27. maí 2013

Bæjarferð

Ásta klikkaði ekki frekar en fyrri daginn á eldamennskunni í gærkvöldi og þá bauð frúin uppá dýrindis kjúklingarétt og tilbehör.


Eftir kvöldmat læddumst við Mummi inn í stofu og horfðum á einn góðan þýskan krimma, á þýsku og svei mér þá gamla menntaskóla þýskan dugði til að ná plottinu.  Ég sef svo eins og steinn hérna, sofnuð um leið og ég leggst á koddann.  Mér er samt búið að takast að klára eina bók, The Great Gatsby, en ég hef lengi ætlað mér að lesa hana.  Frábærlega skrifuð bók, margt til að hugsa um.

Í morgun tók ég langan hlaupatúr meðfram ánni Isar.  Yndislegt að hlaupa á mjúkum stígunum innan um trén.  Komst í Forrest Gump fíling og það var bara erfitt að snúa við.  Það er engin leið að villast hérna og stígarnir er bjartir, maður er aldrei óöruggur með sig.  Endaði í góðum 18 km og kom endurnærð og frísk heim.


Teygt á eftir hlaup við Friedens engel

Eftir góðan hádegisverð fórum við stelpurnar í bæjarferð og röltum okkur upp að hnjám.  Á leiðinni skoðuðum við ýmsa merkis-staði.  Mér fannst stórmerkilegt að sjá hóp fólks skiptast á að serf-a á Isar ánni í flúðunum.   Það gilda strangar reglur um fyrirkomulagið, serf-ararnir skiptast á frá sitt hvorum bakkanum og hafa bara stuttan tíma í einu til að æfa sig.  Ef næsta manni finnst hann þurfa að bíða of lengi þá er bankað ákveðið í brettið til að láta óánægjuna í ljós.  Svona er þetta allan ársins hring að mér skilst en ég get ekki sagt að mér hafi fundist þetta freistandi í grámanum í morgun.


Serf-að á Isar ánni.


Falleg fiðrildi lífga heldur betur uppá byggingu í miðbænum.


Kúlan hans Ólafs Elíassonar í Fünf Höfe.


Theatinerkirche

Við skoðuðum garða og fallegar byggingar, röltum um markaði og kíktum í nokkrar búðir.  Um miðjan daginn fundum við okkur lítið kaffihús og bættum á tankinn.  Virkilega skemmtilegur miðbærinn í Munchen, stór og breið göngugata og fullt af krúttlegum hriðargötum sem gaman er að kíkja í.


Sacher terta, apfelstrudel mit vanillesauce og íþróttaálfurinn með bláberja-skyrdrykk...  
Maður kann sko að njóta :)

Eftir alla útiveruna þá komum við heim í enn einn gourmet kvöldmatinn.  Innbakaður arspas í skinku og osti, með Hollandaise sósu, mit weiss wein.  Sehr shön...:

Engin ummæli:

Skrifa ummæli