Fyrir viku síðan, á föstudagskvöldið, fór stóra lufs (Lilja) að kvarta undan magapínu og klukkutíma seinna kom fyrsta gusan. Þvílík og önnur eins gubbupest, hún var alveg á röngunni litla skinnið langt fram eftir nóttu og foreldrarnir frekar sloj líka. Hún var svo eftir sig eftir pestina að hún var heima í þrjá daga að jafna sig almennilega og ná kröftum aftur.
Lilja að jafna sig eftir pestina með Gatorade.
Systurnar að leika í herberginu sínu.
Við áttum von á honum Gabríel okkar heim frá Svíþjóð á mánudagskvöldið úr 6 daga keppnisferð. Við vorum búin að fá pössun til að geta bæði farið til Keflavíkur og tekið á móti okkar manni. Ég fór á sprettæfingu, þvílíkt gaman í bongóblíðu, heim í sturtu, var rétt búin að renna niður síðasta bitanum af kvöldmatnum og barnapían á leiðinni upp tröppurnar þegar hmmmmþ... Voðalega er ég eitthvað skrítin. 10 mínútum seinna var ljóst að ég var ekki að fara eitt né neitt nema inn í rúm. Og svo byrjaði ballið en ég hef aldrei upplifað aðra eins vanlíðan og gubbupest, ojjjj... Þórólfur var farin að ná í strákinn og stelpurnar voru sem betur fer sofandi á meðan það versta gekk yfir en það leið yfir mig í eitt skiptið þegar ég var að reyna að dröslast inn á kló. Eftir tveggja tíma törn hætti ég að kasta upp en rauk þá upp í hita og var með óráði fram undir morgun, alls konar rugl í hausnum en ég hafði vit á að drekka svona teskeið af sódavatni á hálftíma fresti. Ég sofnaði svo undir morgun og svaf fram að kvöldmat en þá skreiddist ég fram úr og gat loksins knúsað strákinn minn. Svaf svo eins og steinn um nóttina og á miðvikudagsmorgun var ég bara furðu spræk og vægast sagt mjög létt á mér... :) Þá var það hún Sonja sem fór að vera eitthvað lítil í sér en sem betur fer var ég ekki búin að smita hana, hún var bara að bjóða tvær nýjar tennur velkomnar með tilheyrandi átökum og svei mér þá ég sé glitta í tvær eða þrjár í viðbót.
Við vorum fyrir löngu búin að ákveða að fara í Valshlaupið sem var haldið á miðvikudagskvöldinu og eftir heilan dag með aumri Sonju, þá hljómaði það eins og húsmæðraorlof að hlaupa 10 km í hávaða roki út á Ægissíðu, nýstigin upp úr gubbupest eður ei. Stelpan rotaðist klukkan sex, barnapían mætti á svæðið og við skrönsuðum niðrá Hlíðarenda. Tóku smá upphitun til að taka stöðuna á bumbunni og allt í góðu fyrir utan smá þróttleysi. Ég fór rólega af stað en fyrsti km var í miklum mótvind og reyndi að koma mér fyrir þar sem ég gat náð í skjól en verið á þægilegum hraða. Eftir að við komum niðrí Nauthólsvík þá fengum við vindinn í bakið og ég hreint og beint sveif og fauk til skiptis út að snúningspunkti, hrikalega gaman. Jábbs nákvæmlega jafn ekki gaman að fara til baka og eftir einhver hundruð metra í pjakki sjálf þá hinkraði ég eftir næsta manni og við skiptumst á að skýla hvort öðru. Nokkru síðar bættist Sibba í hópinn og við pikkuðum svo upp 2 hlaupar í viðbót. Við Nauthólsvík stungum við Sibba svo af og við tók æsispennadi endasprettur síðasta km. Sérstaklega skemmtilegt að sjá Hannes frænda í Öskjuhlíðinni að hvetja og þá var eiginlega ekki um annað að ræða en að bíta á jaxlinn og gefa allt í þetta. Tókst að gera smá bil á milli okkar og halda forystunni í mark en sjæks þetta var ekki gefið. Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru þetta skemmtilegustu hlaupin eftir á, miklu skemmtilegra en að vinna með miklu forskoti. Þórólfur varð 2. af körlunum svo við vorum voða kát með þetta, gömlu hjónin, fórum heim með skópar, handklæði og húfu í verðlaun.
Þórólfur að ná honum Friðleifi í Öskjuhlíðinni
Allt gefið í endasprettinn hjá okkur stelpunum
Gaman :)