýi FB vinur minn hlýlega á móti okkur og bauð okkur hjartanlega velkomin. Jiiii hvað það var gaman hjá okkur! Við kynntumst fullt af nýju fólki, spjölluðum út í eitt, það var spilað á píanó og sungið. Við vorum með síðustu gestum út, vel eftir miðnætti, sammála um að við hefðum sjaldan skemmt okkur eins vel. Þetta er lífið!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli