Ég er mikið búin að velta því fyrir mér hvort ég eigi ekki að láta þetta blogg gott heita og hætta. Ég hef það stundum á tilfinningunni að ég sé búin að blaðra um allt sem skiptir mig máli og ég finn að ég fer í hringi og endurtek mig vegna þess að lífið er pínulítið þannig. Er ég ekki búin að segja allt sem ég þarf að segja? Eftir tæpa tveggja mánaða hvíld langaði mig aftur til að setjast niður og koma hugsunum mínum í orð. Ein ástæðan er sú að ég rakst á þetta blogg og ég hafði sérstaklega gaman af því að lesa það vegna þess að ég kannaðist við höfundinn. Ég tók þátt í sjónvarpsauglýsingu fyrir Asics um daginn (n.b. var uppfyllingarefni :) og eins og gengur og gerist tók þetta heilmikinn tíma og ég væri ekki sú sem ég væri ef ég hefði ekki náð að blaðra við hálfan hópinn til að stytta mér stundir. Einn þeirra sem ég spjallaði við var höfundurinn en hann hafði verið á næringarfyrirlestri sem við Þórólfur vorum með hjá hlaupahópi FH. Hann kom til mín og þakkaði fyrir sig og sagði mér aðeins af sér og hvað hlaupin hefðu haft jákvæð áhrif á hans líf.
Í gær googlaði manneskju sem ég átti samskipti við en hafði aldrei hitt og í gamni þá googlaði ég sjálfa mig með nýja nafninu mínu (Eva Skarpaas) líka og viti menn, eitt af því sem kom upp var þetta blogg. Ég hef lesið milljón svona blogg og hef skrifað milljón svona blogg og samt fannst mér frábært að lesa það. Það er bara þannig að aldrei er góð vísa of of kveðin og á hverjum tíma er kannski einhver sem þarf akkúrat að heyra það sem maður hefur að segja.
Þannig að ég held svei mér þá að það sé smá líf í glæðunum enn og nú fer ég aftur að dásama rútínuna mína, punkta niður merkisviðburði í lífi barnanna, upplifanir úr hlaupunum, áskoranir og sigra. Eða kannski bara fyrst og fremst að nota þennan vettvang til láta allan heiminn vita hversu margt það er sem veitir mér ánægju í lífinu, að ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að ég er lukkunnar pamfíll og þar af leiðandi að springa gleði, ást og þakklæti. Gleði, ást og þakklæti. Er það ekki málið?
Nautn að horfa á þennan mann vinna á Menningarnótt. Hann lagði þvílíka alúð í verkefnin sín og við biðum þolinmóð og borguðum með ánægju fyrir listaverkið. Þetta er einmitt að vanda sig við lífið.
STÓRT LÆK :-)
SvaraEyða