28. jún. 2013

Miðnæturhlaupið og stóra planið...

Esjuhlaupið var síðustu helgi og ég ákvað að vera ekki með í þetta sinn þó mig dauðlangaði...  Ástæðan að ég ætlaði að vera með í Miðnæturhlaupinu tveimur dögum seinna og hlaupa þá eins og vindurinn!  Laugardagurinn var sérstaklega fallegur og ég hugsaði til vina minna í Esjunni en ég átti líka mjög skemmtilegan dag, skokkaði með bónda mínum, vann heilmikið í garðinum og fór í afmæli.  

Um kvöldið fann ég pestina hellast yfir mig, særindi í hálsinum og þyngsli í hausnum, nei....  Vaknaði með 38,5° daginn eftir.  Fyrsta sem ég hugsaði var 'Ég hefði betur verið með á Esjunni!!!'.  En ohh welll...  á mánudaginn var ég ennþá með smá hita en fann að pestin var að rjátlast af mér, bara stútfull af kvefi.  Tók stöðuna um kvöldmat og ákvað að slá til, vera með og sjá hvað myndi gerast.  Annað hvort yrði ég betri, verri eða eins.    

Það voru tæplega 700 manns sem tóku þátt í 10 km hlaupinu, þar af 350 konur og nokkrar af okkar allra bestu hlaupurum.  Ég var svakalega afslöppuð, leið eins vel og hægt var miðað við aðstæður og naut þess að komast aðeins út.   Hlaupið var mjög skemmtilegt, gaman að tækla brekkurnar og rúlla svo niður seinni hlutann.  Ég hafði hlaupið í 4-5 manna hópi sem skiptist á að taka forystuna en þegar 2 km voru eftir þá fór ég örlítið að gefa eftir.  Einn úr hópnum lítur þá til mín í þann mund sem hann er að fara fram úr mér og segir  skýrt en yfirvegð 'Áfram'.  Ekkert annað, bara 'Áfram'.   Og það var nóg.  Ég negldi mig á hælana á honum og eftir km þá var ég komin í stuð aftur.  Ég seig svo fram úr hópnum aftur og þegar við komum inn í dal sé ég að minn maður er aðeins að dragast aftur úr og þá var komið að mér, snéri mér við og sagði hátt og skýrt 'Áfram!'.  Og þá kom hann til baka líka.  Niður síðustu brekkuna spurði hann mig hvort ég vissi hvað væri langt eftir, já ca. 350 metrar...   Ok, látum vaða.  Og það gerðum við, blöstuðum síðasta spottann eins og sá svarti sjálfur væri á hælunum á okkur.   4. kona í mark á 42:36 sem var langt fram úr væntingum þennan daginn en það var Þórólfur sem átti 'Glory-ið', hann sigraði í hlaupinu!


Merkilegt að þegar við komum heim þá mældi ég mig og þá var ég með 35,6°   Ég marg prófaði og svo mældi Þórólfur sig til að tékka á mælinum, þá var hann með 35,8° ???   Við fórum þá stórlega að efast um mælinn og mældum Gabríel, hann var með 37°.   Daginn eftir var ég aftur orðin 'eðlileg' eða með 36,8° eins og ég mælist venjulega með þessum mæli (eyrnamæli).   Ætla að prófa að mæla hitann aftur eftir næsta keppnishlaup í gamni.   

Við hjónin ennþá með 'Runners High' eftir hlaupið, settumst fyrir framan tölvuna, googluðum 'Spring Marathons in Europe' og skráðum okkur í maraþon í Mílanó í apríl á næsta ári!  Það verður fyrsta maraþonið hjá okkur í 6 ár og fyrst að við erum farin að hugsa langt og stórt þá er stóra planið hlaupalega sérð, eins og hér segir:  
  • Hálft maraþon í Munchen í október
  • Heilt maraþon í Mílanó í apríl
  • Laugavegurinn í júlí

Annars er ég rétt að fara að sjá til sólar núna eftir viku sem einkenndist helst af snýtum og hóstum.  Skemmtileg helgi framundan hjá okkur, ekkert keppnishlaup en samverustundir með góðum vinum og sumarfjölskyldugleði með vinnunni hans Þórólfs.    

1 ummæli:

  1. Takk fyrir daginn, darlings - ljúft eins og venjulega
    GH

    SvaraEyða