7. maí 2012

Ég er hlaupari

Í dag eru nákvæmlega 10 ár síðan ég læddist út í fyrsta sinn í skjóli myrkurs og hljóp lítinn hring í hverfinu.  Ég kom heim og skrifaði vegalengdina niður í litla bók.  Daginn eftir fór ég aftur sama hringinn og daginn þar á eftir. Nokkrum dögum síðar fór ég pínulítið lengra.  Ég fékk risastórar blöðrur innan á iljarnar og eftir tvær vikur á gömlu strigaskónum ákvað ég að kaupa alvöru hlaupaskó.  Fyrstu blöðrurnar voru grónar en ég fékk annan umgang á nýju hlaupaskónum.  Tveim vikum síðar fékk ég innlegg í hlaupaskóna og ójá, þriðja umferð af blöðrum innan á iljunum en það var líka í síðasta sinn.  Ég hafði lesið einhvers staðar að ef ég myndi halda út í 6 vikur þá væri ég orðinn 'hlaupari' og mig langaði til að verða svoleiðis.  Ég hef aldrei litið til baka og það hefur aldrei hvarflað að mér að hætta. 

Ég gleymi aldrei fyrsta keppnishlaupinu mínu en það var NFR hlaupið, 10 km þann 8. júlí 2002.  Við Þórólfur hlupum saman og stefndum á að hlaupa á innan við klukkutíma, sem við og gerðum, tíminn var 54:39.  Fimm dögum seinna hlupum við í H2O hlaupinu 10 km og tveim vikum seinna 10 km í Ármannshlaupinu.  Í Brúarhlaupinu sama ár í september rauf ég 50 mínútna múrinn og hljóp á 48:46.  Í því hlaupi gaf ég eftir á endasprettinum og vinkona mín var tveim sekúndum fljótari í mark.  Ég man það eins og það hafi gerst í gær að þann daginn ákvað ég að ALDREI myndi ég tapa aftur á endaspretti!  Held ég hafi staðið við það, man ekki betur.  Viku síðar keppti ég í Fjölnishlaupinu og varð 2. kona í mark og fékk mín fyrstu verðlaun á íþróttaferlinum.  Ég get svarið fyrir það, ég snerti ekki jörðina í marga daga á eftir.  Þegar maður hefur fengið smjörþefinn af pallinum þá er hann ómótstæðilegur.

Ég man vel eftir því þegar ég keypti fyrstu hlaupabuxurnar og ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að fara út að hlaupa í þeim hérna í bænum, beið með að prófa þær þangaði til ég fór í heimsókn til Orra bróður á Akureyri.  Ég á þær ennþá.  

Mér reiknast til að ég hafi tekið þátt í 208 keppnum í hlaupum, hjólreiðum og tví/þríþraut og oftar en ekki verið á verðlaunapalli.  Ég hef verið Íslandsmeistari í 5000 m hlaupi, liðakeppni í víðavangshlaupi, Laugavegs Ultra maraþoni, Hálfum járnkarli (setti Íslandsmet) og í götureiðhjólreiðum fyrir utan alla titlana í öldungaflokki.  Ég hef hlaupið 3 maraþon á ferlinum og hljóp á 5. besta tíma íslenskrar konu  frá upphafi árið 2008 á afmælinu mínu í Kaupmannahafnarmaraþoni (3:09).  Sigurinn í Laugavegshlaupinu það ár er sennilega sá sætasti á ferlinum.  Eitt mesta lánið mitt sem hlaupara er að eiga maka sem er líka hlaupari og skilur þetta allt saman.

Á þessum 10 árum hef ég hlaupið samtals 19.756 km sem er rétt tæplega hálfa leið í kringum hnöttinn og þá er að sjálfsögðu markmið að klára hringinn fyrir fimmtugt!  Á þessum 10 árum hef ég þurft að kljást við nokkur meiðsl en engin alvarleg.  Ég hef hlaupið í gegnum 6 óléttur, fjóra missi og 2 fullar meðgöngur og skotið tveimur dásamlegum manneskjum í heiminn á mettíma.  Í dag er ég 40 ára og nákvæmlega 40 kílóum léttari en ég var þegar ég var tvítug.

Hlaupin hafa kennt mér að maður uppsker eins og maður sáir og það er dýrmæt lexía.  Í gegnum hlaupin hef ég kynnst því fólki sem mér þykir hvað mest til koma í lífinu og því aumasta.  Það er gott að kunna að þekkja bæði.  Ég væri ekki sú manneskja sem ég er í dag ef ég hefði ekki farið að hlaupa og ég er ánægð með manneskjuna sem ég sé í speglinum á morgnana, mér þykir vænt um hana.  Hver er ég?  Ég er dóttir, systir, mamma, eiginkona, vinur, félagi, góð, vond, stríðnispúki, sigurvegari og svo ótal margt annað.  

Og já, ég er hlaupari.

3 ummæli:

  1. Og þú ert vinkona mín! Jibbíjei!!! Til hamingju með 10 ára afmælið, elsku vinkona :)

    SvaraEyða
  2. Frábær hlaupaferill og margir sigrar. Ég er líka hlaupari, þó ekki svona ofurhlaupari eins og þú og mér finnst mjög gaman að fylgjast með afrekum þínum. Þú er frábær fyrirmynd...til hamingju með daginn

    SvaraEyða
  3. Þorbjörg Ósk Pétursdóttir1. júlí 2012 kl. 11:19

    Sæl Eva, datt inn á bloggsíðuna þína og heillaðist svo af gleðinni í kringum þig og hlaupasigrum, að ég bakkað alltaf aftar og aftar til að lesa meira. Frábært að lesa um upphaf og ástæðu þess að þú fórst að hlaupa fyrir 10 árum. Hef reyndar heyrt söguna þína 2var á fyrirlestrum og dáðst að þér. Mér finnst þú vera náttúru talent í hlaupum ef fyrsta 10km hlaupið þitt er á 54 mín. Margir yrðu ánægðir að hlaupa á um og rétt yfir klst. Ótrúlegur keppniskraftur í þér strax í upphafi og er enn í dag. Þú ert frábær fyrirmynd allra hlaupara og þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref í hlaupum. Gaman að fylgjast með þér og til hamningju með alla sigrana þína í lífinu.

    SvaraEyða