13. jún. 2013

Crash and burn...

Jæja, þá er hræðilega hlaup sumarsins afgreitt!   Þetta byrjaði nú samt allt saman nokkuð vel.  Við Þórólfur, sóttum Jóa frænda og rúlluðum upp í Mosó til að taka þátt í Álafosshlaupinu, sem er 9 km utanvegahlaup.  Þetta er eitt af mínum uppáhalds og ég á margar góðar minningar.   Í fyrra setti ég pb í brautinni og hljóp á 38:06, ég er í svipuðu formin núna og reiknaði með að geta jafnvel gert betur þar sem aðstæður voru mjög góðar.

Allt gekk eins og í lygasögu fyrstu 4-5 km, mér leið vel og pjakkaði upp brekkurnar með fyrstu konu vel í sjónmáli.  Ég var komin með þokkalegt forskot á næstu tvær á eftir mér og lífið dásamlegt.  Allt í einu fæ ég snarpan sting upp undir þindina.  Hmmm... hvað var þetta?  Ég rúlla áfram og nú er löng brekka niður framundan.  Stingurinn eða takið eykst og ég finn að ég er að fá magaverk og þarf að komast á dolluna.  Farging sjitttt...   Ég verð að draga úr hraðanum, sem er alveg blóðugt niður brekkuna og sé að bilið milli mín og næsta manns á undan breikkar.   Ég er á þessum tímapunkti að velta fyrir mér hvort það sé einhver möguleiki að halda út alla leið í mark eða hvort það sé bara tímaspursmál að missa stelpurnar fram úr mér.  Eftir 6,5 km ná þær mér og sigla fram úr.  Þarna er ég komin í keng og nú er ég að velta fyrir mér möguleikunum: a) Hlaupa inn í næsta garð, dömpa og ná þeim svo aftur :-/   b) Hætta í hlaupinu og reyna að finna styttri leið í mark.  c) Skokka restina og klára...    

Auðvitað varð c) ofan á, a) maður gerir ekki svoleiðis og b) maður gerir helst ekki svoleiðis heldur...

Síðustu 2 km voru allt í lagi, ég hljóp bara þannig að ég héldi haus og hægðum, leið ekkert svo illa á þessum kafla, nema bara andlega!!!   Um leið og ég kom í mark, gat ég ekki haldið haus eða öðru lengur og sennilega af því ég var búin að pína mig þetta lengi, þá borgaði ég fyrir með þvílíkum magakrömpum og endaði á að kasta upp, en n.b. inná klósetti eins og dannaða konan sem ég er.  Var hálf skjálfandi á beinunum í smá stund en ég var fljót jafna mig, fékk mér recovery og skokkaði niður með bónda mínum.  

Þórólfur massaði þetta og sigraði í hlaupinu og Jói frændi átti líka góðan dag.  Þurfti alveg að nota heilmikinn viljastyrk til að samgleðjast mínum mönnum (sem tókst!) en ekki drekkja mér í sjálfsvorkunn (sem ég gerði ekki :þ

Maður fer svo yfir svona misheppnað hlaup í huganum, milljón sinnum og reynir að finna út hvort maður hefði getað gert betur en ég komst að þeirri niðurstöðu að svo var ekki.  Maður getur harkað af sér ef maður er móður eða þreyttur í löppunum, talað sig til og notað hausinn.  En það er bara ekkert sem maður getur gert ef maður fær í magann, alveg sama hvað hausinn er sterkur og þannig er það bara.  

Grunar að það séu tveir til þrír þættir sem orsökuðu þetta ástand.  Ég var lasin í síðustu viku, með magakveisu og þó svo ég hafi ekki fundið neitt fyrir því síðustu daga þá hef ég sennilega ekki þolað keppnisátökin strax.  Svo var næringin fyrir hlaup ekki eins og vanalega, tímasetningin er þannig að ég hefði helst þurft að borða svona þrjú, hálf fjögur en ég náði því ekki í vinnunni svo ég var alveg á síðasta snúning með það.  

Nú er ég búin að skrifa um þetta og þá þarf ég ekki að velta mér meira upp úr þessu.  Næst á dagskrá Gullspretturinn og mig grunar að það verði frábært!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli