9. apr. 2012

Páska fartlek og fermingarmyndataka

Já við hjónin erum búin að vera dugleg að hreyfa okkur í páskafríinu, vinna upp á móti breyttu mataræði og svo náttúrulega bara okkur til skemmtunar.  Í gær tókum við sértaklega skemmtilega æfingu saman, vorum hálfveigis búin að kvíða henni, klukkutíma upphitun og svo 10 * 90 sek hratt/rólega.  Hljómar eitthvað svo óendanlega langt... en af því við vorum saman í þessu þá var þetta bara ekkert mál eftir allt saman.  Ég hljóp af stað aðeins á undan og í öðrum hraða kaflanum náði Þórólfur mér og fór fram úr.  Þá var málið að reyna að missa ekki sjónar af honum þangað til við snérum aftur eftir 5 spretti (tókst ekki :).  Við snúninginn var ég aftur komin á undan og nú var komið að Þórólfi að elta.  Hann náði mér aftur í næst síðasta, en nú ég að sjá í skottið á honum alla leið.  Svo var bara rólegheita niðurskokk heim, við alsæl með æfinguna og hvort annað, win, win.

Í dag er önnur gæðaæfing á dagskrá og við erum búin að plana hana í huganum.  3*10 mínútur á T-hraða (threshold) sem er í mínu tilfelli svona mitt á milli 10 km og hálfmaraþons hraða, með 5 mínútna skokk hvíldum á milli.  Við ætlum að taka hana í Laugardalnum, í blíðunni.  Náum góðum bruna eftir veislur gærdagsins.

Á eftir ætla ég að spreyta mig í fyrsta sinn á að gera Rice Krispies kransaköku fyrir ferminguna hans Gabríels.  Það verður spennandi að sjá hvernig það tekst til!   Klára jafnvel bara allt kökustúss í dag og þarf þá ekki að hugsa meira um það.

Við fórum í fermingar og fjölskyldumyndatöku á laugardaginn sem gekk eins og í sögu.  Skemmtilegur ljósmyndari, fínar aðstæður og við komum afslöppuð og fín út úr þessari reynslu.  Vissum ekki hverju við ættum von á því við lentum í skelfilegri 'fjölskyldumyndatöku' reynslu fyrir 4 árum og vorum rétt að jafna okkur eftir hana.  Grautfúll og lífsleiður ljósmyndari sem gelti á krakkana til skiptis (Gabríel 9 og Lilja 1 árs): 'Strákur, brostu. Stelpa sittu kyrr. Strákur stattu beinn.  Stelpa brostu....!'.  

Fékk að smella af á minni vél nokkrum myndum þegar tækifæri gafst, á meðan fermingardrengurinn fór að skipta um föt.  



Engin ummæli:

Skrifa ummæli