14. maí 2012

Skipt um skoðanir og sprett úr spori

Ein af þessum allt að gerast vikum liðin og svo sem alveg nóg framundan...  Ég var búin að skrá mig í djamm ferð með vinnunni á föstudaginn.  Planið var að bruna upp í sveit, útivera og fjör, pínu sukk, matur og tjútt fram eftir nóttu.  Hljómaði mjög vel fyrir nokkrum vikum (þegar ég skráði mig :) en þegar nær dró þá fann ég að mig langaði frekar að eyða deginum með fólkinu mínu.  Það var nefnilega sveitaferð í leikskólanum hennar Lilju sama dag.  Tókum Sonju með og ég sé ekki eftir því, frábær dagur hjá okkur.


Ég var líka búin að skrá mig í Kópavogsþríþraut fyrir löngu síðan en svo tognaði ég í lærinu og fékk kvef dauðans þannig að það var lítið úr undibúningi.  Ætlaði nú samt að láta vaða svo lengi sem ég væri orðin algóð í lærinu en eftir test á brautinni á miðvikudaginn fann ég að ég var ekki alveg klár í slaginn og frú skynsöm ákvað að segja pass.  Í staðinn fórum við hjónin á æfingu í Heiðmörkina, fengum einkaþjálfun í þetta sinn.  Það eru tvö ár síðan ég hljóp síðast í Heiðmörkinni (out síðasta sumar með bumbuna) og þvílík gleði.  Það er svo ótrúlega fallegt og skemmtilegt að hlaupa um stígana úti í náttúrunni, mmmmm....   Hlupum 21,5 km sem er það lengsta sem ég hef hlaupið eftir burð og ég var orðin svaðalega lúin eftir 16.  Man ekki eftir að hafa orðið svona þreytt á hlaupum í laaaangan tíma en þess ánægjulegra að komast í höfn og svo gott að finna aðeins fyrir átökunum í kroppnum, þ.e. á jákvæðan hátt.  Já, þetta var nefnilega fyrsti hlaupatúrinn frá því í Flóanum sem ég veit ekki af lærinu og fann ekkert fyrir stífleika eftir hlaup.  Jibbíkæjeiii...  Er farin að skoða hlaupadagskránna aftur :)

Við fórum í skemmtilegt (hlaupa) barna afmæli í eftirmiðdaginn en þar voru 10-12 krakkar allir fæddir 2011!  Sonja alveg í essinu sínu að skoða og leika við jafnaldra sína.  Þaðan lá svo leiðin í næstu sveit... í Reykjanesbæ.  Þórólfur vann gistinótt á Hótel Keflavík í Reykjanesmaraþoninu í fyrra og eftir að hafa reynt að nýta hana í rómantíska ferð fyrir okkur án árangurs, ákváðum við að taka stelpurnar með og skoða listahátíð barnanna sem var á dagskrá um helgina.  Við fórum í Víkingaheima, skoðuðum Íslending og útbjuggum víkíngaföt á bangsann hennar Lilju.  Við fórum líka út að borða og komum okkur svo fyrir í notalegu herbergi, spiluðum og höfðum það kósí.



Á sunnudaginn tókum við daginn snemma, Þórólfur og krakkarnir spenntir að komast í hótel morgunmatinn.  Ég er svo mikil lúðakona að ég tók delúx hafragrautinn minn með mér í nesti :þ   Hann er algjörlega það besta sem ég veit og ég tímdi ekki að skipta honum út fyrir eitthvað annað gums.  Eftir smá slökun fórum við í Vatnaveröldina sem kom verulega á óvart.  Frábær laug eða laugar fyrir barnafólk.  Nóg af dóti og skipulögð þannig að við gátum fylgst með báðum stelpunum í einu, ekkert stress.  Mæli eindregið með því að skjótast í dagsferð með ungana, alveg þess virði.  Eftir sundferðina heimsóttum við listasýningu leikskólabarna á Duus, Skessuna í hellinum og enduðum á Víkingaheimum þar sem við lærðum að flétta flott vinabönd og búa til lyklakyppur.

Í tilefni mæðradagsins var haldin Sushi veisla þegar við komum heim en það er uppáhald mömmunar (en ekkert endilega hinna).  Í þetta sinn fengum við sushi frá Tokyo sushi í Glæsibæ sem var bara alveg frábært.   Á morgun fer stóri strákurinn okkar til Svíþjóðar í keppnisferð í körfubolta.  Veit að það verður ótrúlega gaman hjá honum en pínu skrítið að senda hann 'einan' út í heim.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli