20. jún. 2012

Umhugsunarvert

Félagi minn úr ÍR tók líka þátt í Mikka mús mini maraþoninu á sunnudaginn með guttanum sínum.  Þeir félagar voru á svipuðu róli og við Lilja og það ískraði í börnunum okkar af gleði.  Stundum sprettu þau úr spori, strákarnir tóku fram úr, stelpurnar tóku fram úr, stundum löbbuðu þau,  mín hneykslaðist niðrí rassgat að sumir styttu sér leið..., svo gott að stoppa á drykkjarstöðvum og fá sér vatnssopa, must að gefa öllum Mikka mús skiltunum 'four'  (Mikki bara með fjóra putta :) og það besta var að þau unnu bæði!

Ég get alveg fullyrt að við (foreldrarnir) erum vægast sagt með frekar mikið keppnisskap, það vantar ekkert upp á það en það er skilið eftir heima á svona stundum.  Krakkarnir ráða ferðinni og það má ekki á milli sjá hvort þeirra er glaðari á hlaupamyndunum.

En svona var þetta ekki hjá öllum.  Við félagarnir hittumst á brautaræfingu á mánudaginn og þegar við fórum að spjalla kom í ljós að við höfðum bæði orðið vitni að foreldrum eða fullorðnum gjörsamlega drulla yfir krakkana sína og í tveimur tilfellum tókst þeim að græta stálpaða krakka.  'Hvað er að þér drengur, drullastu nú úr sporunum, ætlaður að verða síðastur???',  var gargað á feitlaginn gutta sem var alveg búin á því og farin að hristast af ekka.  'Dísess, ég nenni sko aldrei aftur að taka þig með í eitthvað svona, þú ert gjörsamlega að drepast úr leti stelpa.'  'Hvað er eiginlega að þér, djöfull er þetta óþolandi alltaf með þig'.  Ég þekkti einn af görgurunum úr fjölmiðlunum, voða flottur listamaður...ojjj.

Úff hvað ég fékk í magann að heyra þetta.  Ef þetta er ekki til að drepa niður alla löngun hjá krökkum í að hreyfa sig þá veit ég ekki hvað.  Það getur verið skemmtilegast í heimi að klára svona þraut ef maður fær að taka hana á sínum tíma og með stuðningi en það getur líka verið hin versta martröð ef manni er þjösnað áfram umfram getu eða löngun.  


Engin ummæli:

Skrifa ummæli