Dásamleg byrjun á frábæru fríi. Við komum hingað til Ástu og Mumma eldsnemma á föstudagsmorguninn og dagurinn fór að mestu í að spjalla frá okkur allt vit á milli þess sem við lögðum okkur, fórum í göngutúr um hverfið og borðuðum góðan mat.
Svaf eins og steinn í nótt og eftir hafragrautinn drifum við Ásta okkur út í langa kraftgöngu. Hún sýndi mér Freidens Engel sem er einn km frá okkur og svo tókum við góðan göngutúr í Enska garðinum. Skilaði Ástu heim í sturtu og fór í smá hlaupatúr meðfram Isar ánni. Eftir að stóra systir var búin að næra okkur með gourmet hádegismat fórum við í langan göngutúr um borgina og enduðum í heimsókn hjá Róberti frænda sem býr í næsta hverfi. Fengum okkur smá hressingu á kaffihúsi í skólanum hennar Ástu á leiðinni:
Við stelpurnar við maí stöng og kaffisopi í skólanum.
Mamma kveikir á kertum fyrir þá sem okkur þykir vænt um, eitt fyrir þá sem eru lifandi og eitt fyrir dána.
Hjá Roberti, allir strákarnir í símunum en stelpurnar að tala saman :)
Ekki leiðinlegt hjá mér :)
Nú erum við komin aftur heim í hús og við mamma sitjum eins og drottningar og bíðum eftir að kvölverðurinn veður framreiddur...
Það þarf ekki mikið til að gleðja gamlar konur, en ég var að kíkja á úrslitin í Flóa-, Fjölnis- og Valshlaupinu frá því í fyrra, því ég mundi að ég hafði tekið þátt en löngu búin að gleyma tímunum mínum. Hafði á tilfinningunni að ég hefði örugglega hlaupið hraðar þá og væri ekki í eins góðu formi núna og blehhh... Mér til mikillar ánægju þá var það bara alls ekki þannig:
2012 | 2013 | |
Flóahlaupið | 40:58 | 41:04 |
Valshlaupið | 42:47 | 42:20 |
Fjölnishlaupið | 42:31 | 42:10 |
Nú er bara að halda áfram á þessari braut, þá reiknast mér til að ég fari sjálfkrafa undir 40 um miðjan júlí og málið er dautt, erhaggi annars...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli