Ég ætlaði að byrja á að segja að ég hafi aldrei verið að toppa í RM og eins og venjulega hafi þetta verið frekar erfitt og ég töluvert frá mínu besta. En þegar ég fór að hugsa til baka þá er það er bara alls ekki þannig. Ég hljóp frábært maraþon í Reykjavík 2005 en það var annað maraþonið mitt og ég stefndi á sub 3:30. Endaði á 3:28 og var 3. íslenska konan í mark það árið. Ég hef alltaf tengt það hlaup við þá ákvörðun mína að verða 'alvöru' hlaupari og virkilega sjá hvaða árangri ég gæti náð með góðum æfingum. Ég hef líka hlaupið gott hálf maraþon á 1:29 í RM, það eru eiginlega bara 10 km hlaupin sem ég hef verið að ströggla við. Ég er alveg búin að greina þetta hjá mér. Alla jafna er ég búin að keppa mjög mikið í maí, júní, júlí og hungrið dvínar. Við erum líka yfirleitt í sumarfríi í júlí og þá fer öll rútína út í veður og vind, matarræði og æfingar fara úr skorðum. Í ár bættist ofan á heilmikið álag vegna þess að við vorum að kaupa okkur hús og selja íbúðirnar okkar í flóknum fasteignaviðskiptum. Já og Sonja er að byrja hjá dagmömmu og Liljan okkar er að fara í skóla!
Ég þekki mig og kroppinn minn nógu vel til að vita að í ár var það verðugt markmið að hlaupa þannig að ég gæti notið dagsins, skemmt mér og gert mitt besta. Ég svaf vel og vaknaði spræk og tilbúin í daginn. Eftir keppnisrútínuna hjólaði ég niðrí bæ og náði að fylgjast með maraþon og hálf maraþon hlaupurunum leggja í hann. Stemmningin!!! Svo var bara að hita aðeins upp og græja sig fyrir hlaupið. Á ráslínunni áður en við lögðum af stað var tilkynnt að bestu 10 km hlauparar landsins væru með í dag miðað við árangur á árinu. Nafnið mitt var lesið upp og það kom í ljós að ég átti 3. besta tímann í 10 km í ár, ég vissi það ekki :)
Bara gaman að komast af stað, þvílík blíða og allaf jafn gaman að hlaupa inn Lynghagann þar sem íbúarnir leggja metnað sinn í að hvetja hlauparana með tónlist og gleði. Um miðbik hlaupsins fór ég aðeins að ströggla en svo náði ég áttum aftur eftir 7 km en þá var mér ljóst að ég væri ekki að bæta pb (og ekki að vinna muwahahahah....), slakaði á í öxlunum, lét spennuna bókstaflega leka út um fingurgómana, fann brosið breiðast yfir andlitið á ný og fiðrildin í maganum fara á flug í hvert sinn sem ég sá kunnuglegt andlit og fékk hvatningu frá vinum og fólkinu mínu. Ég hljóp á 40:50 sem er pb í þessari braut og varð 5. kona í mark. Ég tryggði mér jafnframt 2. sætið í Powerade sumar seríunni og hlaut að launum flottan bikar og Asics skó. Það sem stóð upp úr var nú samt að sjá gleðina og sigurvímuna í andlitunum á þeim sem voru að ná sínum markmiðum stórum og smáum. Frábær dagur.
Þórólfur og stelpurnar komu og hvöttu mig til dáða á lokakaflanum.
Rík.
Ekki ónýtt að vera á palli með þessum skvísum!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli