Já nú er ég sko alveg komin í gírinn, ja bara eins og í gamla daga. Hrikalega skemmtileg og viðburðarrík vika að baki. Byrjum á byrjuninni. Hann Gabríel fékk afleysingarvinnu við að bera út Fréttablaðið og var ekki lítið glaður að geta unnið sér inn smá aur. Ég var strax ákveðin í að hjálpa honum að komast af stað og þegar það var hringt aftur og spurt hvort hann vildi taka tvö hverfi þá héldum við það nú, við myndum rúlla því upp. Fyrsta daginn fórum við rúntinn saman og komumst að því að það rétt hafðist að taka tvö hverfi í röð þannig að við leystum málin með því að taka sitt hvort hverfið og þannig gerðist ég blaðaburðarbarn á gamals aldri. Upp kl. 5:30 á morgnana með 80 blöð, ég tók þau í töskum og lét guttann hafa kerruna. Eftir fyrsta daginn var Gabríel svo boðin fastráðning í hverfinu okkar. Við kláruðum afleysingarnar um helgina og í morgun fórum við fyrsta rúntinn saman í okkar hverfi, fer aftur með honum á morgun og svo er hann 'on his own'. Nema ég sé í stuði :Þ Ég passaði að hafa það þannig frá upphafi að ábyrgðin er hans, hann vaknar sjálfur, vekur mig, græjar blöðin í kerruna o.s.frv. Ég nördast við að 'besta' leiðina og raða úrburðarlistanum í lógíska röð en ekki húsnúmeraröð, þannig spara ég honum örugglega hálftíma í útburðinum.
Síðustu vikur hafa verið algjör draumur í hlaupunum, kroppurinn betri en nokkru sinni og Esjan er að skila sér í auknum styrk. Tók tvær Esjur í síðustu viku og læt það duga fyrir keppnina næstu helgi. Á laugardaginn tókum við hjónin þátt í Gullsprettinum á Laugarvatni en það er eitt skemmtilegasta hlaup á landinu, eða bara í heimi svei mér þá. Hef nokkrum sinnum verið með áður en síðast var það sennilega 2008. Maður lærir það strax eftir fyrsta hlaupið að það borgar sig ekki að blasta af stað í gegnum mýrarnar og skurðina, betra að fara þétt en örugglega og eiga krafta til að hlaupa vel á þeim köflum sem hægt er að hlaupa hratt. Ég var í forystu fyrsta km en þá tók ein fram úr mér og ég sá hana fjarlægjast hægt en örugglega næstu 2 - 3 km og mest hefur forskotið sennilega verið 400-500m. Ég hélt mínu plani og viti menn, þegar 2-3 km voru eftir þá sá ég að ég var farin að draga á hana aftur. Kílómeter frá markinu eða svo var ég komin í hælana á henni og á erfiðum stað þar sem maður þarf að klöngrast í gegnum runna og læti þá tók ég af skarið og náði forskotinu. Í upphituninni hafði Þórólfur farið með mig endasprettinn þannig að ég vissi nákvæmlega hvernig brautin var síðustu 400 m og þá var blastað alla leið í mark. Hrikalega gaman að ná að sigra þetta hlaup og ekki skemmdi fyrir að ég bætti brautarmetið um tæpa mínútu.
Komin út í vatnið.
Rétt áður en ég næ fyrstu konu.
Nokkrir metrar í mark!
Bara gaman hjá okkur :)
Fyrstu fimm konur.
Náðum að slaka aðeins á í Fontana fyrir verðlaunaafhendinguna og ég fékk nótt á Edduhóteli með morgunverði í verðlaun. Okkur var svo ekki til setunnar boðið því það er hefð hjá okkur stelpunum í fjölskyldunni að fara í Kvennahlaupið og að byrjaði kl. 14... Skrönsuðum í bæinn (á löglegum hraða :) náðum í mömmu og stelpurnar og skutluðumst í Garðabæinn. Hlupum lítinn hring og tókum svo þátt í skemmtuninni á eftir. Tengdapabbi sló svo alveg í gegn með því að bjóða okkur í ávaxtahlaðborð eftir hlaupið!
Við byrjuðum Þjóðhátíðardaginn á okkar venjulega sunnudagsskokki áður en við græjuðum krakkana og héldum niðrí Laugardal til að taka þátt í Mikka Mús mini maraþoninu, 4,2 km. Svo gaman hjá okkur og krakkarnir stóðu sig með einstakri prýði og það sem er mikilvægast, skemmtu sér konunglega. Fullkomin byrjun á fallegum degi. Seinniparturinn fór svo í bæjarrölt og hefðbundið 17. júní dúllerí, skemmtun á Arnarhóli, rölt í bænum og huggulegheit. Bakaði heilhveitipönnukökur með grískri jógúrt og blönduðum berjum fyrir fólkið mitt þegar við komum heim og vann mér inn þónokkur vinsældarstig fyrir vikið!
Hele familien, vel af sér vikið!
Lilja, mamma og bangsinn Eva :)
Lilja málaði sig sjálf áður en við fórum í bæinn, svaðalegt sjóræningjakvendi!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli