25. maí 2012

Meiri vikan!

Fyrir viku síðan, á föstudagskvöldið, fór stóra lufs (Lilja) að kvarta undan magapínu og klukkutíma seinna kom fyrsta gusan.  Þvílík og önnur eins gubbupest, hún var alveg á röngunni litla skinnið langt fram eftir nóttu og foreldrarnir frekar sloj líka.  Hún var svo eftir sig eftir pestina að hún var heima í þrjá daga að jafna sig almennilega og ná kröftum aftur.  

Lilja að jafna sig eftir pestina með Gatorade. 

Systurnar að leika í herberginu sínu.

Við áttum von á honum Gabríel okkar heim frá Svíþjóð á mánudagskvöldið úr 6 daga keppnisferð.  Við vorum búin að fá pössun til að geta bæði farið til Keflavíkur og tekið á móti okkar manni.  Ég fór á sprettæfingu, þvílíkt gaman í bongóblíðu, heim í sturtu, var rétt búin að renna niður síðasta bitanum af kvöldmatnum og barnapían á leiðinni upp tröppurnar þegar hmmmmþ... Voðalega er ég eitthvað skrítin.  10 mínútum seinna var ljóst að ég var ekki að fara eitt né neitt nema inn í rúm.  Og svo byrjaði ballið en ég hef aldrei upplifað aðra eins vanlíðan og gubbupest, ojjjj...    Þórólfur var farin að ná í strákinn og stelpurnar voru sem betur fer sofandi á meðan það versta gekk yfir en það leið yfir mig í eitt skiptið þegar ég var að reyna að dröslast inn á kló.  Eftir tveggja tíma törn hætti ég að kasta upp en rauk þá upp í hita og var með óráði fram undir morgun, alls konar rugl í hausnum en ég hafði vit á að drekka svona teskeið af sódavatni á hálftíma fresti.  Ég sofnaði svo undir morgun og svaf fram að kvöldmat en þá skreiddist ég fram úr og gat loksins knúsað strákinn minn.  Svaf svo eins og steinn um nóttina og á miðvikudagsmorgun var ég bara furðu spræk og vægast sagt mjög létt á mér... :)  Þá var það hún Sonja sem fór að vera eitthvað lítil í sér en sem betur fer var ég ekki búin að smita hana, hún var bara að bjóða tvær nýjar tennur velkomnar með tilheyrandi átökum og svei mér þá ég sé glitta í tvær eða þrjár í viðbót.  

Við vorum fyrir löngu búin að ákveða að fara í Valshlaupið sem var haldið á miðvikudagskvöldinu og eftir heilan dag með aumri Sonju, þá hljómaði það eins og húsmæðraorlof að hlaupa 10 km í hávaða roki út á Ægissíðu, nýstigin upp úr gubbupest eður ei.  Stelpan rotaðist klukkan sex, barnapían mætti á svæðið og við skrönsuðum niðrá Hlíðarenda.  Tóku smá upphitun til að taka stöðuna á bumbunni og allt í góðu fyrir utan smá þróttleysi.  Ég fór rólega af stað en fyrsti km var í miklum mótvind og reyndi að koma mér fyrir þar sem ég gat náð í skjól en verið á þægilegum hraða.  Eftir að við komum niðrí Nauthólsvík þá fengum við vindinn í bakið og ég hreint og beint sveif og fauk til skiptis út að snúningspunkti, hrikalega gaman.  Jábbs nákvæmlega jafn ekki gaman að fara til baka og eftir einhver hundruð metra í pjakki sjálf þá hinkraði ég eftir næsta manni og við skiptumst á að skýla hvort öðru.  Nokkru síðar bættist Sibba í hópinn og við pikkuðum svo upp 2 hlaupar í viðbót.  Við Nauthólsvík  stungum við Sibba svo af og við tók æsispennadi endasprettur síðasta km.  Sérstaklega skemmtilegt að sjá Hannes frænda í Öskjuhlíðinni að hvetja og þá var eiginlega ekki um annað að ræða en að bíta á jaxlinn og gefa allt í þetta.  Tókst að gera smá bil á milli okkar og halda forystunni í mark en sjæks þetta var ekki gefið.  Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru þetta skemmtilegustu hlaupin eftir á, miklu skemmtilegra en að vinna með miklu forskoti.  Þórólfur varð 2. af körlunum svo við vorum voða kát með þetta, gömlu hjónin, fórum heim með skópar, handklæði og húfu í verðlaun.

 Þórólfur að ná honum Friðleifi í Öskjuhlíðinni
 Allt gefið í endasprettinn hjá okkur stelpunum
Gaman :)



17. maí 2012

Frjálsar, karfa og hlaup

Allir í fjölskyldunni að keppast við eitthvað þessa dagana.  Lilja var að keppa í frjálsum á miðvikudaginn og það er alltaf jafn gaman að fylgjast með henni, hún alveg elskar að spreyta sig á þrautunum.  Krakkarnir í hennar hóp fengu líka að spreyta sig á brautarhlaupi í fyrsta sinn, ræst með byssu og alles.  


Gabríel er í körfuboltakeppnisferð í Svíþjóð og það voru að berast góðar fréttir af honum.  Þeir eru búnir að spila tvo leiki í mótinu og unnu báða með nokkrum yfirburðum.  Það verður spennandi að sjá hvað gerist á morgun.  Það er svo gaman hjá honum og við fáum þau skilaboð frá þjálfurunum að hópurinn sé til fyrirmyndar.

Ég fór í Fjölnishlaupið í dag, generalprufa á hlaupaformið eftir læra meiðslin og til þess að missa mig ekki (planið var að taka þetta sem tempó á ca. 4:15 pace) þá skildi ég keppnisskóna eftir heima og fór í gömlu góðu Nimbusunum.  Veðrið svo fallegt en nokkuð hvasst og ég reyndi að nýta mér skjól eins og ég mögulega gat af stórum og stæðilegum karlmönnum.  Eftir 2 km var ég orðin önnur kona og þá var freistandi að reyna að halda því, hélt mér alla vega við efnið upp brekkurnar í lokin.  Tíminn 42:31 eða nákvæmlega skv. plani og 2. sætið, gaman.  Er orðin alveg stríheil og hlakka til að taka aðeins meira á því í næsta hlaupi en n.b. það verður ekki fyrr en eftir 4-5 daga recovery dútl og hana nú.

Fyrstu konur í 10 km, Eva, Fríða Rún og Jóhanna.  
N.b. allar yfir fertugt!

Þórólfur er sá eini sem er búin að vera spakur (er reyndar úti að hlaupa núna :) en hann fór í guttatúr með vinnufélögunum, gisti á hóteli og skellti sér í golf í morgun.  Gott að fá bóndann heim aftur og hann ætlar að vera í fríi á morgun, hafa það huggulegt og dingla sér með afmæliskellunni sinni.  Snelld! 

14. maí 2012

Skipt um skoðanir og sprett úr spori

Ein af þessum allt að gerast vikum liðin og svo sem alveg nóg framundan...  Ég var búin að skrá mig í djamm ferð með vinnunni á föstudaginn.  Planið var að bruna upp í sveit, útivera og fjör, pínu sukk, matur og tjútt fram eftir nóttu.  Hljómaði mjög vel fyrir nokkrum vikum (þegar ég skráði mig :) en þegar nær dró þá fann ég að mig langaði frekar að eyða deginum með fólkinu mínu.  Það var nefnilega sveitaferð í leikskólanum hennar Lilju sama dag.  Tókum Sonju með og ég sé ekki eftir því, frábær dagur hjá okkur.


Ég var líka búin að skrá mig í Kópavogsþríþraut fyrir löngu síðan en svo tognaði ég í lærinu og fékk kvef dauðans þannig að það var lítið úr undibúningi.  Ætlaði nú samt að láta vaða svo lengi sem ég væri orðin algóð í lærinu en eftir test á brautinni á miðvikudaginn fann ég að ég var ekki alveg klár í slaginn og frú skynsöm ákvað að segja pass.  Í staðinn fórum við hjónin á æfingu í Heiðmörkina, fengum einkaþjálfun í þetta sinn.  Það eru tvö ár síðan ég hljóp síðast í Heiðmörkinni (out síðasta sumar með bumbuna) og þvílík gleði.  Það er svo ótrúlega fallegt og skemmtilegt að hlaupa um stígana úti í náttúrunni, mmmmm....   Hlupum 21,5 km sem er það lengsta sem ég hef hlaupið eftir burð og ég var orðin svaðalega lúin eftir 16.  Man ekki eftir að hafa orðið svona þreytt á hlaupum í laaaangan tíma en þess ánægjulegra að komast í höfn og svo gott að finna aðeins fyrir átökunum í kroppnum, þ.e. á jákvæðan hátt.  Já, þetta var nefnilega fyrsti hlaupatúrinn frá því í Flóanum sem ég veit ekki af lærinu og fann ekkert fyrir stífleika eftir hlaup.  Jibbíkæjeiii...  Er farin að skoða hlaupadagskránna aftur :)

Við fórum í skemmtilegt (hlaupa) barna afmæli í eftirmiðdaginn en þar voru 10-12 krakkar allir fæddir 2011!  Sonja alveg í essinu sínu að skoða og leika við jafnaldra sína.  Þaðan lá svo leiðin í næstu sveit... í Reykjanesbæ.  Þórólfur vann gistinótt á Hótel Keflavík í Reykjanesmaraþoninu í fyrra og eftir að hafa reynt að nýta hana í rómantíska ferð fyrir okkur án árangurs, ákváðum við að taka stelpurnar með og skoða listahátíð barnanna sem var á dagskrá um helgina.  Við fórum í Víkingaheima, skoðuðum Íslending og útbjuggum víkíngaföt á bangsann hennar Lilju.  Við fórum líka út að borða og komum okkur svo fyrir í notalegu herbergi, spiluðum og höfðum það kósí.



Á sunnudaginn tókum við daginn snemma, Þórólfur og krakkarnir spenntir að komast í hótel morgunmatinn.  Ég er svo mikil lúðakona að ég tók delúx hafragrautinn minn með mér í nesti :þ   Hann er algjörlega það besta sem ég veit og ég tímdi ekki að skipta honum út fyrir eitthvað annað gums.  Eftir smá slökun fórum við í Vatnaveröldina sem kom verulega á óvart.  Frábær laug eða laugar fyrir barnafólk.  Nóg af dóti og skipulögð þannig að við gátum fylgst með báðum stelpunum í einu, ekkert stress.  Mæli eindregið með því að skjótast í dagsferð með ungana, alveg þess virði.  Eftir sundferðina heimsóttum við listasýningu leikskólabarna á Duus, Skessuna í hellinum og enduðum á Víkingaheimum þar sem við lærðum að flétta flott vinabönd og búa til lyklakyppur.

Í tilefni mæðradagsins var haldin Sushi veisla þegar við komum heim en það er uppáhald mömmunar (en ekkert endilega hinna).  Í þetta sinn fengum við sushi frá Tokyo sushi í Glæsibæ sem var bara alveg frábært.   Á morgun fer stóri strákurinn okkar til Svíþjóðar í keppnisferð í körfubolta.  Veit að það verður ótrúlega gaman hjá honum en pínu skrítið að senda hann 'einan' út í heim.

7. maí 2012

Ég er hlaupari

Í dag eru nákvæmlega 10 ár síðan ég læddist út í fyrsta sinn í skjóli myrkurs og hljóp lítinn hring í hverfinu.  Ég kom heim og skrifaði vegalengdina niður í litla bók.  Daginn eftir fór ég aftur sama hringinn og daginn þar á eftir. Nokkrum dögum síðar fór ég pínulítið lengra.  Ég fékk risastórar blöðrur innan á iljarnar og eftir tvær vikur á gömlu strigaskónum ákvað ég að kaupa alvöru hlaupaskó.  Fyrstu blöðrurnar voru grónar en ég fékk annan umgang á nýju hlaupaskónum.  Tveim vikum síðar fékk ég innlegg í hlaupaskóna og ójá, þriðja umferð af blöðrum innan á iljunum en það var líka í síðasta sinn.  Ég hafði lesið einhvers staðar að ef ég myndi halda út í 6 vikur þá væri ég orðinn 'hlaupari' og mig langaði til að verða svoleiðis.  Ég hef aldrei litið til baka og það hefur aldrei hvarflað að mér að hætta. 

Ég gleymi aldrei fyrsta keppnishlaupinu mínu en það var NFR hlaupið, 10 km þann 8. júlí 2002.  Við Þórólfur hlupum saman og stefndum á að hlaupa á innan við klukkutíma, sem við og gerðum, tíminn var 54:39.  Fimm dögum seinna hlupum við í H2O hlaupinu 10 km og tveim vikum seinna 10 km í Ármannshlaupinu.  Í Brúarhlaupinu sama ár í september rauf ég 50 mínútna múrinn og hljóp á 48:46.  Í því hlaupi gaf ég eftir á endasprettinum og vinkona mín var tveim sekúndum fljótari í mark.  Ég man það eins og það hafi gerst í gær að þann daginn ákvað ég að ALDREI myndi ég tapa aftur á endaspretti!  Held ég hafi staðið við það, man ekki betur.  Viku síðar keppti ég í Fjölnishlaupinu og varð 2. kona í mark og fékk mín fyrstu verðlaun á íþróttaferlinum.  Ég get svarið fyrir það, ég snerti ekki jörðina í marga daga á eftir.  Þegar maður hefur fengið smjörþefinn af pallinum þá er hann ómótstæðilegur.

Ég man vel eftir því þegar ég keypti fyrstu hlaupabuxurnar og ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að fara út að hlaupa í þeim hérna í bænum, beið með að prófa þær þangaði til ég fór í heimsókn til Orra bróður á Akureyri.  Ég á þær ennþá.  

Mér reiknast til að ég hafi tekið þátt í 208 keppnum í hlaupum, hjólreiðum og tví/þríþraut og oftar en ekki verið á verðlaunapalli.  Ég hef verið Íslandsmeistari í 5000 m hlaupi, liðakeppni í víðavangshlaupi, Laugavegs Ultra maraþoni, Hálfum járnkarli (setti Íslandsmet) og í götureiðhjólreiðum fyrir utan alla titlana í öldungaflokki.  Ég hef hlaupið 3 maraþon á ferlinum og hljóp á 5. besta tíma íslenskrar konu  frá upphafi árið 2008 á afmælinu mínu í Kaupmannahafnarmaraþoni (3:09).  Sigurinn í Laugavegshlaupinu það ár er sennilega sá sætasti á ferlinum.  Eitt mesta lánið mitt sem hlaupara er að eiga maka sem er líka hlaupari og skilur þetta allt saman.

Á þessum 10 árum hef ég hlaupið samtals 19.756 km sem er rétt tæplega hálfa leið í kringum hnöttinn og þá er að sjálfsögðu markmið að klára hringinn fyrir fimmtugt!  Á þessum 10 árum hef ég þurft að kljást við nokkur meiðsl en engin alvarleg.  Ég hef hlaupið í gegnum 6 óléttur, fjóra missi og 2 fullar meðgöngur og skotið tveimur dásamlegum manneskjum í heiminn á mettíma.  Í dag er ég 40 ára og nákvæmlega 40 kílóum léttari en ég var þegar ég var tvítug.

Hlaupin hafa kennt mér að maður uppsker eins og maður sáir og það er dýrmæt lexía.  Í gegnum hlaupin hef ég kynnst því fólki sem mér þykir hvað mest til koma í lífinu og því aumasta.  Það er gott að kunna að þekkja bæði.  Ég væri ekki sú manneskja sem ég er í dag ef ég hefði ekki farið að hlaupa og ég er ánægð með manneskjuna sem ég sé í speglinum á morgnana, mér þykir vænt um hana.  Hver er ég?  Ég er dóttir, systir, mamma, eiginkona, vinur, félagi, góð, vond, stríðnispúki, sigurvegari og svo ótal margt annað.  

Og já, ég er hlaupari.

1. maí 2012

Sonja komin á skrið

Erum að detta inn í ótrúlega skemmtilegt tímabil hjá henni Sonju okkar.  Hún fór að sitja sjálf á Skírdag, þá stækkar heimurinn, miklu skemmtilegra að sitja á gólfnu og leika.  Á sunnudaginn fór hún að skríða.  Hrikalega gaman að fylgjast með krílinu rífa sig upp á hendurnar (fara í planka :) og reyna svo að átta sig á því hvernig best sé að nota fæturnar til að koma sér áfram.  Nú er hún orðin 'krakki' sem getur gert heilmikið sjálf  en er ekki lengur litla ungabarnið okkar.  Vei og sniff.


Þetta er líka tímabilið þar sem mamma er sjúklega fyndin, alveg sama hvað hún gerir :)


Af mér og hlaupunum er það að frétta að ég er læra aftur á líkamann og finna hvar mörkin mín liggja á milli þjálfunar sem byggir upp og brýtur niður.  Formið er orðið svo gott að það er erfitt að kunna sér hóf en það er galdurinn við að ná árangri á mínum aldri.  Ég er að komast í gegnum þetta leiðinda kvef en hefði sennilega átt að slaka aðeins meira á strax og það helltist yfir mig.  Ég hélt áfram að hlaupa og tók eina strembna æfingu og allt í góðu.  Fór svo einn daginn í LANGAN göngutúr, var svo sem ekki planið en við Sonja enduðum í tæplega 17 km...   Daginn eftir á hlaupaæfingu stífnaði ég aftur aðeins upp í lærinu, hef sennilega verið með harðsperrur eftir göngutúrinn (nota aðra vöðva í labbinu) og það var nóg til að ég þoldi ekki sprettina.  Hvíldi mig vel um helgina og í gær fór ég bara smá hring í hverfinu og hlustaði á gott Podcast á leiðinni, viðtal við einn besta Masters Runner (Öldunga hlaupari) í heimi og röð mistaka sem hann gerði þegar hann ætlaði að verja heimsmeistaratitilinn sinn.  Mjög áhugavert og gott að heyra að þeir allra bestu gera kjánaleg mistök líka og þurfa að bakka, taka tillit til aldurs og aðlaga sig.  Finn sem betur fer ekkert fyrir lærinu lengur en reynslunni ríkari ætla ég að gefa mér góðan tíma í að styrkja og jafna mig alveg.  Búin að skrá mig á HD Fitness námskeið en það er alveg eðal í að styrkja og teygja á öllum kroppnum.  Hlakka til að byrja!