22. jún. 2012

Miðnæturhlaupið 2012

Ekki mörg hlaup sem maður mætir í alveg pollrólegur, með enga pressu um að gera neitt annað en að skemmta sér.  Miðnæturhlaupið í gær var einmitt þannig hlaup hjá mér, ég er að fara í Mt. Esja Ultra hlaupið á morgun og þó ég sé 'bara' að fara tvær ferðir þá er ekki gott að vera búin að taka það fínasta úr sér í keppnishlaupi tveim dögum fyrr.  

Ekki hægt að biðja um fallegra kvöld til að hlaupa.  Þórólfur ákvað að fara í 5 km hlaupið og kýla vel á það en ég skráði mig í 10 km.  Eins og það er öfugsnúið fyrir þá sem hlaupa ekki þá er það þannig að því lengra sem hlaupið er, því auðveldara... :)    Við hituðum upp saman og ég held að á mínum hlaupaferli hafi ég aldrei náð eins langri upphitun, tæpum 5 km!  Kvaddi Þórólf í 5 km startinu og kom mér á minn stað.  Ég fór rólega af stað og var kannski svona 6. kona fyrsta km.  Fann strax að ég var í banastuði, hafði ekkert fyrir þessu og rúllaði eins og engill.  Eftir 2 km var ég orðin 3. kona, sá í hana Fríðu Rún nokkuð á undan mér og ég vissi að Arndís leiddi en hún var langt á undan okkur.  Svo komu brekkurnar í Elliðaárdalnum og eftir allar Esjuæfingarnar þá fann ég ekkert fyrir þeim.  Gaman að komast upp að stíflu, gjörþekkja leiðina til baka og vita að það var að mestu niður í móti eða slétt.  Hrikalega gaman að finna hvað ég var sterk í löppunum og ég rúllaði þægilega alla leið í mark.  Var heldur betur hissa þegar ég sá glitta í mark klukkuna (ég fylgdist ekki með klukku á hlaupunum) og hún sýndi 40:50...  Tók smá sprett í lokin og endaði 3. kona á 41:07, fór langt fram úr eigin væntingum.  

Hitti glaðan mann í markinu (manninn minn :) en hann var að hlaupa eins og engill, tíminn 16:50 og 3. maður í mark.  Samstiga í þessu sem aldrei fyrr.  Við fengum bæklinginn Næring hlauparans og gjafabréf í Reykjavíkurmaraþon að launum.  Tókum langt og gott niðurskokk eftir hlaupið og nutum þess að hitta félaga okkar og spjalla.  Frábær dagur!

Að loknu hlaupi, Gunnar Páll tók myndina.

Fyrstu 3 konur í 10 km, Fríða Rún, Arndís og Eva.
Starfsmenn hlaupsins tóku mynd.

Fyrstu karlar í 5 km, Ármann, Sæmundur og Þórólfur.
Starfsmenn hlaupsins tóku mynd.

Nú er eins gott að koma sér í bólið og hvíla sig fyrir átök morgundagsins, það verður stuð!


Engin ummæli:

Skrifa ummæli