Tvær Esjur, check! Var búin að ákveða að taka tvær Esjur á góðum degi í undibúningi fyrir Esjukeppnina sem verður þann 23. og á fimmtudaginn lét ég verða af því. Ég tók erfiða sprettæfingu á miðvikudaginn og fann aðeins fyrir henni sem er bara gott mál, gott fyrir hausinn að vita að maður getur þetta jafnvel með þreytu í kroppnum. Ég fór yfirvegað en að mér fannst nokkuð greitt upp fyrri ferðina, tíminn um að Steini var 37 mínútur og það kom mér á óvart, hélt ég væri hraðari. Á niðurleiðinni fann ég að ég var að reka táslurnar í smásteina og fór að hugsa um að nú þyrfti ég aldeilis að passa mig, gerist þegar fæturnir eru þreyttir. Rúllaði vel niður skriðurnar og þegar ég komst á beinan kafla... flaug ég á hausinn og skrapaði hné og olboga, ohhhhh!!! Rauk á fætur og kláraði niður á 24 mínútum, en þessi ferð var voða mikið ströggl eitthvað. Taka tvö og nú ákvað ég bara að dóla mér eins og mér sýndist, kíkti ekkert á klukkuna. Rúllaði þægilega upp og niður, giskaði á að ég væri svona 5 - 10 mínútum hægari en í fyrri ferðinni miðað við áreynsluna. Tíminn upp 37 mínútur, niður 24 mínútur! Sem sagt nákvæmlega sami tími en miklu auðveldara í seinna skiptið???
Fyrri og seinni ferðin
Eins og 6 ára...
Liljan okkar pikkaði upp enn eina pestina á föstudaginn, kom hóstandi heim úr leikskólanum og rauk svo upp í hita um nóttina. Litla skinnið hóstar og hóstar en er svo dugleg, bað um að fá að sofa í stofunni til að trufla ekki litlu systur sína. Ég náði mér líka í óþverra kvefpest á föstudaginn en sem betur fer er það bara í hausnum á mér en ekki fyrir neðan háls... Hnerra svona 50 - 60 sinnum á dag og í verstu lotunum er ekki annað hægt en að springa úr hlátri, óstöðvandi hnerri og hor út um allt, blehhh... Reglan er að sé kvefið fyrir ofan háls þá má maður sprikla aðeins og ég skottaðist smá geðheilsutúr með félögunum á laugardaginn, allt í góðu og kom betri heim.
Í dag tókum við hjónin þátt í Álafosshlaupinu, 9 km, í blíðskapar veðri með smá blæstri til að poppa þetta aðeins upp. Esjan skilar sér í brekkunum og ég fann lítinn mun hvort ég væri að hlaupa upp eða niður :) Rúllaði þetta á eintómri gleði, sá í skottið á henni Fríðu Rún og Trausta hrausta alla leiðina. Tók góðan sprett síðasta km og var 3:45 með síðasta km. Við vorum alveg í stíl hjónin, Þórólfur varð annar af körlunum og ég önnur kona. Alveg með eindæmum flott umgjörð í þessu hlaupi, allt vel merkt, ávaxta og grænmetishlaðborð eftir hlaup, allir þátttakendur fengu glaðning, við Þórólfur fengum sitt hvor úrdráttarverðlaunin og svo vegleg verðlaun fyrir 2. sætið. Komum heim með 4 margnota innkaupapoka, 3 derhúfur, kjúkling, stuttermabol og tvö flott Álafoss ullarteppi. Vorum bæði á okkar besta tíma í þessari braut, bara gaman hjá okkur!
Fystur karlar, Þórólfur, Ingvar og Bjartmar.
Fystur konur, Eva, Fríða Rún og Agnes.
Að lokum þá verð ég að henda inn mynd af www.hlaup.is úr Krabbameinshlaupinu, en hún sýnir alveg nákvæmlega hvernig mér leið í hlaupinu, svona á þetta að vera!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli