26. jún. 2012

Mt. Esja Ultra ll


Ég man ekki nákvæmlega hvenær það hvarflaði fyrst að mér að taka þátt í Mt. Esja Ultra hlaupinu.  Ætli það hafi ekki verið daginn eftir að ég tók u-beygjuna (27. maí) og gekk á Esjuna í fyrsta sinn í nokkur ár í stað þess að fara á Heiðmerkuræfingu.  Ég hef einu sinni áður tekið tvær Esjur í röð,  það var á afmælinu hennar mömmu árið 2008 og þá var það hluti að undirbúningi fyrir Laugaveginn.  Þá var hífandi rok og blautt úti og ég man að þetta var ekkert sérstaklega skemmtilegt, meira svona kvöl og pína...

Fyrsta ferðin.

En ég er ekki að fara Laugaveginn núna, held mig við ca. hálft maraþon og styttra þangað til hún Sonja mín er orðin stálpaðri.  Hmmm... tvær Esjur, ég get það örugglega og þá er ég með pottþétta afsökun (ástæðu) til að skottast upp á Esju hvenær sem tækifæri gefst!   Og svo var ég bara búin að skrá mig.   Viku seinna fór ég aftur og tók þá eina og hálfa Esju.  Í þetta sinn hljóp ég og já, fékk allan harðsperrupakkann aftur.  Það er víst engin leið að komast hjá því.  Fjórum dögum seinna fór ég tvær Esju í röð og hrundi svona herfilega á skallann í fyrri ferðinni.  Rispaðist á höndum og hjám en óbrotin og var ekki á því að láta það draga úr mér, kláraði seinni ferðina og ákvað með sjálfri mér að þetta væri dett ársins, þá er það bara búið og afgreitt.


Fimm dögum síðar fór ég eina ferð og könnunarleiðangur á láglendinu og tveim dögum eftir það var ég búin að finna út hvaða hring átti að hlaupa.  Ég var svo í kaffi hjá pabba og mömmu þegar mér datt allt í einu í hug að það gæti nú verið sniðugt að prófa að hlaupa þetta með stafi.  Vissi að pabbi átti göngustafi, fékk þá lánaða og tók síðustu Esjuæfinguna mína 800 m hringnum og stöfunum.  Þar með var Esjuæfingunum lokið fyrir keppni.  Mér fannst gott að hlaupa með stafina og ákvað að nota þá í keppninni.  Hvað eru þetta margar annars... jú, sex og hálf Esja samtals.  Ég fór líka nokkra góða túra í Heiðmörkina og í hólmann í Elliðaárdalnum.  Ég hljóp utanvega æfingarnar mínar á nýjum skóm sem ég hef ekki prófað áður, Asics Fuji Attack og ég var alveg hrikalega ánægð með þá.  Ég prófaði mig líka áfram með Compression sokka frá CEP og Asics og Compression buxur frá CEP á æfingunum.

Næ í gögnin í Afreksvörum.

Fékk pínu í magann 5 dögum fyrir hlaup en þá fékk ég allt í einu þreytuverk í mjóbakið og eftir brjósklosið þá vil ég bara alls ekki finna neitt fyrir bakinu!!!  Blótaði mér í sand og ösku fyrir að hafa verið svo vitlaus að vera að bera út Fréttablaðið með þungar hliðartöskur og svo er ég búin að vera að hjálpa Lilju að læra að hjóla, hlaupandi eins og rækja fram og til baka, ekki gáfulegt.  En alla vega nuddaði, rúllaði, hitaði og teygði og þegar ég var búin að hlaupa Miðnæturhlaupið var ég aðeins betri og ég fann svo sem aldrei neitt fyrir á hlaupum, bara við allt annað...  

Þórólfur tók eina áður en ég lagði af stað að heiman.

Ég tók því rólega keppnis morguninn, lagði mig aðeins aftur eftir hafragrautinn minn, fékk mér mangó/spínat/engifer drykk og svo beyglu með hnetusmjöri og sultu sem er keppnismaturinn minn.  Ég fékk nýja keppnisskó daginn fyrir hlaup, Asics Fuji Racer og fann um leið og ég mátaði þá að þetta væru skórnir í hlaupið, hrikalega léttir og þægilegir.  Var komin upp að Esjurótum tímanlega og gaman að fylgjast með hinum hlaupurunum takast á við sín verkefni.

Soffía hjálpar mér að festa rauða spjaldið á bakið en það er til að sýna keppinautunum í hvaða vegalengd maður er að keppa.  Rautt fyrir 2 ferðir, gult fyrir 5 og fjólublátt fyrir 10.  Sniðugt.

Þvílíka stemmningin á svæðinu og þegar ég var búin að græja á mig keppnisnúmer og skrá mig inn var hóað í mig í smá viðtal hjá íþróttafréttamanni Stöðvar 2.  Tók tvo 800 m hringi í upphitun, kláraði síðasta klósettstopp, kom stöfunum mínum og drykkjum fyrir á drykkjarstöðinni og skottaðist að rásmarkinu.  Get svarið fyrir að það ískraði í mér af spenningi.

Startið, spáið í þetta veður!

Ég þekkti ekkert af hinum hlaupurunum sem voru búnir að skrá sig til leiks, nema Bjössa og vissi þ.a.l. ekkert við hvern ég væri að keppa.  Ég setti mér tvö markmið, að komast undir tvo tíma og gera þetta eins vel og ég gæti burtséð frá keppni, þ.e. ekki taka því rólega þó ég væri með góða forystu.  Hljóp frekar hratt af stað litla hringinn og kippti svo með mér stöfunum á drykkjarstöðinni.  Fyrsta ferðin leið alveg ótrúlega hratt, reyndi að hlaupa alla kafla sem ég gat, meira en venjulega og aðeins lengra upp í hverja brekkur.  Þess á milli rigsaði ég eins hratt og ég gat, náði góðum takti með stöfunum og passaði að taka ekki of stór skref.  Komin upp að Steini áður en ég vissi af og sveif niður, aldrei í vandræðum og bara gaman.

Eiiinnnn....
Hringur tvö var mjög svipaður fyrri hringnum, hljóp 800 m frekar hratt en hljóp aðeins styttra upp í brekkurnar í hverjum hlaupakafla, var rétt rúmum 3 mínútum hægari upp en í þessari ferð tætti ég fram úr nokkrum sem voru á undan mér fyrri ferðina.  Allt gekk eins og í sögu og hrikalega gaman að vera komin upp aftur, fá merkt við og nú var bara að gossa niður eins og druslan dró.  Það var svo gaman að ég meina það, það sluppu út gleðióp hér og þar á leiðinni.  Hef aldrei áður hlaupið eins hratt niður eða verið eins örugg með mig.  Frábært að sjá fólkið mitt rétt fyrir markið, Þórólf, Lilju, Sonju í hlaupakerrunni og Þór tengdapabba.  Fékk heimatilbúið verðlaunaskjal frá henni Lilju og besta knús í heimi.

Nýkomin í mark með verðlaunaskjal frá Lilju :)

Eftir hlaupið röltum við Lilja 500 m upp í fjall aftur og kældum svo fæturnar í ánni áður en ég skipti um föt og fékk mér ljúffenga kókos/gulrótarsúpu með heimabökuðu brauði, nammi namm.  Eins og allt annað í þessu hlaupi voru verðlaunin framar væntingum, flottur gripur búin til úr Esju steini, CEP sokkar, mánaðarkort í Nordica Spa, 3 mánað kort hjá Tefélaginu, krem frá Jurtaapótekinu og heilmikið af alls konar fæðubótaefnum.  Þess má geta að hlaupið fékk mjög góða umfjöllun í fjölmiðlum, fleiri greinar og mikið umtal og flott innskot í íþróttafréttir á RÚV (Byrjar min 15:40).  Gott mál!
Fyrstu þrjár konur og Liljan mín.

Gaman að skoða millitímana eftir hlaupið, ég hleyp fyrri hringinn, 800 m plús Esja upp að Steini á 34:34 og niður aftur á 18:38.  Seinni ferðin var á 37:58 upp og 18:29 niður aftur.  Ég var fyrsta konan en 5. í heildina af 56 keppendum sem luku keppni.  Hér eru úrslitin.  Myndirnar eru teknar af Elísabetu Margeirsdóttur, Gunnar Ármannssyni og Þórólfi.  Geri ráð fyrir að ég megi nota þær, annars verðið þið bara að skamma mig og ég tek þær út :)   Hvet alla sem geta tekið þátt að gera það að ári, frábær upplifun og takk fyrir mig.

24. jún. 2012

Esjan

Í dag fékk Lilja að ráða dagskánni hjá okkur.  Hún var svo ótrúlega góð og þolinmóð að bíða eftir mömmu sinni í Esjuhlaupinu í gær að hún átti það svo sannarlega skilið.  Og hvað langar þig til að gera í dag Lilja?  Fara í Nauthólsvík?  Í sund?  Út að hjóla...?  Óhætt að segja að ég hafi verið svolítið skrítin á svipin þegar mín tilkynnti okkur að hún vildi labba upp Esjuna, alla leið sko og ég ætla að skrifa í bókina!   Öhhh allt í lagi...

Varð að hafa þessa einstöku mynd sem ég náði af karlmanni sem er að gera tvennt í einu, setja matvinnsluvélina í gang og hella einhverju í deigið...  Þórólfur að útbúa nesti fyrir fjallaferðina.

Til í tuskið við Esjurætur.

Komin á fyrstu stöðina.


Önnur stöð og eintóm gleði.

Sonja fussar bara yfir þessum látum í okkur og nagar saltstöng.

Þriðja stöðin og sú síðasta fyrir Stein.

Tími til að hvíla lúin bein og hlaða batteríin.  Lilja var svo áköf í að komast alla leið og skrifa í bókina að við rétt fengum að setjast niður áður en hún rak okkur af stað aftur með harðri hendi.

Sigurvegari!

Pabbi og Sonja síðasta spölinn upp að Steini.

Ómetanlegt að sjá stoltið skína úr litla fallega andlitinu.

Fyrsta ferðin hennar Sonju upp að Steini og sennilega ekki sú síðasta.  Bara orðin nokkuð sátt við bröltið í okkur.

Skjalfest.

Lilja búin að skrifa í bókina: Lilja Þórólfsdóttir fór á Esjuna og svo skrifaði hún fyrir Sonju líka.

Komin niður skriðurnar á fjórðu stöðina, pjúff.

Jeiii komin alla leið niður og við mæðgur tíndum helling af blómum á lokaspottanum.

Svo gott að kæla lúna fætur í læknum.

Ein af okkur öllum saman áður en við lögðum í hann í bæinn.

Alveg búin á því litla skinnið, bárum hana inn úr bílnum og upp í sófa þar sem hún hraut í klukkutíma áður en við bárum hana inn í ból.

Einn af þessum dögum sem ég á aldrei eftir að gleyma, ótrúlega stolt af litla harðjaxlinum mínum.  Blogga bara um Esjuhlaupið mitt á morgun, þetta er dagurinn hennar Lilju og afrekið er hennar.

22. jún. 2012

Miðnæturhlaupið 2012

Ekki mörg hlaup sem maður mætir í alveg pollrólegur, með enga pressu um að gera neitt annað en að skemmta sér.  Miðnæturhlaupið í gær var einmitt þannig hlaup hjá mér, ég er að fara í Mt. Esja Ultra hlaupið á morgun og þó ég sé 'bara' að fara tvær ferðir þá er ekki gott að vera búin að taka það fínasta úr sér í keppnishlaupi tveim dögum fyrr.  

Ekki hægt að biðja um fallegra kvöld til að hlaupa.  Þórólfur ákvað að fara í 5 km hlaupið og kýla vel á það en ég skráði mig í 10 km.  Eins og það er öfugsnúið fyrir þá sem hlaupa ekki þá er það þannig að því lengra sem hlaupið er, því auðveldara... :)    Við hituðum upp saman og ég held að á mínum hlaupaferli hafi ég aldrei náð eins langri upphitun, tæpum 5 km!  Kvaddi Þórólf í 5 km startinu og kom mér á minn stað.  Ég fór rólega af stað og var kannski svona 6. kona fyrsta km.  Fann strax að ég var í banastuði, hafði ekkert fyrir þessu og rúllaði eins og engill.  Eftir 2 km var ég orðin 3. kona, sá í hana Fríðu Rún nokkuð á undan mér og ég vissi að Arndís leiddi en hún var langt á undan okkur.  Svo komu brekkurnar í Elliðaárdalnum og eftir allar Esjuæfingarnar þá fann ég ekkert fyrir þeim.  Gaman að komast upp að stíflu, gjörþekkja leiðina til baka og vita að það var að mestu niður í móti eða slétt.  Hrikalega gaman að finna hvað ég var sterk í löppunum og ég rúllaði þægilega alla leið í mark.  Var heldur betur hissa þegar ég sá glitta í mark klukkuna (ég fylgdist ekki með klukku á hlaupunum) og hún sýndi 40:50...  Tók smá sprett í lokin og endaði 3. kona á 41:07, fór langt fram úr eigin væntingum.  

Hitti glaðan mann í markinu (manninn minn :) en hann var að hlaupa eins og engill, tíminn 16:50 og 3. maður í mark.  Samstiga í þessu sem aldrei fyrr.  Við fengum bæklinginn Næring hlauparans og gjafabréf í Reykjavíkurmaraþon að launum.  Tókum langt og gott niðurskokk eftir hlaupið og nutum þess að hitta félaga okkar og spjalla.  Frábær dagur!

Að loknu hlaupi, Gunnar Páll tók myndina.

Fyrstu 3 konur í 10 km, Fríða Rún, Arndís og Eva.
Starfsmenn hlaupsins tóku mynd.

Fyrstu karlar í 5 km, Ármann, Sæmundur og Þórólfur.
Starfsmenn hlaupsins tóku mynd.

Nú er eins gott að koma sér í bólið og hvíla sig fyrir átök morgundagsins, það verður stuð!


20. jún. 2012

Umhugsunarvert

Félagi minn úr ÍR tók líka þátt í Mikka mús mini maraþoninu á sunnudaginn með guttanum sínum.  Þeir félagar voru á svipuðu róli og við Lilja og það ískraði í börnunum okkar af gleði.  Stundum sprettu þau úr spori, strákarnir tóku fram úr, stelpurnar tóku fram úr, stundum löbbuðu þau,  mín hneykslaðist niðrí rassgat að sumir styttu sér leið..., svo gott að stoppa á drykkjarstöðvum og fá sér vatnssopa, must að gefa öllum Mikka mús skiltunum 'four'  (Mikki bara með fjóra putta :) og það besta var að þau unnu bæði!

Ég get alveg fullyrt að við (foreldrarnir) erum vægast sagt með frekar mikið keppnisskap, það vantar ekkert upp á það en það er skilið eftir heima á svona stundum.  Krakkarnir ráða ferðinni og það má ekki á milli sjá hvort þeirra er glaðari á hlaupamyndunum.

En svona var þetta ekki hjá öllum.  Við félagarnir hittumst á brautaræfingu á mánudaginn og þegar við fórum að spjalla kom í ljós að við höfðum bæði orðið vitni að foreldrum eða fullorðnum gjörsamlega drulla yfir krakkana sína og í tveimur tilfellum tókst þeim að græta stálpaða krakka.  'Hvað er að þér drengur, drullastu nú úr sporunum, ætlaður að verða síðastur???',  var gargað á feitlaginn gutta sem var alveg búin á því og farin að hristast af ekka.  'Dísess, ég nenni sko aldrei aftur að taka þig með í eitthvað svona, þú ert gjörsamlega að drepast úr leti stelpa.'  'Hvað er eiginlega að þér, djöfull er þetta óþolandi alltaf með þig'.  Ég þekkti einn af görgurunum úr fjölmiðlunum, voða flottur listamaður...ojjj.

Úff hvað ég fékk í magann að heyra þetta.  Ef þetta er ekki til að drepa niður alla löngun hjá krökkum í að hreyfa sig þá veit ég ekki hvað.  Það getur verið skemmtilegast í heimi að klára svona þraut ef maður fær að taka hana á sínum tíma og með stuðningi en það getur líka verið hin versta martröð ef manni er þjösnað áfram umfram getu eða löngun.  


18. jún. 2012

Gullsprettur, Kvennahlaup og Mikka Mús maraþon

Já nú er ég sko alveg komin í gírinn, ja bara eins og í gamla daga.  Hrikalega skemmtileg og viðburðarrík vika að baki.  Byrjum á byrjuninni.  Hann Gabríel fékk afleysingarvinnu við að bera út Fréttablaðið og var ekki lítið glaður að geta unnið sér inn smá aur.  Ég var strax ákveðin í að hjálpa honum að komast af stað og þegar það var hringt aftur og spurt hvort hann vildi taka tvö hverfi þá héldum við það nú, við myndum rúlla því upp. Fyrsta daginn fórum við rúntinn saman og komumst að því að það rétt hafðist að taka tvö hverfi í röð þannig að við leystum málin með því að taka sitt hvort hverfið og þannig gerðist ég blaðaburðarbarn á gamals aldri.  Upp kl. 5:30 á morgnana með 80 blöð, ég tók þau í töskum og lét guttann hafa kerruna.  Eftir fyrsta daginn var Gabríel svo boðin fastráðning í hverfinu okkar.  Við kláruðum afleysingarnar um helgina og í morgun fórum við fyrsta rúntinn saman í okkar hverfi, fer aftur með honum á morgun og svo er hann 'on his own'.  Nema ég sé í stuði :Þ   Ég passaði að hafa það þannig frá upphafi að ábyrgðin er hans, hann vaknar sjálfur, vekur mig, græjar blöðin í kerruna o.s.frv.  Ég nördast við að 'besta' leiðina og raða úrburðarlistanum í lógíska röð en ekki húsnúmeraröð, þannig spara ég honum örugglega hálftíma í útburðinum.  

Síðustu vikur hafa verið algjör draumur í hlaupunum, kroppurinn betri en nokkru sinni og Esjan er að skila sér í auknum styrk.  Tók tvær Esjur í síðustu viku og læt það duga fyrir keppnina næstu helgi.  Á laugardaginn tókum við hjónin þátt í Gullsprettinum á Laugarvatni en það er eitt skemmtilegasta hlaup á landinu, eða bara í heimi svei mér þá.  Hef nokkrum sinnum verið með áður en síðast var það sennilega 2008.  Maður lærir það strax eftir fyrsta hlaupið að það borgar sig ekki að blasta af stað í gegnum mýrarnar og skurðina, betra að fara þétt en örugglega og eiga krafta til að hlaupa vel á þeim köflum sem hægt er að hlaupa hratt.  Ég var í forystu fyrsta km en þá tók ein fram úr mér og ég sá hana fjarlægjast hægt en örugglega næstu 2 - 3 km og mest hefur forskotið sennilega verið 400-500m.  Ég hélt mínu plani og viti menn, þegar 2-3 km voru eftir þá sá ég að ég var farin að draga á hana aftur.  Kílómeter frá markinu eða svo var ég komin í hælana á henni og á erfiðum stað þar sem maður þarf að klöngrast í gegnum runna og læti þá tók ég af skarið og náði forskotinu.  Í upphituninni hafði Þórólfur farið með mig endasprettinn þannig að ég vissi nákvæmlega hvernig brautin var síðustu 400 m og þá var blastað alla leið í mark.  Hrikalega gaman að ná að sigra þetta hlaup og ekki skemmdi fyrir að ég bætti brautarmetið um tæpa mínútu.

Komin út í vatnið.

Rétt áður en ég næ fyrstu konu.

Nokkrir metrar í mark!
Bara gaman hjá okkur :)

Fyrstu fimm konur.

Já, já, gamla með Kára Steini!

Náðum að slaka aðeins á í Fontana fyrir verðlaunaafhendinguna og ég fékk nótt á Edduhóteli með morgunverði í verðlaun.  Okkur var svo ekki til setunnar boðið því það er hefð hjá okkur stelpunum í fjölskyldunni að fara í Kvennahlaupið og að byrjaði kl. 14...  Skrönsuðum í bæinn (á löglegum hraða :) náðum í mömmu og stelpurnar og skutluðumst í Garðabæinn.  Hlupum lítinn hring og tókum svo þátt í skemmtuninni á eftir.  Tengdapabbi sló svo alveg í gegn með því að bjóða okkur í ávaxtahlaðborð eftir hlaupið!
Stelpur í stuði í Kvennahlaupinu


Við byrjuðum Þjóðhátíðardaginn á okkar venjulega sunnudagsskokki áður en við græjuðum krakkana og héldum niðrí Laugardal til að taka þátt í Mikka Mús mini maraþoninu, 4,2 km.  Svo gaman hjá okkur og krakkarnir stóðu sig með einstakri prýði og það sem er mikilvægast, skemmtu sér konunglega.  Fullkomin byrjun á fallegum degi.  Seinniparturinn fór svo í bæjarrölt og hefðbundið 17. júní dúllerí, skemmtun á Arnarhóli, rölt í bænum og huggulegheit.  Bakaði heilhveitipönnukökur með grískri jógúrt og blönduðum berjum fyrir fólkið mitt þegar við komum heim og vann mér inn þónokkur vinsældarstig fyrir vikið!
Hele familien, vel af sér vikið!
Lilja, mamma og bangsinn Eva :)

Lilja málaði sig sjálf áður en við fórum í bæinn, svaðalegt sjóræningjakvendi!



12. jún. 2012

Glæný Eva

Það duga engin lýsingarorð yfir hversu vænt mér þykir um hana mömmu mína og það er langt síðan ég fór að hugsa um að mig langaði til að kenna mig við hana, eins og algengt er orðið í dag.  Mamma er norsk og heitir Gerd og Gerddóttir var einhvern veginn ekki alveg að virka en hún á líka ættarnafn sem okkur þykir vænt um.  Ég fékk sparkið í rassinn sem ég þurfti fyrir rúmri viku, hysjaði upp um mig, lagðist í rannsóknarvinnu og gekk í málið.

Í dag fékk ég staðfestingu í pósti frá Þjóðskránni.  Beiðni þín um nafnabreytingu hefur verið samþykkt:


Ég var skýrð í höfuðið á henni Evu frænku minni Skarpaas, systur mömmu, en við misstum hana fyrir mörgum árum úr krabbameini, þvílíkur harmdauði.  Mér þótti óendanlega vænt um hana Evu frænku, sem var alltaf kölluð Stor-Eva í fjölskyldunni eftir að ég fékk nafnið mitt og þá var ég að sjálfsögðu Lill-Eva.  Svona var það líka þó ég hafi fljótt orðið höfðinu hærri en hún, ég var Lill-Eva.  Enn þann dag í dag eiga ættingjar mínir í Norge til að kalla mig Lill-Eva.  Ég er staðráðin í að bera nafnið hennar Evu frænku minnar með sóma og ætli ég sé ekki fyrst tilbúin til þess núna.

Ég sérstaklega ánægð með nafna-afmælisdaginn minn, þann 12. júní,  því honum deili ég með vinkonu minni sem mér þykir líka óendanlega vænt um, já alveg út fyrir endimörk alheimsins skal ég segja ykkur <3

Dagurinn var góður að öllu leyti.  Ég byrjaði á að skottast upp Esjuna, sem er klárlega besta leiðin til að leggja grunn að góðum degi.  Á heimleiðinni kom ég við í Erninum og verslaði mér æðislegt fjallahjól sem ég á eftir að njóta bæði í frístundum og sem farartækis í vinnu og fleira.  Þegar ég kom heim fékk ég fleiri góðar fréttir, Gabríel er komin með fasta vinnu í að bera út Fréttablaðið í hverfinu okkar og við mæðgin tökum fyrstu vaktina saman í fyrramálið.  

Nýja hjólið mitt!


Nú sit ég hérna, með rauðvínstár í 'einari' og lífrænt 85% súkkulaði í 'hinari', börnin sofnuð og ég bíð þess að fá bónda minn heim úr sendiför með risakaktusinn okkar.  Þorðum ekki annað en að koma honum í fóstur hjá tengdapabba þangað til Sonja er komin með nógu mikið vit í kollinn til að láta hann eiga sig.  

Læfs gúdd?  
Újeee!



10. jún. 2012

Tvær Esjur og Álafosshlaupið 2012

Tvær Esjur, check!  Var búin að ákveða að taka tvær Esjur á góðum degi í undibúningi fyrir Esjukeppnina sem verður þann 23. og á fimmtudaginn lét ég verða af því.  Ég tók erfiða sprettæfingu á miðvikudaginn og fann aðeins fyrir henni sem er bara gott mál, gott fyrir hausinn að vita að maður getur þetta jafnvel með þreytu í kroppnum.  Ég fór yfirvegað en að mér fannst nokkuð greitt upp fyrri ferðina, tíminn um að Steini var 37 mínútur og það kom mér á óvart, hélt ég væri hraðari.  Á niðurleiðinni fann ég að ég var að reka táslurnar í smásteina og fór að hugsa um að nú þyrfti ég aldeilis að passa mig, gerist þegar fæturnir eru þreyttir.  Rúllaði vel niður skriðurnar og þegar ég komst á beinan kafla... flaug ég á hausinn og skrapaði hné og olboga, ohhhhh!!!   Rauk á fætur og kláraði niður á 24 mínútum, en þessi ferð var voða mikið ströggl eitthvað.  Taka tvö og nú ákvað ég bara að dóla mér eins og mér sýndist, kíkti ekkert á klukkuna.  Rúllaði þægilega upp og niður, giskaði á að ég væri svona 5 - 10 mínútum hægari en í fyrri ferðinni miðað við áreynsluna.  Tíminn upp 37 mínútur, niður 24 mínútur!  Sem sagt nákvæmlega sami tími en miklu auðveldara í seinna skiptið???

Fyrri og seinni ferðin

Eins og 6 ára...

Liljan okkar pikkaði upp enn eina pestina á föstudaginn, kom hóstandi heim úr leikskólanum og rauk svo upp í hita um nóttina.  Litla skinnið hóstar og hóstar en er svo dugleg, bað um að fá að sofa í stofunni til að trufla ekki litlu systur sína.  Ég náði mér líka í óþverra kvefpest á föstudaginn en sem betur fer er það bara í hausnum á mér en ekki fyrir neðan háls...  Hnerra svona 50 - 60 sinnum á dag og í verstu lotunum er ekki annað hægt en að springa úr hlátri, óstöðvandi hnerri og hor út um allt, blehhh...  Reglan er að sé kvefið fyrir ofan háls þá má maður sprikla aðeins og ég skottaðist smá geðheilsutúr með félögunum á laugardaginn, allt í góðu og kom betri heim.

Í dag tókum við hjónin þátt í Álafosshlaupinu, 9 km, í blíðskapar veðri með smá blæstri til að poppa þetta aðeins upp.  Esjan skilar sér í brekkunum og ég fann lítinn mun hvort ég væri að hlaupa upp eða niður :)   Rúllaði þetta á eintómri gleði, sá í skottið á henni Fríðu Rún og Trausta hrausta alla leiðina.  Tók góðan sprett síðasta km og var 3:45 með síðasta km.  Við vorum alveg í stíl hjónin, Þórólfur varð annar af körlunum og ég önnur kona.  Alveg með eindæmum flott umgjörð í þessu hlaupi, allt vel merkt, ávaxta og grænmetishlaðborð eftir hlaup, allir þátttakendur fengu glaðning, við Þórólfur fengum sitt hvor úrdráttarverðlaunin og svo vegleg verðlaun fyrir 2. sætið.  Komum heim með 4 margnota innkaupapoka, 3 derhúfur, kjúkling, stuttermabol og tvö flott Álafoss ullarteppi.  Vorum bæði á okkar besta tíma í þessari braut, bara gaman hjá okkur!  

Fystur karlar, Þórólfur, Ingvar og Bjartmar.
Fystur konur, Eva, Fríða Rún og Agnes.

Að lokum þá verð ég að henda inn mynd af www.hlaup.is úr Krabbameinshlaupinu, en hún sýnir alveg nákvæmlega hvernig mér leið í hlaupinu, svona á þetta að vera!


4. jún. 2012

Lýsi, himneskur hafragrautur og ein og hálf Esja í morgunmat

Þvílík veðurblíða sem við njótum.  Maður nær að njóta þess enn betur þegar þetta eru svona margir dagar í röð.  En til þess að leggja grunn að góðum degi og hafa orku í að gera allt það skemmtilega sem manni langar til að gera, þá mæli ég með lýsi, himneskum hafragraut og einni og hálfri Esju í morgunmat!

Er með smá Ragnar Reykás syndrome.  Eftir að hafa ákveðið að vera fókuseruð á eitt markmið í hlaupunum, þ.e. að hlaupa 10 km á undir 40 mínútum, þá er ég aðeins farin að efast um að það sé það rétta fyrir mig.  Í síðustu viku var ég á leiðinni upp í Heiðmörk þegar ég stóðst ekki mátið og fór í staðinn upp á Esju.  Ástæðan fyrir því að ég hef ekki farið fyrr, er að maður fær 5 daga harðsperrur eftir fyrstu Esjuna að vori, ekkert við því að gera og það var einhvern veginn aldrei rétti tíminn í það.  En alla vega, stóðst ekki mátið, ákvað að GANGA upp og niður, klára málið og taka út mínar harðsperrur.  Þvílík gleði að komast upp á fjöll og á stígana.  Ég er líka undanfarið búin að hlaupa heilmikið í Hólmanum og Heiðmörkinni, elska að hlaupa svona út í móa.  Og þá fer maður að spá... á ég að fókusera eingöngu á sub 40 í götuhlaupi á malbiki, jafnvel á kostnað þess sem mér finnst skemmtilegra, af því bara?  Eða eru meiri líkur á að ég nái sub 40 markmiðinu mínu ef ég er að gera fullt af öðrum skemmtilegum hlutum líka og það verði meiri svona bónus þegar þar að kemur.  Svei mér þá :)

Alla vega þá skráði ég mig í Mt. Esja Ultra Trail hlaupið og ætla að fara tvær ferðir þvert ofan í öll sub 40 plön, thí hí.  Fór smá generalprufu í gær morgun, hljóp fyrstu Esjuna mína í nokkur ár og tók svo hálfa í viðbót til að æfa mig aðeins betur í niðurhlaupinu.  Hrikalega gaman, sé að ég ræð vel við tvær Esjur og nú hlakka ég bara til.

Við tókum líka þátt í Sjómannadagshátíðarhöldunum niðrí bæ í gær.  Lilja var að missa sig af spenningi, búin að lesa dagskránna fram og til baka og rétt áður en við lögðum í hann skaust hún út í garð og kom til baka með fullt fangið af blómum.  'Ég ætla að gleðja leikarana og söngvarana og þakka fyrir mig.  Ég ætla sko að vera hugrökk og láta þau fá blómin, í alvöru mamma'.  (Hvaðan kemur þessi stelpa eiginlega :)

Eva appelsína með blómið sitt og Lilja fiðrildi.

Við sáum Sveppa og Villa sem voru alveg með eindæmum lélegir (fengu endin blóm frá minni... thíhí) og buðu krökkunum upp á þvílíkt metnaðarlausa drasl dagskrá að ég hef bara einu sinni eða tvisvar séð annað eins.  Í alvöru til háborinnar skammar.  En svo komu stelpurnar úr Söngvaborg og voru með flott atriði, Sóli spilaði á gítar og söng með krökkunum, fínt hjá honum og að lokum sáum við skemmtilegt atriði úr Ávaxtakörfunni.  Lilja fékk andlitsmálun og það var verið að gefa ís og kleinuhringi á svæðinu.  Ég hafði ekki hugmynd um hversu fínt hafnarsvæðið er orðið, snyrtilegt og fínt og nóg af litlum krúttlegum stöðum til að fá sér snarl.

Svipmyndir frá Sjómannadeginum.

Við Sonja áttum svo stefnumót við stelpurnar úr bankanum (mömmuhópinn) og krakkana í eftirmiðdaginn.  Frábært fyrir Sonju að komast í tæri við aðra krakka og mömmuna að komast í góðan félagsskap með tilheyrandi gúmmelaði hjá listakokki.  

Play date

Ja það er eins gott að leggja góðan grunn að svona viðburðarríkum dögum og þá er algjörlega nauðsynlegt að vera búin að fá sér góðan morgunmat og taka út hreyfingarpakkann til þess að maður njóti dagsins í botn. Hrundi inní rúm klukkan hálf tíu í gærkvöldi og rankaði ekki við mér fyrr en í morgun, svona á þetta vera!

p.s. Lilja og Þórólfur voru á forsíðu Moggans í dag!