Það er alveg svakalega gott að hlaupa hérna. Í morgun ætlaði ég að taka smá túr, kannski 8 km en áður en ég vissi af var ég komin 7 km út í buskann og þá snéri ég við. Ég hef ekki verið að taka neinar hraðaæfingar bara notið þess að sprikla á þægilegum hraða. Það er líka eins gott að hreyfa sig heilan helling hérna í gourmet fæðinu hjá systur minni...
Við fórum í bæjarferð eftir hádegið, skoðuðum útimarkaði og nutum mannlífsins. Við stelpurnar fórum upp í Péturskirkjuna til að njóta útsýnisins yfir borgina en til að komast upp í turninn þarf maður að gjöra svo vel að tölta upp 306 brattar tröppur í einstigi. Mamma, langt komin á áttræðisaldur tók þetta í nefið og það var bara fyndið að sjá hana skokka niður aftur eins og smástelpu.
Við skiptum svo liði og ég fór í smá verslunarleiðangur fyrir strákana mína á meðan restin fór í skoðunarferð í Asam kirkjuna sem er svakalega falleg barrokk kirkja. Við hittumst svo aftur á kaffihúsi á Marienplatz en þar fengum við að bíða fyrir allan peninginn en veitingarnar voru góðar þegar þær komu.
Á heimleiðinni komumst við að því að það er frídagur hér á morgun, sem er mjög gott fyrir veskið! Ásta riggaði fram enn einni gúmmelaði máltíðinni sem innihélt m.a. norskan lax, þýska skinku og, ferskan arspars, nammi namm.
Við fórum líka í gourmet búð í dag og mamma verslaði dökkt súkkulaði með rósarpipar og þvílíkt gúmmelaði með espresso ala Mummi.
Hlakka til að sjá hvað morgundagurinn ber í skauti sér og svo höldum við mæðgur heim á leið annað kvöld.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli