19. jún. 2013

Gullspretturinn 2013

Ég vissi það!   Gullspretturinn var æðislegur og heldur sannarlega sessi sínum sem skemmtilegasta hlaup... í heimi!

Við lögðum í hann á laugardagsmorgun eftir að Gabríel var búin að bera út og aldrei þessu vant vorum við næstum því of snemma í því.  Vorum ótrúlega skipulögð, búin að pakka daginn áður og með allt á tæru.  Veðrið var frábært, hlýtt og sólin glennti sig öðru hvoru.  Fyrirfram vissi ég að það voru tvær konur sem eru sterkari en ég með, svo stefnan var sett á 3. og að hlaupa mitt besta hlaup í brautinni, sem þýðir fyrir mig að hlaupa þetta vaxandi, velja bestu leiðina og njóta!  Í skráningunni hittum við Doktorinn og hann tjáði okkur að allt kvennalandsliðið í handbolta, Ólympíu og heimsmeistarar, tækju þátt, hmmm þær eru nú örugglega ekki vanar að vaða ár og drullu...  



 Í ár var þetta ansi blautt, mýrin þung en ég beitti járnaga í að fylgja bakkanum og lét ekkert plata mig af leið.  Það var miklu meira vatn í skurðunum og á vaðinu var vatnið vel upp fyrir mitti, í fyrra var það rétt upp að hnjám.   Ég sýndi mikil tilþrif á þessum parti, eftir að hafa böðlast hálfa leið missti ég einn stóran og sterkan fram úr mér.  Tók þá til minna ráða og í stað þess að vaða, spyrnti ég mér og lét mig renna í vatninu eins langt og ég gat, upp aftur, spyrnti og rann.   Mjög lítið þokkafullt við þessar aðfarir en skilaði mér fram úr gaurnum aftur!  Leiðin frá vaðinu hefur aldrei virkað eins stutt og frábært að tæta síðustu fjöruna og í mark, 3. kona, og eintóm gleði.  Eftir að hafa damlað dágóða stund í Fontana var verðlaunaafhending í gamla gróðurhúsinu og þriggja rétta máltíð fyrir tvo á Hótel Eddu á Laugarvatni kom í minn hlut.




Næst lá leiðin í bústaðinn og við komum okkur vel fyrir og slökuðum aðeins á.  



Um kvöldið var okkur boðið í heljarinnar grillveislu á Sólheimum en húsfreyjan tók líka þátt í Gullsprettinum og það í fyrsta skipti svo það var nóg um að skrafa.   Frábær kvöldstund með yndislegum vinum.


Á laugardagsmorguninn fórum við Þórólfur með stelpurnar í Kerið en leyfðum guttanum okkar að hvíla sig á meðan.    Eftir ræs og hádegimat gátu krakkarnir þrefað endalaust um, í hvaða sundlaug ætti að fara!  Við  keyðum upp á Borg en þar var stappfullt svo við enduðum á Selfossi, sem hentaði vel því þá gátum við keypt inn fyrir kvöldið.   Eftir nokkra tíma í sundi var hungrið þvílíkt að við versluðum og elduðum mat fyrir 10 manns, það fór engin svangur í rúmið á sunnudaginn, það er sko alveg á hreinu.




Eftir sundferð á sunnudagsmorgun í bústaðnum fannst okkur tilvalið að fara Þingvallaleiðina heim þar sem það var nú einu sinni þjóðhátíðardagurinn okkar.  Hentum upp úr töskunum þegar heim var komið og náðum að kíkja niðrí bæ og vera hefðbundin, þ.e. skjálfandi úr kulda að horfa á skemmtiatriði á Arnarhóli.  Note to self: Taka með lopapeysu í bæinn.  ALLTAF. Og auka jakka.  Hljýjan.  Sama þó það sé logn og sól þegar maður leggur af stað.  



Engin ummæli:

Skrifa ummæli